03.02.1953
Neðri deild: 64. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í C-deild Alþingistíðinda. (3386)

183. mál, skattfrelsi sparifjár

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, vil ég taka fram, að eins og þetta mál liggur fyrir núna hérna, þá er það eins og hvert annað uppboðsmál. Það vita allir, að núverandi stjórnarflokkar eru búnir að gera samkomulag um það sín á milli í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna, að skattar og gjöld séu óbreytt, þ. e. fyrir það ár, sem yfir stendur. Samt stendur hér í þessu frv., að ákvæði þess um að undanþiggja sparifé sköttum skuli gilda á árinu 1953, sem sé á yfirstandandi ári. Nú er hins vegar búið að telja fram. — Ég veit ekki, hvort mönnum getur verið alvara með svona málsmeðferð, hvað sem menn meina nú um málið sjálft. — Menn eru núna búnir að telja fram þessar innistæður. T. d. rann út fresturinn til þess að skila framtölum í Rvík núna 31. jan. Það gæti því aldrei komið til mála, að þessi lög gætu tekið gildi fyrr, en á næsta ári, og hefði því enga praktíska þýðingu fyrir borgarana í ár, þótt það gengi nú fram.

Eins og hér hefur verið tekið fram af hv. þm. V-Húnv., er verið að athuga skattalögin í mþn., og ef menn vilja vinna skipulega að þeirri endurskoðun og að allir þættir skattamála fái hæfilega athugun, þá er auðvitað skynsamlegast að vísa þessu máli núna til stjórnarinnar, þar sem það getur ekki hvort sem er komið til framkvæmda á því ári, sem nú er að líða, og skattamálin eru til athugunar í mþn. Það ættu nú satt að segja allir að geta sameinazt um þá aðferð. Hitt er svo annað mál, að ef menn ætla að nota þetta mál til þess að metast um það eða til að sýnast betri en aðrir, þá munu menn ekki vilja aðhyllast skynsamlegar vinnuaðferðir.

Ég vil einnig benda á það, sem ég hygg að hv. þm. V-Húnv. hafi raunar bent á, að málið er ekki eins einfalt og ráða mætti af þessu frv. Ég hygg, að ef hnigið yrði að því ráði að undanþiggja sparifé skattgreiðslu, sem ég vil engan veginn taka fyrir að geti komið til mála, þá yrði niðurstaðan sú, að það mundi ekki vera talið nóg að undanþiggja skattgreiðslu aðeins sparifé á innistæðureikningum, eins og hér er gert ráð fyrir. Ef það væri gert eitt út af fyrir sig, þá mundi það verða til þess, að svo erfitt sem það hefur nú verið undanfarið að selja t. d. ríkisskuldabréf eða skuldabréf með ríkisábyrgð og önnur verðbréf til þess að fá lán til langs tíma, þá mundi það verða gersamlega útilokað, að nokkur maður liti við slíkum bréfum. eftir að búið væri að gera einhliða ákvörðun um skattfrelsi sparifjár. Þess vegna býst ég fremur við, að yrði niðurstaðan sú að undanþiggja spariféð sköttum, þá yrði einnig að undanþiggja sköttum verðbréf, a. m. k. ríkistryggð verðbréf. En þá kemur aftur á móti til greina, ef undanþegið er skatti sparifé og verðbréf með ríkisábyrgð, að þá má gera ráð fyrir, að allt laust fjármagn leiti í þetta tvennt, í sparisjóði og ríkistryggð verðbréf, og ómögulegt verði að bjóða út annars konar skuldabréf. Kemur þá upp spurningin, hvort fara yrði enn þá lengra og undanþiggja þá skatti öll verðbréf. — Ég vil sérstaklega benda á þessa hlið málsins, vegna þess að þetta mál hefur verið talsvert ýtarlega athugað í fjmrn., og ástæðan til þess, að t. d. ég er ekki búinn að gera till. um að undanþiggja sparifé skatti, er aðallega sú, að það hefur viðtækar afleiðingar í þá stefnu, sem ég nú hef verið að lýsa, og athugunum á því, hvernig slíkt mundi verka á fjárhagsmálin, er ekki lokið. Slíkar athuganir standa einmitt yfir.

Eitt af því, sem er allra erfiðast í öllum okkar þjóðarbúskap, er það, hve erfitt er að fá lán til langs tíma. Við höfum alveg nýlega sett hér löggjöf á Alþingi um Framkvæmdabanka, og honum er ætlað að afla fjár til langs tíma. Ef næsta skref þingsins yrði svo að gera sparifé skattfrjálst, en ekki verðbréf, þá er það nokkurn veginn auðséð, að jafnvel þótt það tækist að viðhalda hér fjárhagslegu jafnvægi og auka traust á peningunum á næstu árum, þá mundu menn alls ekki kaupa nein skuldabréf frá þessum banka, af því að þau væru ekki skattfrjáls eins og spariféð.

Þetta mál er geysilegt stórmál, bæði nokkuð stórt frá skattalegu sjónarmiði, en þó enn þá stærra sem almennt fjárhagsmál, af því að inn í málið blandast ekki aðeins, hvort hægt muni að auka sparnaðinn, heldur líka inn í hvaða farvegi er hægt að beina fjármagninu. Og ég hygg, að allir hv. alþm. séu sammála um það, að svo gott sem það er, að menn leggi fé sitt á sparisjóð, þá er það þó enn þá betra, ef menn vilja festa féð í skuldabréfum til langs tíma. Allar þjóðir keppa fyrst og fremst að því að reyna að fá menn til þess að festa féð til langs tíma í slíkum skuldabréfum. Það er eitt helzta áhugamálið hjá mörgum þjóðum að fá almenning til þess að gera það. Það er aðlaðandi hugmynd að gera spariféð skattfrjálst. Menn segja, að það sé skattfrjálst í Finnlandi. Ég hef nú ekki rannsakað, hvernig því er varið, en nýlega hefur þetta málefni verið athugað mjög gaumgæfilega í Danmörku, og niðurstaðan hjá þeim varð sú að veita hlunnindi nokkur í skatti þeim, sem legðu fyrir sparifé, en þau hlunnindi voru mjög takmörkuð og mundu þykja mjög lítil hér.

Réttast er að viðhafa þá aðferð núna að vísa málinu til stjórnarinnar, sem þýðir mþn. í skattamálum, þar sem það fær eðlilega athugun, og það styður þá skoðun, að þetta mál getur ekki haft neina þýðingu fyrir skattaálagninguna árið 1953.