03.02.1953
Neðri deild: 64. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í C-deild Alþingistíðinda. (3387)

183. mál, skattfrelsi sparifjár

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég get ekki stillt mig um að segja nokkur orð um þetta mál, en skal þó ekki vera langorður til þess að tefja ekki tímann um of.

Svo sem hv. þdm. munu minnast, þá var lagt hér fyrir þessa hv. d. rétt fyrir jólin frv. til laga um tekjuskattsgreiðslur einstaklinga, sem við hv. 5. þm. Reykv. stóðum að. Þar sem nú er komið nærri þinglokum, virðast litlar horfur á því, að það mál nái frekari afgreiðslu að sinni á yfirstandandi þingi. Þess vegna liggur það þá næst fyrir, hvort hægt er að fá fram einhverjar minni háttar breyt. og lagfæringar á skattakerfinu, heldur en það frv. gerði ráð fyrir, og liggur þá að minni hyggju næst fyrir að athuga einmitt það mál, sem hér er til meðferðar í dag, þ. e. a. s., hvort tök væru á því að gera sparifé skattfrjálst.

Hæstv. fjmrh. vék að því mjög réttilega í sinni ræðu, að þetta mál hefði mjög mikil og víðtæk áhrif á fjármálakerfi þjóðarinnar yfirleitt. Og sannleikurinn er sá, að skattamál yfirleitt hafa slík áhrif, og mér hefur oft virzt því vera allt of lítill gaumur gefinn af löggjafarvaldinu, hversu skattamál hafa stórfelld áhrif á alla þróun fjármálanna í landinu. Það virðist oft og tíðum hafa verið farin dálítið öfug leið. Það er talað nú réttilega um margvíslega erfiðleika á efnahagssviðinu, sem við eigum við að stríða. Það er oft talað um erfiðleika á að fá lánsfé til margvíslegra framkvæmda, sem leiða af sér aftur það, að æ meiri og háværari kröfur eru gerðar til ríkisins um fyrirgreiðslu á öllum sviðum varðandi útvegun fjár til margháttaðra framkvæmda. Þessu er svo aftur mætt með því, að það verður að hækka skatta eða tolla, til þess að ríkið geti staðið undir þessum kröfum um fjárframlög til framkvæmda, sem eru eðlilegar og nauðsynlegar fyrir þjóðfélagið. Hins vegar virðist því ekki hafa verið eins gaumur gefinn, hvort ekki mætti fara aðra leið, hvort ekki mætti með einhverju öðru móti skapa aðstæður til þess að auka möguleikana á öflun lánsfjár, að auka vilja einstaklinganna í landinu til þess að verja fé sínu til skynsamlegra hluta, til þess þar með að létta byrðunum beinlínis af ríkissjóði. Þetta er að minni hyggju sú eina rétta leið, sem fara verður, ef við ætlum ekki að stefna út í þá ófæru, að ríkið verði að taka yfirleitt alla framfærslu borgaranna á sínar herðar, sem hlýtur auðvitað að leiða til þess, sem hæstv. fjmrh. minntist hér á, að það séu ekki möguleikar til þess að létta á sköttum, heldur verði þvert á móti með vaxandi þróun slíks ástands að leggja á aukna skatta og aukna tolla. Þetta er mjög mikið alvörumál, og það er mikilsvirði fyrir hæstv. Alþingi að gera sér þess grein, áður en í fullt óefni er komið, hvort hér er ekki stefnt í öfuga átt við það, sem fara á. Og mér virðist, að einmitt þetta frv., sem að sjálfsögðu snertir aðeins einn þátt skattalöggjafarinnar, marki nokkurt spor í þá átt að snúa til baka af þeirri leið, sem farin hefur verið, — ég vil segja óheillaleið, — þ. e. a. s. þeirri leið að reyna að halda öllu gangandi með sífellt auknum og vaxandi álögum á þjóðfélagsborgarana, þannig að nærri lætur, að þeir sligist undir þeim álögum. Virðist mér, að hér sé um að ræða mál, sem sé þess virði, að því sé mjög vandlega gaumur gefinn, og jafnframt hygg ég, að það séu ekki fram komin hér í þessari hv. d. nein þau rök, sem séu það veigamikil, að hægt sé að réttlæta það að vísa þessu máli frá, heldur beri að samþ. það þegar á þessu þingi.

Það þarf í rauninni ekki að gefa skýr rök fyrir málinu umfram það, sem gert hefur verið af þeim hv. frsm. fjhn., 5. þm. Reykv., og hv. fyrri flm. málsins, hv. þm. A-Húnv., og í þeim mjög greinargóðu umsögnum, sem fylgja með nál. meiri hl. fjhn. frá öllum bönkunum hér í Rvík, þar sem þetta mál er mjög rækilega tekið til meðferðar og þar sem m. a. er sagt í umsögn bankastjóra Búnaðarbankans, að öllum, sem um þetta mál vilji hugsa af sanngirni og án barnalegrar tortryggni, sé það ljóst, hvílíkt nauðsynja- og réttlætismál er um að ræða.

Ég vildi því ekki láta þessa umr. svo hjá líða að lýsa ekki minni afstöðu til þessa máls, og ég tel, að það sé þess eðlis, að það beri að afgr. það pósitívt á þessu þingi.

Það hafa verið færðar fram þær röksemdir gegn málinu, — í rauninni þær einu röksemdir, — að það séu erfiðleikar á því fyrir skattayfirvöld að sannreyna rétt framtöl manna, ef eigi að taka af bönkunum skylduna til þess að gefa upp spariféð. Ég hygg, að það sé almenn skoðun bankamanna yfirleitt, að það hafi verið mjög ógæfulegt fyrir þróun sparifjársöfnunar í landinu, að bönkunum var gert skylt að gefa upp spariféð. Ég skal játa það, að mér er ekki kunnugt um, hversu þessu er háttað erlendis, en mér er sagt, að víða sé þessi regla að minnsta kosti alls ekki látin gilda og sé talið mjög óheppilegt að hún gildi. Og ég man eftir, að einn mjög kunnur bankastjóri sagði við mig fyrir nokkrum árum, að hann teldi þetta vera eitthvert óskynsamlegasta ákvæðið, sem sett hefði verið inn í skattalöggjöfina.

Skattstofan bendir á það, að það séu vissir erfiðleikar á því að sannreyna það, hvernig menn hafi aflað sér fjár, ef þessi heimild sé úr lögum tekin. Þetta er að vissu leyti rétt. Á það benti líka hv. þm. V-Húnv. En við skulum ekki loka augunum fyrir því, að þessir erfiðleikar eru þegar til staðar í mjög ríkum mæli. Við vitum það ákaflega vel, að fólk tekur iðulega fé út úr bönkunum fyrir áramót til þess að láta það ekki liggja inni í bönkum, þegar áramótauppgjör fer fram. Þess verður mjög vart. Og jafnframt er hitt, sem hefur haft mjög alvarleg áhrif á sparifjársöfnunina og notkun sparifjár á heilbrigðum grundvelli, að mér er sagt af þeim mönnum, sem fást við skipti á búum, að það sé mjög algengt, að jafnvel tugir þúsunda króna finnist heima hjá fólki, sem það hefur ekki viljað leggja inn í bankastofnun. Þetta er náttúrlega atriði, sem ber mikla nauðsyn þjóðfélagslega að reyna með einhverjum ráðum að vinna á móti. Annaðhvort liggur fólk með það fé, sem er dregið út úr bönkunum. eða það sem verra er, ef til vill, að það lendir í hvers konar braski, sem er í alla staði óheilbrigt fyrir fjármálaþróunina í landinu. Þetta gerir það að verkum, að það eru þegar fyrir hendi mjög miklir erfiðleikar fyrir skattayfirvöld að kynna sér, hvernig er með fjáreign manna í peningum. Svo er nú enn fremur það. svo að maður haldi sér nokkuð við það dæmi, sem skattstofan tekur í sinni umsögn, að við skulum segja, að maður hafi átt og eigi í banka nokkurt sparifé, við skulum segja 30–40 þús. kr. um áramót, en svo á hann um næstu áramót enga innistæðu í bankanum, vegna þess að hann hefur verið skattlagður og hann kærir sig ekki um það. Ef hann segir við skattayfirvöldin: Ja, ég hef eytt þessu fé, — þá er ekki ljóst, að það sé möguleiki eftir gildandi skattalöggjöf fyrir skattayfirvöldin að gera nokkurn hlut annan, en að taka það gott og gilt.

Eins og nú er ástatt með okkar skattkerfi, þá eru þeir, sem eyða öllu sínu fé, lausir við að borga af því eignarskatt, en þeir, sem leggja fé til hliðar, sýna ráðdeildarsemi og sparnað og verja því beinlínis til þjóðnytjaframkvæmda í þjóðfélaginu, ef þeir leggja það inn í banka eða kaupa verðbréf, verða að gjalda þess, og þeir eru látnir borga aukaskatta til ríkisins af þessu fé sínu. Þetta sýnist mér vera svo óheilbrigt og óskynsamlegt með hliðsjón af heilbrigðri fjármálaþróun í landinu, að ekki eigi að halda þessu kerfi áfram. Hitt skal ég taka undir, að það kann vel að vera, að á þessu frv. séu einhverjir annmarkar, og þá sérstaklega það, sem bent var á bæði af hv. þm. V-Húnv. og hæstv. fjmrh., að það getur að sjálfsögðu verið ákaflega varhugavert að veita mun meiri forréttindi fé, sem liggur inni í sparisjóðum, heldur en því fé, sem varið er til kaupa á ríkisskuldabréfum og gildir raunverulega alveg það sama um, og auðvitað hefur mjög mikla þýðingu þjóðfélagslega, að fólk vilji kaupa ríkisskuldabréf. Af þeim sökum hefði mér fundizt það ekki óeðlilegt, að það hefði verið tekið inn í 1. gr. frv., að jafnframt væru undanþegin skatti ríkisskuldabréf og jafnvel einnig skuldabréf með ríkisábyrgð, því að það er auðvitað mjög óheppilegt, ef komið verður í veg fyrir það, að fólk vilji leggja fé sitt til kaupa á ríkisskuldabréfum.

Varðandi þau ummæli hæstv. fjmrh., að það hefði verið gengið út frá því, að ekki yrðu gerðar neinar breytingar á skattalöggjöfinni nú á þessu þingi, þá verð ég að játa það, að mér er ekki kunnugt um það samkomulag að öðru leyti en því, að það hafði verið gert ráð fyrir því, að það yrðu afgreidd tekjuhallalaus fjárlög. Það er rétt. En að öðru leyti er mér ekki kunnugt um, að það hafi verið samið um það, að það mætti ekki gera neina breytingu á gildandi skattalöggjöf. — Og svo er þá því til að svara varðandi þetta mál, að ég hygg, að það liggi nokkurn veginn ljóst fyrir, að það muni ekki hafa ýkjamikil áhrif á tekjuskatt eða eignarskatt ríkisins, þó að þetta frv. yrði að l. Það kann vel að vera, að það séu einhverjir teknískir örðugleikar á því að láta það gilda á þessu ári, — ég skal ekki um það segja, — en það væri náttúrlega mjög æskilegt, að það gæti orðið. Ég tel, að það væri skynsamlegt og til bóta fyrir fjárhagskerfi þjóðfélagsins í heild, að frv. sem þetta næði fram að ganga.