05.02.1953
Neðri deild: 68. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í C-deild Alþingistíðinda. (3394)

183. mál, skattfrelsi sparifjár

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég veit ekki, hvort ástæða er til að halda áfram umr. lengi um þetta mál, en mér er tjáð, að hv. Ed. hafi nú lokið störfum, og málið hefur ekki enn verið tekið til meðferðar í þeirri hv. deild. En ég hef leyft mér að flytja brtt. við frv. á þskj. 780 og skal í mjög stuttu máli gera grein fyrir efni hennar. Brtt. er um það, að á eftir 3. gr. komi ný gr., þess efnis, að ákvæði 1.–3. gr. laganna gildi um ríkisskuldabréf og eigin skuldabréf Framkvæmdabanka Íslands, sjóða Búnaðarbanka Íslands, Fiskveiðasjóðs Íslands og iðnlánasjóðs, eftir því sem við á hverju sinni.

Þau hlunnindi, sem frv. gerir ráð fyrir, taka eingöngu til sparifjár. Nú er það svo, að talsvert mikið er um það, að menn fái því opinbera fé sitt til varðveizlu, án þess að þar sé um sparifé að ræða samkvæmt venjulegri merkingu þess orðs. Og hlunnindin, sem ákveðin eru í frv., mundu þó ekki taka til þess fjár. En ríkið sjálft og ýmsar opinberar stofnanir gera töluvert að því — sumar þeirra byggja starfsemi sína að nokkuð miklu leyti á því — að veita viðtöku slíku fé til langs tíma með sölu eigin skuldabréfa. Meðal þeirra stofnana, sem gert er ráð fyrir að afli sér fjár á þennan hátt, er Framkvæmdabanki lslands, sem stofnaður hefur verið með lögum á þessu þingi nú fyrir fáum dögum, og sama er að segja um fleiri slíkar stofnanir. Mér sýnist hins vegar, ef frv. væri samþ. eins og það nú er, þannig að hlunnindin taki eingöngu til sparifjár, að þá mundi það hafa þær afleiðingar, að menn mundu ekki kaupa slík skuldabréf, ekki binda fé sitt til langs tíma, af því að þá yrðu þeir að greiða skatt af því fé, en slyppu hins vegar við að greiða hann, ef þeir leggja féð inn í sparisjóði. Slík ákvæði mundu því verða mjög afdrifarík fyrir verðbréfamarkaðinn í landinu, og ég held, að það sé ekki stefnt í rétta átt, því að löggjafinn ætti fremur að stuðla að því með aðgerðum sínum að örva þann markað, heldur en að draga úr honum. Við þurfum mjög á því að halda eins og sakir standa, að afla fjár til margs konar framkvæmda, og þessa fjár verður að afla sem lána eða innlána til langs tíma, annars getur það ekki komið að notum til þessara framkvæmda.

Af þeim ástæðum, sem ég nú hef nefnt, hef ég leyft mér að bera fram þessa brtt. á þskj. 780. Ég hef haft mjög skamman tíma til þess að athuga það, hvernig till. ætti að vera og hversu víðtæk, og má vel vera, að hér hefði átt að tiltaka fleiri stofnanir, fleiri tegundir skuldabréfa heldur en þarna eru talin, en það er nokkur vandi að greina þar á milli, og ég hef því tekið það ráð að telja ríkisskuldabréf og svo eigin skuldabréf nokkurra stofnana, sem mér virðist vafalaust að eigi að njóta þessara hlunninda, ef að lögum yrðu.