05.02.1953
Neðri deild: 68. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í C-deild Alþingistíðinda. (3396)

183. mál, skattfrelsi sparifjár

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru aðeins fáein orð af tilefni þess, sem hv. þm. A-Húnv. tók fram, og að sumu leyti til þess að bæta fáeinum orðum við það, sem ég sagði hér í gær.

Ég hef talið mér trú um, að mér væri það eins ljóst og flestum öðrum, að það þyrfti að auka sparnaðinn. Það má heita, að ég hafi ekki opnað minn munn svo undanfarin ár í sambandi við fjárhagsmál, að ég hafi ekki einmitt lagt áherzlu á það atriði, og þá ekki sízt í sambandi við þann gífurlega fjárskort, sem alltaf er, þegar á að leggja í einhverjar meiri háttar framkvæmdir. Þegar við eigum að leggja fram sjálf fé til meiri háttar framkvæmda, þá lendum við ætíð í vandræðum vegna þess, hve lítil eftirspurnin er eftir skuldabréfum, sem þarf þá að selja til þess að koma fyrirtækjunum á fót. Bankarnir geta ekki lánað til langs tíma til nýrra framkvæmda, vegna þess að þeir byggja starfsemi sína á sparifé, sem lagt er inn þar og getur orðið tekið út hvenær sem er, m. ö. o. sparifé, sem lagt er inn til stutts tíma, og enn fremur er svo mikil eftirspurn eftir rekstrarlánum í bönkunum, að þeir geta ekki einu sinni fullnægt þeirri eftirspurn með því fé, sem þeir hafa, hvað þá heldur haft aflögu nokkurt fé til fjárfestingarlána. Úr þessu ætlum við að reyna að bæta með ýmsu móti, og eru ýmsar bollaleggingar um það. Við tölum um að reyna að koma á meira fjárhagslegu jafnvægi til þess að auka traustið á peningunum, og það er vitanlega nauðsynlegt, og við höfum sett á fót sérstakan Framkvæmdabanka til þess að reyna að safna fé til langs tíma, sem þá mætti lána aftur til langs tíma í ný fyrirtæki. Okkur er það öllum ljóst áreiðanlega, að það, sem gerir það að verkum meðal annars, hversu sparnaður er lítill, er það, hvernig hér hefur verið farið með fjármálin, að verðgildi sparifjárins hefur minnkað stórkostlega svo að segja árlega og menn, sem hafa lagt fé á vöxtu, orðið fyrir þungum búsifjum. Andrúmsloftið er nánast þannig eða hefur verið alveg fram að þessu þannig, að menn hafa alls ekki talið sér hagkvæmt að eiga innistæður eða reiðufé, heldur viljað koma öllum fjármunum sinum í fastar eignir. Áhrifin eru svo þau á lánsfjármarkaðinn, sem ég var að lýsa áðan.

Nú er spurningin: Hvað er hægt að gera fleira til að auka sparnaðinn? Ég fyrir mitt leyti hef undanfarið mjög verið að hugsa um að gera það að minni till., að sparifé eða þeir fjármunir, sem menn eiga í peningum eða sparisjóðsinnistæðum, væru gerðir skattfrjálsir að einhverju eða öllu leyti. Ég hef haft þetta mál til athugunar nokkuð undanfarið. Ég skal segja mönnum alveg hreinskilnislega frá minni reynslu í þessu og hvernig stendur á því, að ég hef ekki enn þá gert þetta að minni till. hér á hv. Alþ. Ástæðan er blátt áfram sú, að eftir því sem ég hef skoðað þetta mál meira, eftir því hefur það komið betur í ljós að málið er þess eðlis, að það þarf mjög vandlegan undirbúning og það þarf að gæta þess, þegar stigið er skref í þá átt að létta sköttum af sparifé, að það verki ekki að vissu leyti öfugt við tilganginn eða að minnsta kosti verði ekki þeir gallar á, sem geti verið hættulegir í framkvæmdinni.

Eitt af því fyrsta, sem kemur til íhugunar í því sambandi, er einmitt það, sem hér hefur nokkuð verið rætt, en mér virðist fyrsti flm. þessa máls ekki hafa gert sér ljóst að skipti jafnmiklu máli og það gerir, og það er hversu víðtækar undanþágurnar frá sköttum eigi að vera. Hugsum okkur að farin væri sú leið að lögleiða, að ekki skuli greiða skatt af sparifjárinnistæðum, eins og flm. þessa frv. hafa gert uppástungu um með frv. Þá fá menn mikil hlunnindi í sambandi við það að leggja fé inn á sparisjóð, og það er út af fyrir sig gott og blessað. En þá kemur annað til greina. Ef menn hafa þessi hlunnindi á það fé, sem þeir leggja inn á sparisjóð, þá er vitað mál, að allir, sem eru skattskyldir, leggja allt það fé, sem þeir ætla að leggja fyrir, inn á sparisjóðina. Það kemur þá vitanlega alls ekki til mála, eftir að slíkt hefur verið lögfest, að nokkur maður eða nokkurt skattskylt fyrirtæki mundi geyma fé í nokkru öðru en á sparisjóðsreikningum, þar sem féð væri laust og hægt að taka það út með ársfresti eða svo. Með öðrum orðum, það væri þá alveg gersamlega loku fyrir það skotið, að nokkur maður vildi kaupa ríkisskuldabréf eða skuldabréf með ríkisábyrgð, hvað þá önnur verðbréf. Ef þessi framkvæmd væri gerð ein út af fyrir sig, þá mundi það m. ö. o. gersamlega skjóta loku fyrir það, að það tækist að byggja upp verðbréfamarkað í landinu. En eitt af því, sem okkur er allra nauðsynlegast, er að reyna einmitt að byggja upp verðbréfamarkað, að reyna að koma málum þannig fyrir, að þeir, sem hafa fé, kaupi eitthvað þó nokkuð af skuldabréfum til langs tíma og að það skapist í landinu nokkuð stöðugur og jafn markaður fyrir verðbréf, þannig að menn geti selt þau aftur. t. d. ef þeim liggur mikið á. Og einmitt stofnuninni, sem við höfum verið að setja á fót núna á þessu þingi, Framkvæmdabankanum, er ætlað að vinna að því að skapa slíkan verðbréfamarkað. Okkur er þetta svo stórkostleg nauðsyn, að það er ómögulegt að hugsa sér, að við getum komizt nokkuð áleiðis með þau miklu fyrirtæki, sem við höfum á prjónunum, ef okkur tekst ekki að skapa svona verðbréfamarkað á næstu árum. Þess vegna hef ég komizt að þeirri niðurstöðu við þær bollaleggingar, sem ég hef haft í þessu máli, að ef við leggjum út á þá braut, sem mér finnst vel geta komið til mála, að undanþiggja sparifé sköttum, þá verðum við að láta það sama ná einnig til þeirra skuldabréfa, sem við viljum reyna að skapa markað fyrir. Það er óhugsandi, finnst mér, að gera það öðruvísi. Og mér finnst, að allir skynsamir menn hljóti að sjá þetta. En þá kemur upp eitt vandamál í sambandi við það, sem hefur valdið því, að þessum athugunum öllum saman — a. m. k. að því leyti, sem ég hef verið riðinn við þær — er ekki lokið, og það er þetta: Hvaða skuldabréf eigum við þá að taka undir fríðindin? Eigum við aðeins að láta fríðindin ná til ríkisskuldabréfa eða bréfa með ríkisábyrgð, eða eigum við að láta fleiri bréf koma til greina í þessu sambandi? Og þeir, sem hafa hugsað um þetta í alvöru, hafa nokkuð mismunandi skoðanir á því, hversu langt skuli ganga í þessu tilliti. Þeir benda á það t. d., að ef menn hafa ríkisskuldabréfin eingöngu undir hlunnindunum ásamt sparifénu, þá þýði það, að aldrei verður hægt að selja nein önnur skuldabréf í landinu en ríkisskuldabréf, hversu vel sem þau kunna að vera tryggð. Þá er m. ö. o. allur verðbréfamarkaðurinn einokaður af ríkinu, og segja sumir: Þetta þarf að vera enn víðtækara.

Nú sé ég, að Finnar, sem hafa tekið upp skattfrelsi fyrir sparifé, hafa látið það ná til sparisjóðsinnistæðna og ríkisskuldabréfa. En vitanlega hefur þeim aldrei dottið í hug að láta það ná aðeins til sparifjár, því að þeir eru hyggnari fjármálamenn en svo, að þeim detti í hug að láta svona hlunnindi ná aðeins til sparifjár og útiloka þar með gersamlega, að nokkur verðbréfamarkaður geti byggzt upp í landinu. Þeir hafa þess vegna tekið ríkisskuldabréfin með og þó — sýnist mér — með einhverjum takmörkunum.

Fyrir utan það, sem þetta mál þannig grípur inn í alla fjárhagsstarfsemi landsins meira en nokkurt annað nýmæli, sem hreyft hefur verið á þessu þingi, þá er hér einnig um þýðingarmikið atriði að ræða í sambandi við skattamálin, þó að málið hafi kannske enn þá meiri þýðingu vegna þeirra áhrifa, sem það hefur á peningamálastarfsemi í landinu, heldur en það hefur t. d. fyrir tekjur ríkissjóðs. En varðandi skattahliðina kemur það atriði, hvort það eigi að láta telja spariféð fram eftir sem áður. Það er vandasamt að ráða fram úr, hvort það skuli gera. Ég hef nú hallazt að því, að það verði nauðsynlegt að láta telja féð fram samt sem áður, þó að það væri gert skattfrjálst. Og mér hefur sýnzt, að það séu svo stórkostleg hlunnindi að fá skattfrelsi fyrir féð, að það mundi verða geysilega mikils metið, þó að menn þyrftu að telja féð fram eftir sem áður. Það er náttúrlega fullkomin fjarstæða, sem hér er haldið fram, að skattfrelsi, jafnháir og skattar eru hér, sé lítils virði, ef telja þarf féð fram samt sem áður. Það er fjarstæða að halda slíku fram.

Það var bent á það hér áðan af hv. þm. A-Húnv., að ef talið væri fram féð, þá gæti farið svo, að það yrði bara þeim mun meira lagt á það af útsvörum, sem minna væri lagt á það af sköttum til ríkisins. Þetta er alveg rétt. Þetta þarf að taka til athugunar og er ein hlið málsins, sem er í athugun. Það þarf sem sé að athuga þetta mál einnig í sambandi við skattstofna bæjar- og sveitarfélaga. Og ef það verður ofan á að leiða í lög, að það megi ekki leggja á féð tekjuskatt, þá sýnist mér, að það verði líka að banna að leggja á féð sveitarútsvör, því að eins og hv. þm. réttilega tók fram, þá mundi ekki þýða neitt að undanþiggja þetta fé skatti, ef það mætti þá leggja á það þeim mun meiri útsvör. Þessar hliðar málsins eru vitaskuld í athugun í þeirri mþn., sem sett hefur verið í skattamálin. Og það hefur enga þýðingu fyrir málið, mundi enga þýðingu hafa fyrir borgarana, þó að þetta mál væri samþ. núna á þessu þingi. Aðalatriðið er, að þetta mál fái góðan undirbúning, sé vel undirbúið, þegar það endanlega kemur til afgreiðslu, og að það sé rækilega athugað, hvaða áhrif skattfrelsi yfirleitt hefur á fjárhagskerfi landsins.

Ég fyrir mitt leyti mundi telja rétt að samþ. þær brtt., sem hafa komið fram frá hv. þm. V-Húnv. og hv. þm. N-Þ. Það leiðir af því, sem ég hef sagt. En afstaða mín til málsins er sú, að ég hef verið og er mjög hlynntur því að innleiða skatthlunnindi eða skattfrelsi að meira eða minna leyti fyrir sparifé, vegna þess að mér er það ljóst, að það þarf að gera eitthvað verulegt til þess að gera aðgengilegra fyrir menn að spara. En mér hefur jafnframt verið það ljóst, einmitt af því að ég hef lagt talsvert mikla vinnu í að athuga þetta mál með mínum samstarfsmönnum ýmsum, að málið er ekki komið á það stig, að hægt sé að afgr. það. Við eigum eftir að komast að niðurstöðu um það, hvernig eigi að haga mjög þýðingarmiklum þáttum í þessu máli.

Ég man nú ekki til þess, að ég viðhefði þau orð að kalla þetta „uppþotsmál“ eða þess konar, eins og hv. þm. A-Húnv. talaði um. En hitt benti ég á, að mér fyndist það ekki viðeigandi að hlaupa til á síðustu dögum þessa þings og gera ráð fyrir því, að hægt sé með afbrigðum í flughasti að afgr. jafnmikið vandamál og þetta er og mál, sem er einmitt nú í athugun í mþn. Ég kann alls ekki við, að þessi sjálfsagða afstaða mín, að styðja það, að málið verði ekki afgr. nú, heldur vísað til ríkisstj., eins og uppástunga kom fram um, sé túlkuð þannig, að ég sé mótgangsmaður þess, að gerðar séu skynsamlegar ráðstafanir til að veita skattívilnanir í sambandi við sparifé. Þvert á móti hef ég lagt í það mikla vinnu undanfarið, að reyna að finna í því efni heppilega og framkvæmanlega lausn, og ég tek ekki með þökkum við neinum skútyrðum frá hv. þm. A-Húnv. í sambandi við það, að ég tel þetta mál þannig vaxið, að ekki sé fært að afgr. það nú, heldur verði mþn. að fjalla um málið áfram sem einn þátt skattamálanna.