05.02.1953
Neðri deild: 68. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í C-deild Alþingistíðinda. (3398)

183. mál, skattfrelsi sparifjár

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vil aðeins sem frsm. meiri hl. fjhn. í þessu máli segja nokkur orð um það, sem fram hefur komið.

Hv. þm. V-Húnv. lauk máli sínu á því, að þeir, hann og hv. þm. N-Þ., hefðu gert tilraunir til þess að leiðrétta allra verstu vitleysurnar, sem í þessu máli væru. Ein leiðréttingin er sú hjá hv. þm. V-Húnv., að það sé skylt að telja spariféð fram. Hann lýsir því m. ö. o. yfir í þessu sambandi, að það sé mesta vitleysan í þessu máli. — Hæstv. fjmrh. vitnaði til Finna og sagði, að þeir væru meiri fjármálamenn heldur en við í sambandi við lagasetningu þeirra um þetta mál, þar sem þeir m. a. hefðu viss ríkisskuldabréf skattfrjáls. En hvað gerðu Finnar? Eftir að spariféð hjá þeim var með lögum búið að vera 6 ár skattfrjálst, þá afnámu þeir framtalsskylduna, og þá meira en þrefaldaðist spariféð í landinu. En þessa ráðagerð, sem Finnar tóku til eftir 6 ára reynslu af skattfrelsi með framtalsskyldu, telur hv. þm. V-Húnv. mestu vitleysuna í sambandi við þetta mál.

Sannleikurinn er sá, að hvorki hæstv. fjmrh. né hv. þm. V-Húnv. hafa komið til dyranna eins og þeir eru klæddir í þessu máli, og að því leyti er málflutningur beggja þeim til skammar. Þeir segjast hafa hugsað mikið um þetta mál. Og hæstv. fjmrh. segir, að búið sé að láta athuga þetta um lengri tíma í ráðuneytinu, en bara ekki nógu lengi. Hv. þm. V-Húnv. vill athuga málið í mþn. En þegar báðir þessir menn tala svo um málið, þá er allt ómögulegt í sambandi við skattfrelsi sparifjár. Þeir hafa allt á hornum sér í þessu sambandi, og m. a. var hæstv. fjmrh. inni á sömu bylgjulengd og hv. þm. V-Húnv. í sambandi við framtalsskylduna, sem þó, þar sem reynsla hefur fengizt í málinu, hefur reynzt vera veigamesta atriðið í sambandi við skattfrelsi sparifjár, eins og hjá Finnum. Það er miklu heiðarlegra fyrir þessa hv. þm. að koma hér og segja það, sem þeir meina, heldur en að vera að dylja sig undir einhverri sauðargæru, — að þeir séu að vísu með skattfrelsi sparifjár, — en allt, sem þeir láta til sín heyra í þessari hv. d. um það, hnígur í aðra átt og er negativt. Það er það, sem hv. þm. eiga að gera sér grein fyrir og menn eiga að fá að vita. Og þá á að koma fram hér í hv. þingi, hver afstaða manna er til þessa máls, í sambandi við atkvgr. um málið.

Það er hreinasta fjarstæða, að málið sé illa tilbúið. Meginefni málsins er ákaflega einfalt, en ákvæði um hin einstöku atriði er gert ráð fyrir að sett séu með reglugerð af ráðherra.

Það fær á engan hátt staðizt, — í sambandi við það, sem fram hefur komið hjá hv. þm. N-Þ., — að það sé rétt að gera verðbréfin líka skattfrjáls, og hæstv. fjmrh. var nú enn með það í dag, sem hann var með í gær, að ef allt sparifé færi inn í bankana, þá mundu engir menn kaupa verðbréf, ríkisskuldabréf og önnur. Ég benti honum á það í gær, að það væri þá kannske hægt að fá bankana til þess að kaupa eitthvað af þessum bréfum, ef þar kæmi slík hrúga af sparifé eins og hann vildi gera ráð fyrir. Og í því sambandi verður maður að gera sér grein fyrir því, að það er ekkert aðalatriði í því, hvort það yrði sett fyrr eða seinna. Ef menn hafa áhuga fyrir að koma þessu máli fram, þá má athuga þá hlið málsins, um verðbréfin, einmitt miklu betur en hér hefur verið gert og setja þá einhverja flokka verðbréfa inn, ef mönnum sýnist svo. Það er þess vegna ekki ástæða til þess að búast við því, að þm. geti nú, að jafnlítt athuguðu máli, tekið afstöðu með till. hv. þm. N-Þ. um vissa flokka verðbréfa. þegar heildarathugun á því máli hefur ekki komið fram og eru því ekki fluttar till. um það fyrr en á síðasta stigi málsins. En það er enginn skaði skeður, þótt sú till. sé felld, því að ef mönnum sýnist við nánari athugun þess máls, að rétt sé að skattfrelsi slíkra verðbréfa komi inn, þá mundu menn geta flutt um það till. á næsta þingi, og munaði litlu. En meginefnið í málinu og það, sem mestu máli skiptir, væri orðið að lögum og hin almenna sparifjársöfnun í landinu væri þá búin að fá þá uppörvun, sem þetta frv. mundi gefa henni.