14.11.1952
Neðri deild: 26. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í B-deild Alþingistíðinda. (340)

10. mál, áburðarverksmiðja

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. gat um, hef ég skrifað undir nál. frá meiri hl. með fyrirvara, og þykir mér hlýða að gera með örfáum orðum grein fyrir þeim fyrirvara af minni hálfu.

Hann er í því fólginn, að ég er mjög óánægðar með, að þetta risastóra fyrirtæki, eitt það stærsta fyrirtæki, sem stofnað hefur verið á Íslandi, skuli búa við löggjöf eins og hún er í dag og við skipulagshætti, sem eru mjög vafasamir eftir þessari löggjöf, sem í gildi er.

Þegar hnigið var að því ráði af þáverandi ríkisstj. að stofna til áburðarverksmiðju ríkisins, og hér er undirstrikað „ríkisins“, þá var flutt fyrir tilstuðlan þáverandi landbrh. frv. um þetta efni hér á Alþ. Og það var gert ráð fyrir því í þessu frv., eins og segir að mig minnir í 3. gr. frv. eða laganna, að þetta fyrirtæki væri sjálfseignarstofnun, eiginlega á mjög líkan hátt eins og var t.d. með síldarverksmiðjur ríkisins. En svo var þessu breytt á síðara stigi hér í meðferð Alþ. í Ed., og — eins og hefur komið í ljós í þessum umræðum og þm. almennt vita — í samræmi við till., sem hæstv. núverandi viðskmrh. flutti þá í Ed. um það, að það væri heimilt að leggja fram af einstaklinga hálfu hlutafé til áburðarverksmiðju ríkisins og þar með eiginlega að setja fyrirtækið að vissu leyti í hlutafélagsform. Þetta hefur síðan verið gert. En beinagrind laganna eða lögin sjálf bera á sér öll einkenni þess, að þetta átti að vera sjálfseignarstofnun ríkisins, með þeirri breytingu, sem var sett inn í frv. eða lögin í Ed. á sínum tíma. Mér þykir það mjög óviðeigandi, að svo skuli vera ástatt, og hæstv. viðskmrh. hefur nú í ræðu sinni, sem hann var að halda hér rétt áðan, lýst yfir því sem sinni skoðun, að hann teldi það mjög eðlilegt, að lögin um áburðarverksmiðju ríkisins væru endurskoðuð og þeim breytt nokkuð frá því, sem nú er.

Ég var því eindregið fylgjandi, að þessu fyrirtæki, eða áburðarverksmiðju ríkisins, sem verið er að reisa og ég tel geysilega þýðingarmikið fyrirtæki, sem eðlilegt sé, að hafi hlaupið af stokkunum, sé veitt það lán, sem um er að ræða í þessu frv., sem hér liggur fyrir og hins vegar er staðfesting á brbl., sem ríkisstj. gaf út af þeim ástæðum, að þegar kom fjárveiting af hálfu Marshallaðstoðarinnar, þá var tekin ein millj. dollara eftir útgáfu brbl. til þess að leggja fram sem lán til áburðarverksmiðju ríkisins. Ég vildi þess vegna láta þennan fyrirvara minn koma fram, um leið og ég lýsi yfir, að ég er lánveitingunni samþykkur, að ég tel það óviðeigandi, að þetta risafyrirtæki, þetta stórkostlega og merkilega fyrirtæki búi við löggjöf eins og þá, sem nú er, og álít nauðsynlegt, að það verði sett um áburðarverksmiðju ríkisins lög, þar sem eiginlega stangast ekki á andi upphafsins í löggjöfinni og það, sem kemur fram, þegar kemur aftur í miðja löggjöfina.

Ég er fyrir mitt leyti óhræddur um það og hefði ekki óttazt það, þótt þetta hefði verið sjálfseignarstofnun ríkisins, rekin af þar til kjörinni stjórn, sem valin væri til dæmis af Alþ. Ég ber ekki sama ugg í brjósti eins og hæstv. viðskmrh. um það, að það yrði til þess, að fyrirtækið yrði verr rekið. Ég get t.d. ímyndað mér, að hinn mjög svo slyngi kaupsýslumaður og framúrskarandi mikli dugnaðarmaður, forstjóri Sambands íslenzkra samvinnufélaga, Vilhjálmur Þór, ef hann hefði veríð kjörinn af Alþ. sem einn af stjórnarmeðlimum þessarar stofnunar, hefði talið það alveg sjálfsagða skyldu sína að leggja fram sína miklu krafta og sinn mikla dugnað til rekstrar fyrirtækisins, þó að það væri eign ríkisins eða sjálfseignarstofnun, án þess að Samband íslenzkra samvinnufélaga ætti þar nokkurn hlut í. Ég þekki þá forstjóra Sambandsins illa, ef hann hefði ekki lagt sig jafnmikið fram og sýnt jafnmikinn dugnað, þó að þetta hefði verið sjálfseignarstofnun ríkisins. Ég er þess vegna ekki á sama máli og hæstv. viðskmrh. varðandi þetta atriði. Ég hef nú þá trú á mannfólkinu, að meginhluti þeirra manna, sem séu kjörnir, við skulum segja af Alþ. Íslendinga, til þess að veita forstöðu eða stjórna ríkisfyrirtækjum, mundi gera það af jafnmiklum dugnaði, fyrirhyggju og framsýni eins og það væri þeirra eigið fé eða eins og fyrirtækið væri byggt upp af þeirra eigin fé. En sem sagt, ég vildi láta þessar athugasemdir mínar og óánægju út af löggjöfinni um áburðarverksmiðju ríkisins koma fram, og þess vegna skrifaði ég undir nál. með fyrirvara. En það er náttúrlega eins og alltaf hér á Alþinginu, að maður sér eiginlega aldrei neinn hæstv. ráðh. hér undir umræðunum til þess að ræða við um þessi mál né önnur. Það virðist vera þeirra álit, að þeim komi Álþingi ekki við, að þeir eigi ekki að sitja hér, þó að þeir séu hvort tveggja í senn ráðh. og þm., heldur eigum við, svo kallaðir óbreyttir þm., að vera hér einir til þess að ráða ráðum okkar, og ef okkur dettur í hug að beina til ráðherranna einhverjum fyrirspurnum, þá horfum við bara á auða stóla þeirra allt í kringum okkur. Og ég hefði gjarnan viljað beina því nú til hæstv. landbrh., sem þessi verksmiðja mun heyra undir, ef hann hefði verið við, hvort honum fyndist ekki tiltækilegt og ríkisstj. yfirleitt að taka til athugunar endurskoðun á löggjöfinni um áburðarverksmiðju ríkisins. En það þýðir ekkert að bera fram slíka fyrirspurn, og yfirleitt þýðir ekki að bera fram fyrirspurn nema sárasjaldan til ríkisstj. hér á Alþ., af því að ráðherrarnir eru aldrei við. En það gefst þá kannske tækifæri til þess síðar, ef svo ólíklega tækist til, að einhver ráðh. og þá kannske sá ráðh., sem málið heyrði undir, ræki hér höfuðið inn í deildina, svo að það væri hægt að nota tækifærið og beina til hans einhverri fyrirspurn.