05.02.1953
Neðri deild: 68. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í C-deild Alþingistíðinda. (3401)

183. mál, skattfrelsi sparifjár

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég held, að hv. 5. þm. Reykv. hafi orðið mismæli í ræðu sinni áðan, og vil ég gefa honum tækifæri til þess að leiðrétta það. Hann komst svo að orði, að hann teldi að enginn skaði væri skeður, þótt till. mín um breyt. á þessu frv. væri felld. Ég held, að hann hafi ætlað að segja, að það væri enginn skaði skeður, þó að þessi till. væri samþ. Hvernig getur nokkur skaði verið skeður við það, þótt þeir, sem kaupa ríkisskuldabréf, sem ríkið býður út til þess að geta komið á þjóðnytjaframkvæmdum, fái það fé skattfrjálst? Hvernig getur nokkur skaði verið skeður við það, þótt menn, sem kaupa jarðræktarbréf ræktunarsjóðs eða önnur skuldabréf Búnaðarbankans, fái það skattfrjálst á sama hátt og frv. gerir ráð fyrir að sparifé sé það? Eða hvernig getur nokkur skaði verið skeður við það, ef t. d. fiskveiðasjóður býður út lán samkv. lögum um hann, þótt menn, sem veita það lán með kaupum skuldabréfa, hafi það skattfrjálst? Ég get ekki séð, að það sé neinn skaði skeður, þótt þeir, sem þannig leggja fé sitt í þær þjóðnytjaframkvæmdir, sem þessar stofnanir standa fyrir, fái það skattfrjálst. Þess vegna held ég, að þetta hafi verið mismæli hjá hv. þm. og að hann hafi hlotið að vilja segja það, að það gæti ekki orðið til skemmdar á frv., þótt þessi brtt. mín yrði samþ.

Mér fannst hv. þm. A-Húnv. gefa eitthvað í skyn um það, að ég væri andstæður þessu frv. og það kæmi fram í brtt. minni. Ég veit ekki. hvernig hann getur komizt að þeirri niðurstöðu. Ég lít svo á, að eins og frv. er núna, þá mundi það hafa þær afleiðingar, að mjög vafasamt sé að samþ. það. Þess vegna hef ég gert tilraun til þess að koma fram endurbót á frv., til þess að ég geti fremur fylgt því og að það nái betur þeim tilgangi, sem ég ætla að vaki fyrir hv. flm. þess. Það tel ég að lýsi síður en svo andstöðu minni við frv. eða að ég vilji koma því fyrir kattarnef, heldur kemur aðeins fram í því það, að ég vil stuðla að því, að það verði endurbætt og hafi þar með meiri möguleika til þess að ganga áfram, ef það hefur það á annað borð, eins langt og þinginu er nú komið.