14.11.1952
Neðri deild: 26. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (341)

10. mál, áburðarverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það væri nú viðeigandi, að hæstv. forseti gerði ráðstafanir til þess að láta leita að einhverjum ráðherrum í húsinu. Það er viðkunnanlegra, að þeir sýni sig hérna, og ég vil taka mjög undir þau ummæli hv. 8. landsk., að það er hreinasta hneyksli, hvernig ráðherrarnir haga sér viðvíkjandi þeim málum, sem hér er verið að fjalla um, og það er alveg sérstaklega hart, að hæstv. viðskmrh., sem sjálfur hefur forgöngu sem þingmaður um að forklúðra lög, verður síðan sjálfur að viðurkenna nú þrem árum seinna, að það þyrfti raunverulega að breyta þeim öllum saman vegna þess, hvernig hann hafði forklúðrað þau, — að hann skuli ekki einu sinni treysta sér til þess, þegar hann er búinn að láta fara hér út úr sér heldur svona að minnsta kosti óráðherraleg ummæli, að svara hér til saka fyrir það, sem á hann er borið, eða hlýða á það, sem ofan í hann er rekið. Það væri gott, ef menn vildu athuga með ráðherrana, hvort þeir væru einhvers staðar hérna inni.

Ég þarf raunverulega ekki mörgu að svara af því, sem hæstv. viðskmrh. sagði hér áðan. Það er raunverulega gott að heyra frá honum það, sem þeir hafa nú báðir reynt að standa fast á, landbrh. og fjmrh., að lögin þyrftu ekki breytinga við. Það er gott að heyra frá honum, að ríkisstj. er nú komin það langt í að endurskoða hug sinn, eftir allar þær ádeilur, sem fram hafa komið hér á hana, að hún viðurkennir það, að l. þyrftu breytinga við. Og ég álit nú satt að segja, að það eina, sem þingmenn, ef þeir hafa einhverja sjálfsvirðingu, eigi að gera, sé að fresta framkvæmd þessara brbl., fresta afgreiðslu þeirra þangað til ríkisstj. er búin að leggja fram sínar brtt. við áburðarverksmiðjulögin. Það er það eina, sem væri sómasamlegt, ef meiri hluti þm. ætlar ekki að verða samábyrgur fyrir því að afgreiða nú í hvert skipti á fætur öðru lög hér frá Alþ., sem eru ekkert nema ólög, ekkert nema vitleysa, ekkert, sem hægt er að dæma eftir, ekkert, sem hægt er að grundvalla réttarfar landsins á. Ég ætla bara rétt að taka dæmi um, hve gersamlega þekkingarlaus ráðherra eins og t.d. hæstv. viðskmrh. er á þeim lögum, sem hann er að tala um. Það er ekki nóg, að hann sem þm. sjái ekki, þegar hann gerir brtt. við frv. um áburðarverksmiðju í Ed. í maí 1949, að hann þarf að gera brtt. raunverulega við öll lögin, ef hann ætlar að breyta 13. gr. eða setja hana inn eins og hann gerði og fékk í gegn. Nú fyrst þrem árum seinna, þegar búið er að rífast í þessu þing eftir þing, þá sér hann, að þarna þurfi breytinga við. En haldið þið, að hann þekki það vel lögin sjálf, eins og þau eru, greinina, sem hann setur inn, 13. gr., að hann hafi nokkra hugmynd um, hvað hún þýðir?

Hæstv. viðskmrh. segir hér áðan þessi orð: Ríkissjóður hefur öll ráð rekstrarins í hendi sér. — Þetta er það, sem hæstv. viðskmrh. segir: Ríkissjóður hefur öll ráð rekstrarins í hendi sér. — Nú vil ég lýsa því yfir í þessu sambandi, að þetta er algerlega talað út í hött og af því algera og alvanalega þekkingarleysi hæstv. viðskmrh. á lögunum og sérstaklega þeirri grein þeirra, sem hann sjálfur hefur fjallað um eða búið til. Hvernig er afstaða ríkissjóðs til áburðarverksmiðjunnar, og hvaða áhrif hefur ríkissjóður á áburðarverksmiðjuna? Og ég vona, að hæstv. viðskmrh. viti, hvað ríkissjóður er. Afskipti ríkissjóðs af stjórn áburðarverksmiðjunnar og áburðarverksmiðjunni er eftirfarandi: Ríkissjóðurinn leggur fram 6 millj. kr. En útnefnir ríkissjóður, þ.e. hæstv. fjmrh., einn einasta mann í stjórn allrar verksmiðjunnar? Nei, ríkissjóðurinn á ekki einn einasta fulltrúa í áburðarverksmiðjunni, ekki einn einasta. Og ég veit eiginlega ekki, hvaðan hæstv. viðskmrh. kemur sú þekking, að ríkissjóður eigi einn einasta fulltrúa í áburðarverksmiðjunni. Ég veit ekki, hvers konar röfl þetta er, sem ráðh. leyfir sér að bera hér á borð. Hvað er ákveðið í 13. gr. laganna, þeirri, sem hæstv. viðskmrh. hafði áhrif á um, að sett væri inn í lögin? Þar er ákveðið: „Sameinað Alþingi kýs þrjá þeirra (þ.e. þrjá af fimm stjórnendum) hlutfallskosningu til fjögurra ára í senn, og skipar landbrh. einn þeirra formann verksmiðjustjórnarinnar.“ M.ö.o., sameinað Alþingi kýs þrjá stjórnarnefndarmenn af fimm í stjórn verksmiðjunnar. Er sameinað Alþingi að einhverju leyti sama og ríkissjóður? Nei. Eru þeir menn, sem sameinað Alþingi kýs í stjórn áburðarverksmiðjunnar, undir einhverjum sérstökum fyrirmælum fjmrh. sem fulltrúa ríkissjóðs um, hvernig þeir skuli breyta? Ég vil spyrja: Heyra þeir undir einhver fyrirmæli hæstv. fjmrh. sem fulltrúa ríkissjóðs um, hvernig þeir skuli greiða atkv., hvernig þeir skuli kjósa framkvæmdastjóra, hvernig þeir skuli gera sínar ákvarðanir eða annað slíkt? Mér er ekki kunnugt um það. Mér er ekki kunnugt um, að það liggi fyrir nein reglugerð né að sú reglugerð hafi neina sérstaka stoð í lögum viðvíkjandi áburðarverksmiðjunni. Mér er ekki kunnugt um það. Ég skal fyllilega viðurkenna mína vanþekkingu, ef þetta skyldi reynast skakkt. En mér er ekki kunnugt um það, að til þessa dags hafi verið gefin út nein reglugerð um framkvæmd áburðarverksmiðjulaganna. Því síður er mér kunnugt um, að í nokkurri reglugerð standi, að þeir þrír menn, sem kosnir séu af sameinuðu Alþingi með hlutfallskosningum, skuli skyldir til að framkvæma fyrirmæli hæstv. fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs, að þeir séu bundnir þannig af fyrirmælum þess „officiella“ fulltrúa ríkissjóðs, fjmrh. Og ég veit ekki, hvort þeir menn, sem kosnir eru af sameinuðu Alþ., álíta sig þannig skuldbundna til þess að fara eftir fyrirmælum hæstv. fjmrh., ef um slíkt væri að ræða, svo að mér er miklu nær að halda, — og ég legg það nú bara undir dóm hv. þingmanna, — að t.d. við skulum segja Vilhjálmur Þór, sem er kosinn af Alþ., einn af þeim þremur, sem kosnir eru með hlutfallskosningu á Alþingi, og útnefndur af ríkisstj. sem formaður verksmiðjustjórnarinnar, fari eftir því, sem hann álitur í þessum efnum, og spyrji alls ekki hæstv. fjmrh. endilega um eða fái fyrirskipanir frá honum um slíkt eða skoði sig alveg sérstaklega skuldbundinn til þess, ef hann álítur annað réttara. Nei, það eru kosnir þrír menn með hlutfallskosningu í sameinuðu Alþ. Þessum mönnum er sýnt það trúnaðartraust, að þeir yfirleitt stjórni þessu fyrirtæki vel. Það er gengið út frá því, að þeir muni reynast þar dyggir borgarar ríkisins. En þeir eru ekki undir neinum sérstökum fyrirmælum eða valdi fjmrh. Ég vil benda á, af því að hæstv. viðskmrh. virðist vera jafnþekkingarlaus um þennan hluta áburðarverksmiðjulaganna eins og allt annað, sem þau snertir, að það er allt annar háttur hafður á um — við skulum bara taka eitt hlutafélag, sem ríkissjóður hefur stofnað með l. á Alþ., en er alveg skýrt gengið frá um, að er hlutafélag, og stendur í lögunum og heitir það, það er t.d. Útvegsbanki Íslands h/f. Þar á ríkissjóður hlutaféð og fer sjálfur með það vald. Fjmrh. ræður öllu á aðalfundum félagsins og útnefnir meiri hluta þar, og ég efast ekki um, að þeir menn, sem þar eru útnefndir, skoða sig bara sem beina fulltrúa fjmrh. og gera það, sem hann eða ríkisstj. álítur rétt. Ríkissjóður á þarna bara meiri hluta hlutafjárins, gerir sínar ráðstafanir, og þeir menn, sem þarna er um að ræða, eru ekkert annað en eins konar fulltrúar ríkissjóðs. — Það er allt öðru máli að gegna viðvíkjandi áburðarverksmiðjunni. Ég sé hvergi þá júridísku skuldbindingu, sem væri lögð á herðar þessara þriggja manna, sem þarna eru kosnir. Ég vil benda á, að einn af þessum mönnum, einmitt sá maður, sem ég nefndi áðan, Vilhjálmur Þór, er nú um leið forstjóri S.Í.S., og S.Í.S. er um leið einn stærsti einkahluthafinn þarna í. Ég vil bara rétt benda á, hvað þetta þýðir viðvíkjandi stjórn fyrirtækisins. Þetta þýðir bara það, að það er svo fjarri því, að ríkissjóður hafi öll ráð rekstrarins í hendi sér. Hann á 6 millj. í hlutafé, og þar með eru hans áhrif raunverulega búin, eins og nú er gengið frá lögunum. Það er allt öðruvísi frá þessum hlutum gengið hér heldur en t.d. viðvíkjandi því hlutafélagi, sem ég nefndi áðan og ríkið á meiri hluta í. Og það er gengið svona frá þessum hlutafélagslögum hér vegna þess, að hæstv. viðskmrh. smeygði þessu inn við síðustu umr. í Ed., þegar þetta mál var að fara í gegn á síðustu dögum þingsins, og fékk þannig lögin öll meira eða minna skaðskemmd, þannig að þau eru það klúður, sem þau eru núna. Svo kemur hann hérna núna og ætlar að fara að segja okkur, að ríkissjóður hafi öll ráð rekstrarins í hendi sér. Ríkissjóður hefur það alls ekki. Það er einn aðili að vísu, sem hefur öll ráðin í hendi sér, og það er Alþingi. Alþ. getur breytt

þessum l. eins og því þóknast. En það er nú ekki alltaf, að það sé alveg sama og ríkissjóðurinn, það er nú eitthvað annað. Ég held þess vegna, að það, sem hér hefur komið fram frá hæstv. viðskmrh., sem er sá eini fulltrúi ríkisstj., sem stakk inn nefinu á meðan umr. voru, sýni, að hann hefur sjálfur ekki minnstu hugmynd um neitt, sem snertir sjálfan rekstur verksmiðjunnar og lagafyrirmælin um hann, sér þó hins vegar, að l. muni öll þurfa breytinga við, fæst sjálfur hins vegar ekki til að svara einu einasta atriði um, upp á hvers konar skil mála ríkisstj. hafi endurlánað það fé, sem þarna er um að ræða, fæst ekki til að svara því, hvort þetta sé t.d. með 51/2 % vöxtum, fæst ekki til að svara því, hvort það sé á ábyrgð ríkissjóðs, hvort ríkissjóður hafi bara lánað út og það eina, sem lántakandinn hafi á móti, sé ábyrgð ríkissjóðs. M.ö.o., það fást ekki nokkrar upplýsingar um, hvers konar fyrirtæki þetta eiginlega sé, með hvers konar skilmálum þetta sé lánað. Það kemur upp í kollinum hjá ráðh., að lögin, sem fyrirtækið grundvallast á, þurfi breytinga við. Hvort ríkisstj. ætlar að koma fram með þær breytingar, það veit hann nú ekki. Það á ef til vill að láta þetta allt saman lulla svona í sömu vitleysunni. Það kemur hins vegar upp, að sjálfur hæstv. viðskmrh. hefur ekki minnstu hugmynd um, hvers konar áhrif ríkissjóður hefur á stjórn þessa fyrirtækis, hvers konar vald ríkissjóður eða fjmrh. hefur yfir meiri hluta stjórnenda þess. Þetta er allt í þannig vitleysu, að það eina, sem er víst, er, að það á að taka 200 millj. kr. af þjóðinni til þess að gera þessu fyrirtæki mögulegt að starfa, þó að enginn maður hafi hugmynd um, hvort það er ríkiseign, hvort það er einkaeign, hvort meiri hlutinn, sem Alþ. kýs hérna, kemur fram sem fulltrúi ríkissjóðs eða hvort þeir koma fram sem prívatmenn, eða yfirleitt hvernig þetta er rekið. Og þannig á að halda þessu þing eftir þing, þangað til það er komið í ljós, hvort þetta atvinnutæki er gróðafyrirtæki. Komi það í ljós, að það sé gróðafyrirtæki, þá eiga þeir Vilhjálmur Þór eða aðrir þeir,.sem þarna eru inni sem einstaklingar, að fá gróðann af því. Komi það í ljós, að það sé tapfyrirtæki, þá skulu þessir sömu menn koma og segja: Það er nú bezt, að ríkissjóður eigi þetta. Það er nú bezt, að hann gefi eftir vextina. Það er nú bezt, að hann lækki verðið á áburðinum. Það er nú bezt, að hann sé ekki að láta veslings hluthafana borga út það, sem þeir hafa lagt þarna fram, og annað slíkt. — Og loks verð ég að segja: Hneyksli var það, þegar áburðarverksmiðjulögin voru afgreidd eins og þau voru afgreidd. En hneyksli er það, að það skuli ganga þing eftir þing þannig, að það sé ekki hægt að fá gengið svoleiðis frá þessum l., að Alþ. geti a.m.k. sómasamlega staðið við það frammi fyrir dómstólum landsins, að það hafi afgr. lögin á þann hátt, að það sé hægt að dæma eftir þeim, ef það kynnu að risa út af stærsta fyrirtæki, sem reist hefur verið á Íslandi, fyrirtæki, sem þjóðin leggur 200 millj. kr. í, málaferli um það seinna meir, hverjir það séu nú eiginlega, sem eigi það, og hverjir það séu nú eiginlega, sem eigi að stjórna því, og hvaða skuldbindingar þeir menn hafi meðal annars gagnvart ríkissjóði.