14.11.1952
Neðri deild: 26. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

10. mál, áburðarverksmiðja

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Fullyrðingar hv. 2. þm. Reykv. gefa nú ekki beinlínis ástæðu til þess að svara, en vegna þess að hann fullyrti hér áðan, að áburðarverksmiðjan starfaði undir ólögum, sem nauðsynlegt væri að breyta sem fyrst, þá vil ég upplýsa það, að áburðarverksmiðjustjórnin hefur borið þessi lög undir glögga lögfræðinga, leitað umsagnar þeirra um það, hvort nauðsyn væri að breyta þessum lögum, og hafa þeir upplýst, að eins og lögin væru úr garði gerð, þá væru þau að öllu leyti fullnægjandi. Að vísu, sögðu þeir, hefði mátt byggja lagabálkinn öðruvísi upp, raða greinunum öðruvísi niður, en það hefur enga praktíska þýðingu. Það er þess vegna engin nauðsyn á því að breyta þessum lögum. Það stendur alveg skýrt eftir glöggustu lögfræðingum, að það sé enginn vandi að dæma eftir þessum lögum, en það má vel vera, að hv. 2. þm. Reykv. finnist hann ekki hafa möguleika til að dæma eftir þessum lögum. Ég býst við, að hann sé eitthvað svipað settur og ég, ef ég vildi fara að dæma eftir þeim lögum eða öðrum lögum, að við mundum báðir standa fastir, vegna þess að við erum ekki dómarar, við erum ekki lögskýrendur eða lagamenn. Við skulum þess vegna láta lögmennina, lögfræðingana um það að dæma, þegar að því kemur, og þegar við erum ekki lögfræðingar, þá förum við í smiðju til hinna færustu lögfræðinga og spyrjum þá: Hvernig lízt ykkur á þessi lög? Lögin eru ágæt að öðru leyti en því, að það hefði mátt raða greinunum öðruvísi, t.d. að 13. gr. hefði verið 9. gr. o.s.frv., en það breytir engu í meginkjarna málsins og alveg óþarft að vera að halda hér margar ræður út af því atriði.

Hv. ræðumaður talar mikið um það, að ríkissjóður hafi ekki tryggt sér nægilega vel aðstöðu í áburðarverksmiðjunni. Hann sagði t.d. hér áðan, að það væri enginn fulltrúi ríkissjóðs í stjórn áburðarverksmiðjunnar. Því verður þó ekki móti mælt, að Alþ. kýs 3 menn af 5 í stjórn verksmiðjunnar, og hver getur neitað því, að þessir 3 menn, sem kosnir eru af Alþ., séu fulltrúar ríkisins í verksmiðjustjórninni? Hv. þm. vill kannske gera greinarmun á því, hvort það er ríkið eða ríkissjóður, sem hér á hlut að máli, en ég hygg, að það sé nokkuð það sama. Auk þess skipar ráðherra formann verksmiðjustjórnarinnar. Ríkið hefur þess vegna töglin og hagldirnar, það hefur meiri hlutann í stjórninni undir öllum kringumstæðum.

Ég er dálítið undrandi yfir því, að hv. þm., sem ekki treystir sér til þess að skrifa minnihlutanál. út af þessu frv., skuli hér í dag hafa eytt svo mörgum orðum um þetta mál eins og raun bar vitni. Það kom ekkert nýtt fram í þessum tveimur ræðum hans frá því, sem var hér fyrir ári síðan, að öðru leyti en því, að nú virðist hv. þm. kominn að raun um það, að áburðarverksmiðjan fái ekkert óendurkræft fé frá Marshall, en í fyrra, þegar hann talaði hér, þá var ekki hægt að skilja hann öðruvísi en svo, að mestur hluti af því fé, sem áburðarverksmiðjan fær í stofnkostnað, væri óendurkræft og að hluthafarnir eignuðust þannig verksmiðjuna, þótt þeir legðu ekki fram nema 4 millj., fyrir þetta fé, sem væri lagt fram af hluthöfunum. Nú virðist hann hins vegar kominn á þá skoðun, að verksmiðjan fái ekkert óendurkræft, og það er alveg rétt. Verksmiðjunni er ætlað að greiða allt það fé, sem hún tekur að láni hjá ríkinu, en hitt er svo aftur á móti rétt, að ríkið fær svo og svo mikið af óafturkræfu fé til stofnunar verksmiðjunnar, en ríkið lánar síðan áburðarverksmiðjunni, og verksmiðjan verður að endurgreiða það með 51/2 % vöxtum, og það er mótvirðissjóðurinn, sem á þennan hátt vex og skapast í Landsbankanum á því, að ríkið sjálft fær svo og svo mikið óafturkræft fé, sem það síðan lánar áburðarverksmiðjunni, Laxárvirkjuninni og Sogsvirkjuninni. Þetta fé endurgreiðist síðan til ríkisins og rennur aftur í mótvirðissjóð, og þetta fé á síðan að nota áfram til nýrra nauðsynlegra framkvæmda.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. hélt hér fram áðan, að 51/2 % vextir er nokkuð hátt, og það er ekki hægt að segja annað, en að rekstrarfé, sem tekið er að láni með þeim vaxtafæti, sé nokkuð dýrt. En ég verð þó að segja, að með því að þessir vextir renna í sjóð, sem á síðar að ganga til starfsemi og uppbyggingar nauðsynlegra framkvæmda í landinu, þá er miklu frekar hægt að una því að greiða þetta háa vexti heldur en ef öðruvísi stæði á, því að það er vissulega margt hér í þessu landi, sem bíður framkvæmda, þótt þessum þrem stórframkvæmdum, sem núna eru á döfinni, verði lokið. Mér virðist, að menn ættu að gleðjast yfir því, að áburðarverksmiðjan er nú að rísa af stokkunum, þetta fyrsta fyrirtæki, sem ber vott um stóriðju hér á Íslandi. Við ættum að fagna því, að félög og einstaklingar hafa viljað leggja fram fé í þetta fyrirtæki án þess að hafa nokkra hagnaðarvon. Ég fullyrði það, að einstaklingar og félög, sem lögðu fram fé í áburðarverksmiðjuna, gerðu það ekki í eigingjörnum tilgangi og gera sér ekki vonir um að fá hagnað af þessu fé, sem þarna var lagt fram. Og eins og tekið var fram áðan, þá er í lögunum beinlínis ákveðið, að það má ekki greiða meiri arð en 6% af hlutabréfunum. Sjá því allir, að hér er ekki um að ræða að hagnast á þessu, heldur er það, að einstaklingar og félög, sem þarna eiga hlut að máli, hafa gert þetta af áhuga á góðu málefni, og ber að fagna því, að svo var, en ekki sakast um það eða lýsa óánægju sinni yfir því. Áburðarverksmiðjan er hlutafélag með meiri. hluta hlutafjár úr ríkissjóði, og ég tel vel farið, að þetta fyrirtæki hafi stofnazt á þessum grundvelli og sé rekið á þeim grundvelli. Það má kannske deila um það, hvort fyrirtækinu er betur stjórnað með því að það heiti hlutafélag eða sjálfseignarstofnun ríkisins, ég ætla engan dóm að leggja h það, það má vel vera, að þeim væri álíka vel stjórnað í báðum tilfellunum, en ég tel gott, eins og fjárhag ríkisins er nú varið, ef einstaklingar og félög vilja verða til þess að leggja fram fé í nauðsynlegar og fjárfrekar framkvæmdir eins og áburðarverksmiðjan er.

Mér heyrðist hv. 2. þm. Reykv. segja hér áðan, að 4 millj. væru ekki stór fjárupphæð og það væru smámunir, sem hér væri um að ræða, en ríkissjóður hefur nú stundum hikstað við að láta af hendi upphæð, sem því svarar, og það er enginn vafi á því, að um leið og við fórum fram á það að fá óendurkræft fé til áburðarverksmiðjunnar, þá styrkti það okkar málstað að geta sýnt fram á, að svo og svo mikið af innlendu hlutafé var til staðar til þess að leggja fram í þetta fyrirtæki.

Áburðarverksmiðjan er iðnaðarfyrirtæki, sem alþjóð varðar og alþjóð á meiri hluta i. Áburðarverksmiðjan er ekki fyrirtæki bændanna einna og starfar ekki aðeins fyrir þá, heldur fyrir alþjóð. Bændunum má standa út af fyrir síg sama um, hvort áburðurinn er innlendur eða erlendur. Það, sem þeir hljóta að spyrja um, er þetta: Hvað kostar áburðurinn, og hvernig eru gæði hans? — En landbúnaðurinn er vitanlega tryggari í rekstri sínum og framtíð sinni, ef áburðurinn er framleiddur hér innanlands, því að þannig getur ástandið verið hér á landi og þannig hefur það verið, að það hefur stundum verið á takmörkum, að það væri hægt að flytja áburð til landsins vegna gjaldeyrisskorts. Hv. 2. þm. Reykv. sagði hér áðan, að bændur mundu verða skyldaðir til þess að kaupa áburð af Áburðarverksmiðjunni h/f, hvort sem þeir vildu það eða ekki. Ég býst ekki við, að það þurfi að skylda íslenzka bændur til þess að kaupa áburð af áburðarverksmiðjunni. Ég veit, að íslenzkir bændur eru það þroskaðir, að þeir vilja nota íslenzka áburðinn og jafnvel þó að hann yrði eitthvað dýrari, en sá útlendi. Íslenzkir bændur hafa þann þroska, að þeir skilja það, að íslenzk iðnaðarfyrirtæki geta verið einn af máttarstólpum þjóðfélagsins, nauðsynlegum máttarstólpum til þess að halda uppi sjálfstæðu þjóðfélagi, og þeir mundu ekki láta á sér standa, ef nauðsyn bæri til að styðja þennan stólpa, og þeim er áreiðanlega ljóst, að það er ekki hægt að flytja allar vörur til landsins erlendis frá, nema þá um leið að skapa í landinu verðmæti á móti. Og hvernig ættum við Íslendingar að fara að því að lifa í þessu þjóðfélagi, nema við gerum ráðstafanir til þess að skapa hér verðmæti, skapa hér fjölbreyttara atvinnulíf og atvinnuhætti en verið hafa? Þess vegna er það, að við þurfum að stuðla að uppbyggingu atvinnulífsins með auknum iðnaði, fleiri verksmiðjum, meiri framkvæmdum.

Ég gat ekki betur skilið en að hv. 2. þm. Reykv. sæi mjög eftir því rafmagni, sem áburðarverksmiðjan kemur til með að nota frá hinni nýju Sogsvirkjun, og ég gat ekki betur skilið, en að hann teldi, að áburðarverksmiðjan fengi þessa orku á allt of lágu verði. Áburðarverksmiðjan verður stærsti notandi nýju Sogsvirkjunarinnar, og er eðlilegt, að hún fái orkuna á lægra verði, en almennt gerist, auk þess sem verksmiðjan kaupir alla afgangsorku. Ég er sammála hv. ræðumanni um það, að áburðarverksmiðjan þrýstir á þörfina fyrir nýrri virkjun, og satt að segja harma ég það ekki neitt. Ég harma það ekki, þó að við höfum hér í hendinni fyrirtæki, sem þrýstir á og krefst nýrrar virkjunar við Sog eða annars staðar. Ég tel, að það sé nauðsynlegt að fá slíkan þrýsting fram. Er ekki nógu mikið hér á landi óvirkjað? Er ekki nógu mikið hér á landi af óbundinni orku í okkar fossum, jafnvel þótt við gerðum nú þegar ráðstafanir til þess að virkja meira? Eða er hv. 2. þm. Reykv. svo staðbundinn, að hann geti ekki látið sér detta það í hug, að sú framkvæmd geti hafizt áður en langur tími líður? Ég get upplýst hv. 2. þm. Reykv. um það, að nú þegar er hafinn byrjunarundirbúningur að þriðju Sogsvirkjuninni, og ég er ekki í nokkrum vafa um það, að nýrri virkjun verður hrundið fram áður en langur tími liður, vegna þess að það er nauðsynlegt, af því að nýja Sogsvirkjunin fullnægir ekki rafmagnsþörfinni, eftir að áburðarverksmiðjan er komin í gang. Og ég gleðst yfir því, að sá þrýstingur er nú fyrir hendi, að það verður að fara að undirbúa þriðju Sogsvirkjunina, en harma það ekki, eins og hv. 2. þm. Reykv. virtist gera.

Mér virðist eðlilegt, að áburðarverksmiðjan og Sogsvirkjunin vinni saman. Báðar þessar stofnanir eru nauðsynlegar. Báðar þessar framkvæmdir eru stórar á okkar mælikvarða, og báðar þessar stofnanir geta orðið tiltölulega sterkar og hagstæðar með náinni samvinnu. Báðar þessar stofnanir eru að nokkru leyti ríkisfyrirtæki, og fer það vel saman, að þær taki hönd í hönd.

Ég stóð hér upp aðallega til að mótmæla því, að áburðarverksmiðjan starfaði ekki eftir lögum, sem mættu áfram standa. Ég mótmæli því, að áburðarverksmiðjan starfi samkvæmt einhverjum ólögum, einhverjum vanskapnaði, eins og hv. 2. þm. Reykv. sagði hér áðan, og ég hygg, að sú fullyrðing hans sé nokkuð svipuð þeirri fullyrðingu hans hér áðan, að ríkið yrði að láta 200 millj. af mörkum vegna áburðarverksmiðjunnar. Ég veit, að hv. alþm. hafa tekið eftir þessari fullyrðingu, en þeir létu sér ekki bregða. Þeir hristu ekki einu sinni höfuðin, vegna þess að þetta var ekkert nýtt úr munni þessa ræðumanns.