15.01.1953
Neðri deild: 50. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í C-deild Alþingistíðinda. (3421)

190. mál, lækkun skatta

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vil þegar við þessa 1. umr. málsins lýsa yfir eindregnum stuðningi mínum við meginefni þessa frv. og jafnframt taka það fram, að Alþfl. mun í þessari hv. d. greiða atkv. með frv. í öllum meginatriðum þess, bera fram brtt., ef það kemur til endanlegrar afgreiðslu, við einstök atriði, en að meginstefnu til fylgja því. Þetta er að því leyti síður en svo undarlegt, þar eð Alþýðuflokksmenn hafa þegar á þessu þingi flutt frumvörp, sem ganga í sömu átt og ýmis meginatriði þessa frv., og þarf því engan að undra, þó að við tökum þessu frv. hið bezta og teljum það vera mjög gott, í raun og veru eitt bezta frv., sem sézt hefur frá nokkrum þingmanni eða þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í mörg ár.

Ég skal ekki orðlengja, eftir hina ýtarlegu ræðu hv. frsm., um hin einstöku atriði frv. eða frv. í heild, en á það vil ég benda, að ræða hans var að ýmsu leyti mjög athyglisverð. Í umr. um þau frv., sem við Alþýðuflokksmenn, sumpart einir og sumpart ásamt þingmönnum úr öðrum flokkum, höfum flutt til leiðréttingar á ranglæti gildandi skattalöggjafar, höfum við sýnt fram á, að skattþunginn hefur á undanförnum áratug, eða síðan fyrir stríð, vaxið mjög verulega á öllum almenningi í landinu. Við höfum sýnt fram á það, að persónufrádrátturinn hafi farið hlutfallslega mjög lækkandi og ætti í raun og veru að vera miklu hærri, heldur en hann er núna, ef hann ætti að vera tiltölulega jafnhár og hann var fyrir stríð. Við höfum sýnt fram á það, að sú fjármálastefna, sem fylgt hefur verið undanfarinn áratug hvað skattálagningu snertir, hafi verið almenningi í landinu mjög óhagstæð. Það hafi verið um að ræða sívaxandi skattálögur á allan almenning, fyrst og fremst sökum þess, þó að skattstigar hafi verið óbreyttir, að skattupphæðir hafa ekki breytzt í sama hlutfalli og peningatekjur manna hafa breytzt. Þannig hefur skatturinn þyngzt hlutfallslega mjög mikið, þó að hann í krónutali hafi ekki vaxið mjög verulega. Við höfum talið, að þetta væri áfellisdómur, meira að segja þungur áfellisdómur, yfir þeirri fjármálastjórn, sem hér hefur verið undanfarinn áratug og er enn. Og það er vissulega rétt. Þegar þannig er á haldið stjórn skattamálanna, að skattur á öllum almenningi, meira að segja á hinum lægstu tekjum, er látinn fara mjög vaxandi, þá er það þungur áfellisdómur yfir þeim, sem ráðið hafa stjórn skattamálanna og fjármálastefnunni yfirleitt.

Nú hefur hv. 5. þm. Reykv. tekið algerlega undir þessa gagnrýni, sem við Alþfl.-menn höfum áður hér á þessu þingi flutt á fjármálastefnuna undanfarinn rúman áratug, og staðfest það enn með tölum til viðbótar þeim tölum, sem ég hef áður nefnt um þessi efni hér í þessum ræðustól, að þetta er rétt, að skattþunginn jafnvel á lægstu tekjum hefur farið mjög vaxandi undanfarinn rúman áratug. Er ég því mjög feginn, að okkur Alþfl.-mönnum skuli hafa bætzt liðskostur í ádeilu okkar á fjármálastefnuna undanfarinn áratug úr þessari átt. Fram hjá því má þó ekki ganga að minnast þess, hverjir það eru, sem bera ábyrgð á fjármálastefnunni síðastliðinn rúman áratug. Frá árinu 1939 og til 1950 var fjmrh. úr hópi flokks hv. 5. þm. Reykv., Sjálfstfl. Og nú er hann úr hópi Framsfl., og stjórnina í heild verður að gera ábyrga fyrir þessari fjármálastefnu, meðan henni er ekki andmælt af stuðningsmönnum hennar. Hér er því um það að ræða, að hv. 5. þm. Reykv., sem flytur þetta frv., er stuðningsmaður fjmrh., sem vill halda þessari stefnu óbreyttri, að því er bezt verður vitað. Þetta frv. og hin ágætu rök hv. 5. þm. Reykv. fyrir nauðsyn þess og gildi þess er því í raun og veru þung ádeila á fjmrh. hans eigin flokks í rúmlega áratug og á þá stjórnmálastefnu, sem núverandi ríkisstj. fylgir.

Það hafa áður legið fyrir og liggja enn fyrir þessu þingi till., sem ganga í sömu átt og mjög mikið af þeim atriðum, sem fjallað er um í þessu frv. Við þm. Alþfl. höfum flutt frv. um mikla hækkun persónufrádráttar. Það hefur ekki fengið góðar undirtektir, ekki heldur frá flokki hv. 5. þm. Reykv. Það hefur legið fyrir og liggur enn fyrir þessu þingi frv. um leiðréttingu á því ranglæti, sem hjón eru beitt i skattálagningu, frá okkur hv. 9. landsk. þm. Það frv. hefur ekki heldur fengið nægilega góðar undirtektir, ekki heldur frá nógu stórum hluta flokks hv. 5. þm. Reykv. Við hv. 8. landsk. þm. fluttum nú nýlega till., sem kom til atkv., um að hækka þá umreikningstölu, sem notuð er við umreikning skatts, á sama hátt og lagt er hér til í 10. gr. þessa frv. Sú till. var felld með öllum atkv. flokks hv. 5. þm. Reykv., Sjálfstfl. M. a. af þessum sökum þykir mér flutningur þessa frv. vera mjög athyglisverður, og ég vona, að hann beri vott um einlæg og varanleg sinnaskipti hjá flm. þessa frv. og hjá sem mestum hluta Sjálfstfl.

Ég geng út frá því sem vísu, með tilliti til fyrri umræðna og yfirlýsinga um þau mál, sem hér eru til umr., að hv. Sósfl. muni einnig vera fylgjandi öllum meginatriðum þessa frv. Þannig hefur fulltrúi hans í fjhn. þessarar hv. d. oftar en einu sinni talað. Sá flokkur hefur og staðið að flutningi nokkurra frv. eða till., sem ganga í svipaða átt og hér er um að ræða.

Ef því Sjálfstfl. þessarar hv. d. og þingsins yfirleitt stendur einn og óskiptur, eða mikill meiri hluti hans, að þessu frv., þá er fylgi þess tryggt. Það er þess vegna mjög nauðsynlegt og gagnlegt að fá um það skýra vitneskju, hver er afstaða Sjálfstfl. til þessa máls. Að sjálfsögðu þarf einnig að fá um það vitneskju, hver er afstaða hv. Framsfl. til málsins. Úr hans hópi hefur hins vegar ekki verið talað þannig, að mikil ástæða sé til þess að ætla, að frá honum fáist fylgi við málið í heild eða að mjög verulegu leyti. En það þarf ekki til. Framgangur málsins er tryggður, ef hv. Sjálfstfl. vill styðja við bakið á hinum tveim ágætu flm. þessa frv., ljá þeim lið í baráttu sinni fyrir því og samþ. frv. Og það er þetta, sem mig nú langar mjög eindregið til þess að fá að vita, hver er afstaða Sjálfstfl. til þessa máls. Er hann með því, eða er hann á móti því? Og þá, ef hann er skiptur um málið, hversu mikill hluti hans má telja að verði með því, og hversu mikill hluti hans má vænta að verði á móti því? Sannleikurinn um þetta mál er sá, að Sjálfstfl. hefur örlög þess í hendi sér. Hann getur ekki komið því fram einn, en hann getur fengið til þess stuðning Alþfl., og ég geri ráð fyrir, að hann geti einnig fengið stuðning Sósfl. Hann getur að vísu drepið það eða svæft það einn. Og ef málið verður drepið eða svæft, þá er það sök Sjálfstfl. og hans eins. Spurningin um örlög þessa máls er því sú, hvort hv. fyrri flm. frv., hv. 5. þm. Reykv., hefur sinn flokk, Sjálfstfl., með sér eða á móti sér í þessu máli. Það ætti að koma í ljós þegar við þessa umr. um svo stórmerkilegt mál sem hér er um að ræða. Gerist það ekki, þá mun það koma fram, er málið hlýtur afgreiðslu við 2. eða 3. umr. málsins. Og eftir því munu menn vissulega bíða með hinni mestu eftirvæntingu, því að hér er um brýnt og mikið hagsmunamál að ræða fyrir allan almenning þessa lands. Þess vegna mun hann vissulega fylgjast með því af mjög miklum áhuga, hvar Sjálfstfl. stendur í málinu, hvort hann er á móti hv. 5. þm. Reykv. eða hvort hann er með honum.