08.10.1952
Efri deild: 5. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í C-deild Alþingistíðinda. (3444)

28. mál, orlof

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. flm. lét svo ummælt, að með setningu orlofslaganna hefði náðst mikilsverður áfangi í réttindabaráttu verkalýðsins. Ég vil taka undir þessi ummæli hv. flm. og um leið lýsa ánægju minni yfir því, að hann og hans flokkur er nú kominn á þessa skoðun. Ég minnist þess, að á árinu 1943, þegar lögin um orlof voru afgreidd hér á Alþingi eftir undirbúning fyrrv. félmrh., Stefáns Jóh. Stefánssonar, þá var því haldið fram af flokksmönnum hv. flm., að þessi löggjöf væri með öllu óþörf og lítils virði, því að verkalýðsfélögin mundu sjálf sjá svo um í gegnum samninga við atvinnurekendur, að þetta yrði knúið fram, enda hefði Dagsbrún þá fengið í samningum orlofsrétt viðurkenndan. Ég fagna því mjög þeim sinnaskiptum, sem nú koma í ljós hjá hv. flm. eða flokksmönnum hans, — hann mun ekki hafa haft orð fyrir þá á þeim tímum.

Ég er einnig sammála flm. um það, að eðlilegt sé og sjálfsagt, að sömu þróun verði reynt að halda hér eins og orðið hefur í nágrannalöndum okkar hér, Norðurlöndunum öllum, þar sem nú þegar hefur verið lögfest í tveim löndunum, Svíþjóð og Noregi, 3 vikna orlof á ári.

Ég er því meginatriðum þessa frv. fyllilega samþykkur og mun vinna að því, að það nái fram að ganga. En í þessu sambandi vil ég taka það fram, að í raun og veru þarf að endurskoða orlofslögin öll, sem er næsta eðlilegt, því að þau eru bráðum 9 ára og voru fullkomin frumsmið, þegar þau voru sett. Einstök atriði laganna þarf að sjálfsögðu að athuga og færa til samræmis við það, sem reynslan sýnir að nauðsynlegt er umfram það, sem hér er fram tekið í þessu frv. Ég skal þó játa það, að ég álit, að ekkert sé því til fyrirstöðu, að þetta frv. nái samþykki fyrir því, þó að þessari endurskoðun verði ekki lokið nú, því að þetta atriði á að minni hyggju ekki að þurfa að valda neinum sérstökum deilum. Hins vegar skal ég benda á, að það mun tíðkast nokkuð, því miður, og jafnvel færast í vöxt, að orlofsféð sé greitt í peningum, en ekki merkjum, þannig að greiðslan, 4% nú, eða 6½%, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., verði ekki til þess að tryggja það, að verkamaðurinn fái það orlof, sem til er ætlazt. Ég álít, að þetta meðal annars sé eitt af því, sem beri að athuga í sambandi við endurskoðun laganna. Og fleiri atriði mætti tilnefna, sem ég hirði ekki að tefja tímann með að rekja hér.

Ég er sem sagt ánægður yfir því, að þetta frv. er komið fram, og mun styðja að því, að það nái hér afgreiðslu, en vil jafnframt taka það fram, að ég tel nauðsynlegt og eðlilegt, eftir nærfellt 10 ára reynslu, að löggjöfin í heild verði tekin til endurskoðunar, þótt ég telji ekki nauðsynlegt af þeim sökum að fresta afgreiðslu þessa frv., því að það má eins endurskoða þau, þó að þessi breyting sé samþ.