10.10.1952
Efri deild: 6. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í C-deild Alþingistíðinda. (3449)

48. mál, atvinnustofnun ríkisins

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Ég ætla, að það hafi verið árið 1935, sem sett voru lög um vinnumiðlun og vinnumiðlunarskrifstofur, sem voru lögboðnar þá í öllum kaupstöðum landsins. Það skal játað, að talsvert var fundið að starfsemi þessara vinnumiðlunarskrifstofa og þá sérstaklega það, að þeim var ekki gert kleift að liðsinna þeim, sem atvinnulausir voru, og ekki var hægt nokkuð greiðlega að útvega vinnu hjá atvinnufyrirtækjum og einstaklingum, sem höfðu atvinnurekstur með höndum.

Að sjálfsögðu hefði þurft að bæta aðstöðu þessara skrifstofa, fá þeim meira verkefni og veita þeim meira vald til framkvæmda. Á það höfum við Alþfl.- menn þrásinnis bent fyrr og síðar. Á s. l. ári hvarf hins vegar hæstv. ríkisstj. að því ráði að afnema með öllu vinnumiðlun ríkisins, fella niður þátttöku þess í starfsemi þessara vinnumiðlunarskrifstofa og afskipti af þeim, með þeim árangri, að nú er ekki nema ein vinnumiðlunarskrifstofa starfandi, Ráðningarskrifstofa Reykjavíkurbæjar, og að ég hygg með einhverju lífi í einum hinna kaupstaðanna. Ég álít, að einhver hörmulegustu mistök, sem hæstv. ríkisstj. hefur framið, af mjög mörgum séu einmitt þessi, að leggja niður vinnumiðlunarskrifstofurnar einmitt á þeim tíma, sem sýnilegt er, að atvinnuleysi er aftur að verða landlægt hér á landi.

Frv. það, sem við berum hér fram, tveir Alþfl.menn, í þessari hv. deild, á þskj. 48, er um stofnun Atvinnustofnunar ríkisins. Það hefur verið borið fram hér á tveim þingum og var svar okkar við till. ríkisstj. um að fella niður vinnumiðlun af hálfu ríkisins, sem ég drap á áðan.

Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir því, að komið verði á fót stofnun, Atvinnustofnun ríkisins, sem á að hafa með höndum þau verkefni, sem í 1. gr. segir. Það er í fyrsta lagi skráning allra vinnufærra manna og samning launaskýrslna. Þetta verkefni er nú, eins og komið er, tiltölulega mjög auðvelt. Hagstofan hefur nú fengið vélar, sem vinna öll verk, sem að manntali og manntalsskrá lúta, á mjög ódýran og fljótlegan hátt. Skrár eru þegar fyrirliggjandi um alla menn á starfsaldri, þ. e. a. s. 16–67 ára, eftir umdæmum eða sýslufélögum landsins. Þessar skrár er því auðvelt að fá og merkja út úr þeim sérstaklega þá, sem eru launþegar, þ. e. a. s. hafa tekjur sínar fyrir vinnu í annarra manna þjónustu.

Þá er ætlazt til, að stofnunin semji heildarskýrslur um tekjur allra launþega á landinu. Verð ég að segja, að furðulegt má telja og ekki vansalaust, að slíkt yfirlit um tekjurnar sem hér er gert ráð fyrir skuli ekki vera fyrir hendi. Það er aumt að þurfa að játa það, að enginn veit með vissu, hversu mikill hluti af þjóðartekjunum er arður af ýmiss konar starfsemi, arður af eignum, og hversu mikið er laun fyrir vinnu í annarra manna þjónustu. Allar aðrar þjóðir leggja á það hið mesta kapp að hafa sem gleggstar skýrslur um skiptingu tekna þjóðarinnar milli hinna einstöku stétta, fyrst og fremst milli þeirra, sem atvinnurekstur hafa með höndum, og hinna, sem fá tekjur sínar sem laun fyrir vinnu í annarra manna þjónustu. Það er alveg sjálfsagður hlutur og undirstaða undir margvíslegum athugunum og nauðsynlegum aðgerðum, að þessar skýrslur séu fyrir hendi það nýjar og traustar, að á þeim megi byggja.

Hið annað verkefni þessarar stofnunar á að vera það að hafa með höndum atvinnuleysisskráningu. Það er bersýnilegt, enda viðurkennt af öllum, að skilyrði þess, að hægt sé að afstýra atvinnuleysi, er fyrst og fremst það, frumskilyrðið, að fyrir hendi séu áreiðanlegar upplýsingar um tölu þeirra manna, sem vantar vinnu, og um þau verkefni, sem fyrir hendi eru á hverjum stað, hvar menn vantar til vinnu og hvar skortur er á atvinnu, þannig að hægt sé að flytja á milli þeirra staða, þar sem skortur er á atvinnu annars vegar og skortur á verkafólki hins vegar. En slíkt er að sjálfsögðu með öllu ómögulegt, nema glöggar skýrslur séu fyrir hendi um ástandið á hverjum einstökum stað í þessu efni, ekki einasta með tilliti til staða, heldur einnig með tilliti til atvinnuleysis innan einstakra atvinnustétta. Þetta er hið annað verkefnið, sem Atvinnustofnuninni er ætlað að hafa með höndum.

Í þriðja lagi á hún að hafa með höndum leiðbeiningar um stöðuval. Það lýtur að almenningi, þeim mönnum, sem óska þess að leita aðstoðar hjá stofnuninni um ábendingar og ráðleggingar í þessu efni. Það er viðurkennt af öllum, að menn eru mismunandi hæfir til mismunandi starfa, og það er bæði þeim sjálfum og þjóðfélaginu fyrir beztu, að þeir komist á sína réttu hillu. Ég minnist þess, að nýlega flutti Páll S. Pálsson, sem hefur kynnt sér þessi mál í Bretlandi, í útvarpinu mjög athyglisvert erindi um aðgerðir Breta í þessum efnum, um leiðbeiningar við stöðuval í því mikla landi. Var þar bent á margt, sem er til eftirbreytni og fyrirmyndar. Sérstaklega má einnig benda á það að, að því er varðar unglinga, sem eru að leggja út í lífið, eru enn óráðnir, hvaða starfsemi þeir velja sér, er ákaflega þýðingarmikið að eiga kost á því, að hæfir menn leiðbeini þeim í því efni, menn, sem geta byggt athuganir sínar á þekkingu, bæði þekkingu á hæfni og sálarlífi manna og líka á því, hvernig atvinnuástandið er í landinu á hverjum tíma. Í Noregi hefur mjög mikið verið unnið að þessum málum hin síðari ár, og ég hygg, að yfirleitt sé það állt þeirra manna, sem til þekkja þar í landi, að árangurinn, sem þar hefur náðst, sé eftir atvikum mjög góður.

Þá er enn fremur gert ráð fyrir, að þessi stofnun hafi með höndum vinnuþjálfun. Á það sérstaklega við þá menn, sem eru að einhverju leyti fatlaðir eða örkumla, þannig að þeir geta ekki unnið nema ákveðin störf. Slíka menn þarf að aðstoða til þess að nema þau og þjálfa líkama sinn til þeirra, því að í mörgum tilfellum geta þeir orðið fullgildir menn til afkasta við sérstök störf, þó að þeir séu ófærir til annarrar vinnu. Og það er að sjálfsögðu hrein sóun á starfsorku fólksins, ef slíkum mönnum er ekki hjálpað til þess að komast í þann sess eða að því starfi, sem þeim hentar bezt og hæfileikar þeirra benda til.

Þá er í sjötta lagi gert ráð fyrir því, að öryrkjavinna sé einnig í höndum þessarar stofnunar. Hér á landi eru nú á milli tvö og þrjú þúsund, líklega allt að þrjú þúsund öryrkjar yfir 50%, þ. e. a. s. menn, sem hafa glatað allri eða verulegum hluta starfsorku sinnar. Talsvert mikill hluti af þessu fólki, — ég gizka á ekki minna en fjórði parturinn, — mundi geta unnið nytsöm, gagnleg störf, ef gerðar væru ráðstafanir til þess, að þeir gætu hagnýtt starfskrafta sína. Það mætti gera á margan hátt. Í fyrsta lagi með því að útvega þeim í atvinnulífinu, á hinum almenna vinnumarkaði, störf við þeirra hæfi. Í Bretlandi eru t. d. lagaákvæði um það, og vísa ég þar aftur til erindis. sem Páll S. Pálsson flutti í útvarpið nýlega um þessi efni, — í Bretlandi eru ákvæði um það, að fyrirtækjum, sem hafa tiltekna tölu starfsmanna í sinni þjónustu, skuli skylt að taka ákveðna hlutfallstölu öryrkja í vinnu. Eftir því sem mér er sagt, þá hefur þessi ráðstöfun gefið góða raun og aðeins örsjaldan þurft að beita lagaþvingun í þessu efni, því að í langflestum tilfellum hefur þetta náðst með samkomulagi við hlutaðeigandi atvinnufyrirtæki og þá stofnun, sem hefur vinnumiðlun handa öryrkjunum með höndum. Öðrum mætti hjálpa með því að sjá þeim fyrir vinnustað og verkefni við þeirra hæfi. Enn aðrir, eins og til dæmis berklasjúklingar á Reykjalundi, geta því aðeins notað sína starfskrafta, að þeir geti unnið á sama stað og þeir dveljast, þ. e. a. s., að þeim sé séð fyrir víst á dvalar- og vinnuheimili. Þarf ég ekki að benda á reynsluna á Reykjalundi; öllum er hún kunn og mælir með sér sjálf. Loks eru svo þeir menn, — og á ég þar sérstaklega við ungt fólk, — sem ég áðan drap á í sambandi við vinnuþjálfun, þ. e. a. s. þeir, sem eru örkumla menn eða fatlaðir á einn eða annan hátt, en geta að loknu sérstöku námi, bóklegu eða verklegu, unnið störf til jafns við aðra menn.

Allar þessar ráðstafanir hygg ég að sjálfsagt væri að fela þessari einu og sömu stofnun og þá einnig unglingavinnu, þ. e. a. s. fyrir unglinga á aldrinum 16–20 ára, sem ekki eru þegar ráðnir við föst störf. Það vita allir, sem til þekkja, hversu erfitt er hér á hverju einasta vori, þegar unglingarnir koma úr skólunum, að sjá þeim fyrir nokkurri vinnu. Fjöldi þessara unglinga gengur á milli fyrirtækja og einstaklinga í atvinnuleit og hálft sumarfríið fer kannske í að leita sér að atvinnu, og mega þeir heita heppnir, nú hin seinni árin tvö, ef þeim lánast þá að finna hana. Slíkt ástand er alveg óviðunandi, og sjálfsagt er að gera skipulagðar ráðstafanir til þess að greiða fyrir mönnum að fá vinnu. sem bezt hentar þeim. Nú er svo komið víða, sem er mjög skiljanlegt, að verkalýðsfélög úti um land hafa ákvæði um það, að félagsmenn þeirra sitji fyrir vinnu á staðnum, og er þá í flestum tilfellum loku fyrir það skotið, að t. d. unglingar og námsfólk héðan úr Reykjavík geti sótt þangað sína sumarvinnu, sem oft hefur hentað því vel og komið sér ágætlega.

Loks er svo gert ráð fyrir því, að úthlutun atvinnubótafjár verði einnig í höndum þessarar stofnunar. Það er alveg bersýnilegt, að eins og högum okkar háttar nú og verði haldið sömu stefnu eða svipaðri í atvinnu- og fjármálum og verið hefur, þá verður að reikna með því, að vissan hluta ársins sé alveg óhjákvæmilegt að leggja fram fé til atvinnubóta til þess að bæta úr vinnuskorti, beinum atvinnuskorti, til að afstýra neyð. Þetta er einnig viðurkennt með því frv., sem nú liggur fyrir Nd. um stofnun sérstaks sjóðs í þessu skyni. En augljóst er, að eigi þessar framkvæmdir að ná því marki, sem að er stefnt, og jafnframt að vera unnar þannig, að þær verði til frambúðargagns fyrir þjóðfélagið í heild sinni og þau héruð, þar sem framkvæmdirnar eru inntar af hendi, þá þarf að hafa þar nokkra forsjá, þá þarf að vera búið að gera áætlanir og leggja niður fyrir sér, hvaða verkefni séu næst og hversu þeim skuli hagað á hverjum tíma.

Þetta eru þau verkefni, sem atvinnustofnuninni er ætlað að hafa með höndum. Ég ætla, að ég muni það rétt, að hæstv. dómsmrh. hafi mælt, bæði fyrir sinn munn og iðnmrh., við opnun iðnsýningarinnar, sem allir kannast við, hér nú fyrir skömmu eitthvað á þá leið, að dýrmætasta verðmæti hverrar þjóðar væri starfsorka landsfólksins og það að láta starfsorkuna fara til ónýtis væri hvort tveggja í senn, sóun verðmæta og þjóðfélagsböl, sálardrepandi, ef svo mætti segja, — ég vil ekki segja, að hann hafi notað það orð, — fyrir þá menn, sem atvinnulausir standa og eiga þess ekki kost að hagnýta starfsorku sína sér til gagns og öðrum til nytsemdar. Ég vil alveg fullkomlega taka undir þessi ummæli hæstv. ráðherra. Það, sem þetta frv. stefnir að, er að tryggja það með bættu skipulagi, að sem allra minnst af starfsorku þjóðarinnar fari til ónýtis og að hún notist á hverjum tíma sem allra bezt og hagkvæmlegast bæði fyrir einstaklingana og fyrir þjóðfélagið í heild. Gert er ráð fyrir í þessu frv., að stjórn þessarar stofnunar verði í höndum sjö manna ráðs, sem sé skipað þannig, að tveir séu tilnefndir af samtökum verkalýðsfélaganna í landinu, tveir af samtökum iðnrekenda í landinu og þá komi þar fram sérþekking og sjónarmið þessara tveggja aðila. Hinir þrír séu tilnefndir af ríkisstj., og er ákveðið, að einn þeirra skuli vera læknisfróður maður, annar hagfræðingur og hinn þriðji kona. Ég skal að sjálfsögðu játa það, að það má um það deila, hver tilhögun á stjórn slíkrar stofnunar sem þessarar sé heppilegust, en ég hygg, að þær ábendingar, sem bornar eru fram hér í þessari grein, séu mjög nærri því, sem almennt mundi vera skoðað eðlilegt í þessu sambandi. Það er sjálfsagt að, að þessu starfi læknisfróður maður, sem getur kynnt sér eða hefur þekkingu á því, sem að hinni heilsufræðilegu hlið starfsins lýtur. Sama er einnig um hagfræðing í sambandi við áætlanir um framkvæmdir og samningu skýrslna og annað slíkt, og loks er enginn vafi á því, að verulegur hluti þess fólks, sem leitar til þessarar stofnunar, er konur á ýmsum aldri og því alveg eðlilegt, að sjónarmið kvenna eigi þess einnig kost að njóta sín þar. Og svo að sjálfsögðu, eins og ég sagði fyrst, þá er eðlilegt, að samtök verkamanna og atvinnurekenda eigi þar einnig hlut að máli. — Ég skal svo ljúka máli mínu og vil leyfa mér að gera það að tillögu minni til hæstv. forseta, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til heilbr.- og félmn.