11.12.1952
Efri deild: 38. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í C-deild Alþingistíðinda. (3457)

63. mál, húsaleiga

Frsm. meiri hl. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 63, var upphaflega samið af n., sem hæstv. félmrh. skipaði, og var lagt fyrir hv. Nd. á síðasta þingi, er komið var að lokum þings, og varð ekki úr neinni afgreiðslu á því þingi. Það var svo lagt fyrir hv. Ed. nú í haust um miðjan október eða svo, og hefur allshn. haft málið til meðferðar síðan.

Allshn. skrifaði nokkrum aðilum og óskaði umsagnar um frv. Þar á meðal var ritað þeim þrem bæjarstjórnum, sem rætt er um í 1. gr. frv., bæjarstjórnum Reykjavíkur, Hafnarfjarðar og Akureyrar, og óskað eftir því, að þessar bæjarstjórnir segðu álit sitt á málinu. Það hafa verið gerðar margar tilraunir, bæði símleiðis og skriflega, til þess að fá svar frá bæjarstjórnunum, en þau svör hafa ekki borizt. Hins vegar hafa borizt svör og liggja í gögnum n. frá húsaleigunefnd Reykjavíkur, Fasteignaeigendafélagi Reykjavíkur og Leigjendafélagi Reykjavíkur.

Eins og segir í nál. meiri hl. á þskj. 402, þá hefur n. ekki getað orðið sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. með örlitlum breyt., en er þó ekki sammála um eitt atriði, sem hefur nokkuð mikla þýðingu. í sambandi við þetta mál. Minni hl. hins vegar leggur til, að frv. verði fellt.

Í aðalatriðum má segja, að frv. þetta mætti skiptast í tvennt, eins og kemur raunar fram í nál. minni hl. Það eru annars vegar almenn ákvæði um viðskipti manna varðandi húsnæði og leigu á húsnæði, og hins vegar eru heimildarákvæði, sem ætlazt er til að notuð séu, þegar sérstaklega örðugt ástand er varðandi húsnæði. Hin almennu ákvæði er að finna í 9 fyrstu köflum frv., þ. e. a. s. að 2. málsgr. 1. gr. þó undanskilinni, sem ég kem að síðar, og er óhætt að segja, að allir nm. hafi verið sammála um þessa 9 fyrstu kafla. En það, sem n. gat ekki orðið sammála um, var það, hvort gefa skyldi út eða afgreiða sérstök lög um þessa 9 fyrstu kafla og láta svo ráðast með þau ákvæði, sem er að finna í 10. og 11. kaflanum, ellegar hvort tengja skyldi allt málið saman. Var það álit meiri hl., og á því byggjast þau álit, sem hér hafa verið lögð fram. M. ö. o., að 1. gr. fráskilinni mun ekki vera verulegur ágreiningur grundvallarlegur um fyrstu 9 kaflana, en þó finnast þar atriði, sem allir munu ekki vera sammála um og eru ekki.

Um 1. kaflann, almennu ákvæðin, er ekki neitt sérstakt sð segja, nema það mætti kannske nefna það með 3. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að félmrn. gefi út eyðublöð fyrir venjulega leigumála, að það mundi geta verið til hagsbóta fyrir alla, en kannske sérstaklega fyrir leigutaka, að slík eyðublöð væru löggilt, því að núna hafa verið gefin út eyðublöð um húsaleigusamninga, en þau eru oft meira stíluð á það að vera til hags fyrir leigusala. Þess vegna mætti halda, að það ákvæði, sem hér um ræðir í 3. gr., gæti orðið sérstaklega til hagsbóta fyrir leigutaka.

2. kaflinn er um leigufardaga og uppsögn húsnæðis. Þar er í rauninni ætlazt til, að lögfestar séu þar reglur, sem hafa gilt og gilda um uppsögn og leigufardaga húsnæðis, og þarf ég ekki að rekja það nánar, þar sem hv. þdm. hafa frv. fyrir framan sig. Það er gert ráð fyrir, eins og verið hefur, að almennir fardagar séu 14. maí og 1. okt. og að uppsagnarfrestur sé einn mánuður á einstökum herbergjum, bifreiðaskýlum o. s. frv., þrír mánuðir á íbúðum og sex mánuðir á atvinnuhúsnæði. — Svo er um afhendingu á leiguhúsnæði. Þess skal getið hér, að það kom áreiðanlega fram við 1. umr. málsins hjá einhverjum hv. þdm., að það mundi vera mjög vandasamt að skila húsnæði samkvæmt 12. gr. meindýralausu, og má það vera, a. m. k. þar, sem ekki hafa verið gerðar sérstakar herferðir á þær óvættir, sem kallaðar eru einu nafni meindýr, en meiri hl. n. gat nú ekki fallizt á, að fella þetta niður, vegna þess að það er eðlilegt, að húsnæði, þar sem eru kakkalakkar, rottur og önnur meindýr, er alls ekki leiguhæft, svo að það verður eiginlega að vera kvöð um það, að húsnæðið skuli vera án þessara galla. — Að öðru leyti eru í þessum kafla algerlega venjulegir viðskiptahættir gagnvart húsnæðinu, sem bæði hefur nú verið reynt að innleiða um húsnæði og eru líka um önnur viðskipti manna á meðal.

Ég vil geta þess, að meiri hl. ber hér fram brtt. við 10. gr., að í staðinn fyrir, að leigutaka beri að annast aflýsingu þinglesins leigumála, þá beri leigusala að gera það. Okkur þótti það eðlilegra. — Þá er orðalagsbreyting, sem n. ber fram við 18. gr. Höfundar frv. hafa notað „að breyttu breytanda“. „Nú tekur leigumáli til húss eða hluta af húsi, sem ekki var fulllokið, er leigumálinn var gerður, og ber þá að beita ákvæðum 11., 13. og 15. gr., að breyttu breytanda.“ Okkur þykir fara betur á því, að hér komi: „eftir því sem við á“, og höfum við gert þessa breytingu á einum tveimur, þremur stöðum, þar sem þetta orðalag er: „að breyttu breytanda“.

4. kaflinn er um stað og stund leigugreiðslu. Það er gert ráð fyrir því, að aðalreglan sé sú, að húsaleiga sé greidd fyrir fram mánaðarlega og að hún sé greidd á heimili leigusala eða á öðrum þeim stað, sem hann tiltekur innan héraðs. Í 19. gr. 4. málsgr. er ákvæði um það, ef húsaleiga er greidd fyrir fram fyrir lengri tíma en 6 mánuði, og skal þá leigusali greiða leigutaka 6% vexti af fjárhæðinni. Meiri hl. n. þótti þetta ekki vera nógu skýrt og leggur til í 3. brtt. sinni, að þessu sé breytt þannig, að það misskiljist ekki, og standi þar: „og skal leigusali þá greiða vexti af þeirri fjárhæð, sem er umfram gjaldfallna húsaleigu.“ Það átti að standa þarna „6% vexti“, en hefur fallið niður. Ég þyrfti þá líklega annaðhvort að prenta það upp eða láta líta á það sem leiðréttingu. Það vantar inn í. (Gripið fram í.) Nei, það er ekki hægt að líta á það sem leiðréttingu í samræmi við greinina. Þá verðum við að gera um það skriflega brtt.

Þá er 5. kaflinn um skyldu leigusala, og þar er fyrst um viðhald hins leigða húsnæðis utanhúss og greiðslu skatta o. s. frv. og svo hvernig með skuli fara, ef húsnæði rýrnar eða spillist, eftir að leigumáli tekur gildi. Það er aðeins snúið við orðum hérna í 20. gr. í 4. kafla. Það er bara orðalagsbreyting. sem n. þótti fara betur. En svo kemur sá kafli. sem meiri hl. n., sem að öðru leyti er sammála, gat ekki orðið sammála um, og það er alger nýjung hér, þar sem talað er um viðhaldsskyldu leigutaka. Það er gert ráð fyrir því í frv., .að leigutaki annist á sinn kostnað allt viðhald þess húsnæðis, er hann hefur á leigu og leigusala ber ekki að annast samkvæmt 22. gr., en það á við húsnæðið utan húss. N. taldi, þegar hún var að ræða þetta, þ. e. a. s. meiri hl. hennar. áður en hún skiptist, að þetta ákvæði væri til bóta, að það væri eiginlega tvennt, sem mætti telja því til gildis. Annars vegar það, að það mundi vera gengið betur um hið leigða húsnæði, þegar vitað væri, að leigutaki ætti sjálfur að annast viðhaldið, og þá líka það að það yrði auðveldara fyrir leigutaka að láta gera þær umbætur, sem honum þættu nauðsynlegar, þar sem líka er gert ráð fyrir því í frv., að ef leigutaki skilar húsnæði, þegar hann fer úr því, í betra ástandi, en hann hefur tekið við því, þá reiknist það honum til góða, þegar hann skilar húsnæðinu. Enn fremur taldi n. þegar hún ræddi um þetta, að margir mundu geta annazt viðhald á íbúð sinni án þess, að tilfinnanlegt væri. Þeir menn, sem kunna með að fara málningu, veggfóður og þess háttar eða einhverjar smíðar, mundu geta gert þetta án þess að finna mikið fyrir því, en það er auðvitað undirskilið, að leiguupphæð verði nokkuð miklu vægari, þegar leigutaki tekur að sér viðhald húsnæðis síns. Við töldum sem sé, að það væru líkur til þess, að betur yrði gengið um húsnæði, það færu minni verðmæti til spillis og að fleiri menn gætu notfært sér eigin vinnu, ef þessi regla væri upp tekin. Hins vegar er gert ráð fyrir því í frv. eins og það liggur fyrir, að leigutaki annist kostnað á öllu því húsnæði, sem hann hefur á leigu, allir leigutakar með öðrum orðum. Við, sem erum með þessu ákvæði, töldum þó réttara, að þessi viðhaldsskylda næði aðeins til íbúða, en ekki til einstaklingsherbergja, og það gerðum við vegna þess, að okkur virtist sem samfara viðhaldsskyldu hlyti að koma sú regla, að húsnæði yrði yfirleitt, sem kallað er, tekið út, þegar skipti yrðu á leigutaka, og þar sem iðulega er þannig, að leigjendaskipti eru oftar að einstaklingsherbergjum heldur en íbúðum og þetta fyrirkomulag er nú óreynt hér á landi, þá töldum við hv. 1. þm. N-M., sem erum með viðhaldsskyldunni, að réttara mundi að binda þetta aðeins við íbúðir, og höfum samkvæmt því lagt til, að upphaf 29. gr. verði þannig: „Leigutaki, sem hefur á leigu íbúð, sem er eitt herbergi og eldhús eða meira, skal annast á sinn kostnað allt viðhald þess húsnæðis, er hann hefur á leigu og leigusala ber ekki að annast samkvæmt 22. gr.“ Að öðru leyti ætlumst við til þess, að kaflinn standi óbreyttur.

Við 1. umr. þessa máls hér í deildinni spurði einn hv. þm., ég ætla, að það hafi verið hv. þm. Barð., um það, hvað mikið sú úttekt, sem gert er ráð fyrir á húsnæðinu, mundi kosta. Það er nú örðugt að gera sér grein fyrir því, en sannleikurinn er sá, að húsaleigunefndir, t. d. húsaleigunefnd Reykjavíkur, annast núna mat á húsnæði, sem er náttúrlega miklu minna en úttekt sem þessi mundi vera, en að líkindum mundi þetta verða í framkvæmdinni þannig, að húsaleigunefnd mundi hafa með það að gera, eða einhverjir úr húsaleigunefnd, — það yrðu í byrjun settar upp ákveðnar reglur fyrir því, hvað ætti að meta, hvernig ætti að skila hverjum hlut, miðað við málningu, veggfóður, lykla, hreinlætistæki, í hvernig ástandi það væri o. s. frv., og menn, sem eru þessu kunnugir, segja mér það, að slík úttekt mundi yfirleitt komast svo mikið upp í vana, að hún yrði mjög fljótgerð og mjög ódýrt verk. þegar á annað borð væri búið að skapa sér reglu um það, hvernig hún skyldi fram fara. (Gripið fram í.) Hvaða menn eru það? Ja, það eru nú t. d. þeir, sem starfa í húsaleigunefnd, og þeir, sem sjálfir hafa séð matsgerðir húsaleigunefndar, því að hún hefur metið náttúrlega mörg hundruð sinnum húsnæði hér í þessum bæ, og maður veit, að það er ekki nema skammur tími, sem það tekur hana, og hún er orðin vön þessu og fljót að gera sér grein fyrir því, í hvernig ástandi húsnæðið er, hvað það ætti að kosta o. s. frv. Það er viðbúið, að það taki kannske örlítinn tíma að koma þessu á, en áreiðanlega mun það, þegar þetta væri komið í fulla framkvæmd, vera til bóta, en þetta er nýmæli hjá okkur, og það er ákaflega eðlilegt, að fólk sé í vafa um það í fyrstu, hvernig eigi við því að bregðast, en án þess að ég hafi nú nokkra greinargóða skýrslu um það, þá veit ég, að t. d. í Danmörku er allt húsnæði tekið út við leigjendaskipti, einnig einstaklingsherbergi, og er þá gengið lengra heldur en t. d. við ætlumst hér til, sem þó erum með þessu ákvæði.

7. kaflinn er um aðgang leigusala , að leigðu húsnæði, þegar hann ætlar að fara að leigja það út eða láta gera við það o. s. frv., og svo er 8. kaflinn um það, hverjir geti gengið inn í leigusamning, sem gerður hefur verið. Þarna er lagfæring, sem meiri hl. n. gerir við 39. gr. Okkur fannst hún ekki ljós eins og hún var og gerðum ráð fyrir því, að það mundi vera prentvilla eða eitthvað því um líkt og breyttum því, að það skyldi verða tilkynnt með minnst hálfs mánaðar fyrirvara, ef það ætti að fara að leggja leiðslur og m. ö. o. að róta húsnæðinu meira heldur en er gert við venjulegar smáviðgerðir.

Þá er 9. kaflinn um rétt leigusala til að rifta leigumála, og er talið upp í níu liðum, hvað til þurfi að koma, til þess að leigusali geti rift leigumála, og er það náttúrlega í fyrsta lagi, ef ekki er staðið í skilum með leiguna, og í öðru lagi ýmislegt annað, sem til getur komið og er bætt um í lögunum.

Þetta eru þeir 9 kaflar, sem eru almenn ákvæði um húsaleigu og um viðskipti leigusala og leigutaka. Svo koma hér 10. og 11. kaflinn. Fyrri kaflinn, 10., er heimildarákvæði fyrir sveitarstjórnir, og 11. kaflinn er um húsaleigumiðstöð. Það er gert ráð fyrir því í 49. gr., að þegar mikil húsnæðisekla sé í kaupstað eða kauptúni, sem hefur 500 íbúa eða fleiri, þá geti sveitarstjórn ákveðið með sérstakri samþykkt, að koma skuli til framkvæmda í sveitarfélaginu að einhverju eða öllu leyti ákvæði þessa kafla, og ákvæðin felast aðallega í því, að það sé sett á stofn húsaleigunefnd, sem fari með mál milli leigutaka og leigusala, og hins vegar í því að setja nokkur höft á það, hvenær leigusala er heimilt að segja upp leigusamningi um húsnæði. Núna er í gildi samkvæmt l. samþykktum 15. maí 1950 slík binding, en bindingin, sem gert er ráð fyrir í heimildarákvæði 61. gr., er nokkru rýmri heldur en sú binding, sem nú er í gildi og gildir til 14. maí í vor. Þar er gert ráð fyrir, að yfirleitt sé óheimilt að segja upp leigusamningi á húsnæði, nema þess sé brýn þörf til íbúðar fyrir leigusala sjálfan eða skyldmenni, sem þar er tilgreint, en undantekið er þó íbúðarhúsnæði, sem er á sömu hæð og húseigandi býr sjálfur og hefur sama ytridyrainngang. Einstaklingsherbergi eru undanskilin og atvinnuhúsnæði. M. ö. o. nær þessi kvöð einungis til íbúðarhúsnæðis, sem er á annarri hæð, heldur en húseigandi býr sjálfur, þ. e. a. s. ef ekki er sami útidyrainngangur, og ekki til annars, og svo náttúrlega til húsa, sem húseigandi býr ekki í sjálfur.

11. kaflinn er svo um húsaleigumiðstöð. Þar segir, að heimild leigumiðstöðvar til ráðstöfunar á húsnæði geti aldrei náð til þess leiguhúsnæðis, sem er í því húsi, sem húseigandi býr í sjálfur. M. ö. o., það er svo til ætlazt, að ákvæði 11. kafla geti aldrei náð til annars húsnæðis heldur en þess, sem er aðeins haft til útleigu, — aldrei til húsnæðis í því húsi, sem húseigandi býr í sjálfur.

Í þessum tveimur köflum felast ákvæði, sem ágreiningur mun sjálfsagt verða um hér í hv. Alþ. og svo er gert ráð fyrir því í 1. gr. frv., að þessi heimildarákvæði gildi á þeim stöðum, þar sem sérstaklega hafa verið og eru vandræði með húsnæði, þ. e. í Reykjavík, Hafnarfirði og á Akureyri um tveggja ára bil, frá 14. maí 1953 til 14. maí 1955, en nokkur bindingarákvæði eru í gildi núna til 14. maí 1953. Þessi heimildarákvæði, sem gert er ráð fyrir í 10. og 11. kafla, munu þannig, ef hv. Alþ. samþ. frv. í þá átt, sem meiri hl. leggur til, ná til þessara staða. — Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja þetta nánar að sinni. Aðrir nm. munu gera grein fyrir sínum skoðunum.