11.12.1952
Efri deild: 38. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í C-deild Alþingistíðinda. (3459)

63. mál, húsaleiga

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég get tekið það strax fram, að ég er samþykkur því frv., sem hér liggur fyrir, í meginatriðum og hef enda skrifað undir það nál. meiri hl. n., sem leggur til, að það verði samþ., að vísu með nokkrum minni háttar breyt. Og það, sem fyrst og fremst gerir það að verkum, að ég tel nauðsynlegt að samþ. þetta frv., eru einmitt þau ákvæði þess, sem hv. þm. Seyðf., sem hefur klofið n. og skilað minnihlutaáliti, — þau ákvæði, sem hann var nú að gera grein fyrir að valdi því, að hann vill aftur á móti fella frv. Ég álít sem sagt, að það sé enn þá, eins og verið hefur um alllangt skeið undanfarið, það vandræðaástand í húsnæðismálunum hér í Reykjavík og í ýmsum af hinum stærri kaupstöðum landsins a. m. k., að það mundi horfa til hreinna vandræða og meira eða minna öngþveitis, ef látin væru falla úr gildi þau ákvæði, sem nú gilda um takmarkanir á því, að leigusalar geti sagt upp leigðu íbúðarhúsnæði, en eins og kunnugt er, mundu þau ákvæði falla úr gildi nú við næsta flutningsdag, ef þau eru ekki endurnýjuð.

Hv. þm. Seyðf. var að vísu að ræða um það hér áðan, að þetta væru mjög óeðlilegar takmarkanir á eignarrétti viðkomandi manna, þ. e. a. s. húseigendanna, og mundu valda þeim ýmsum óþægindum, sem hann telur að séu óréttmæt. Þó komst hann nú svo að orði, að slíkar ráðstafanir gæti verið heimilt að gera á neyðartímum. En ég held, að það megi einmitt heimfæra undir það ástand, sem nú er í húsnæðismálunum, að það sé í raun og veru neyðarástand. Ég get ekki kallað það öðru nafni en því, þegar svo er ástatt, að t. d. hér í Reykjavík er fólk svo þúsundum skiptir og þ. á m. mikill fjöldi barna, sem býr í algerlega óhæfu húsnæði og heilsuspillandi húsnæði. Það má nefna t. d. brakkana, sem mjög mikill fjöldi fólks býr í og margir hverjir eru gersamlega óhæfir til íbúðar, þó að fólk neyðist til þess að búa í þeim, og sömuleiðis ýmsar kjallaraíbúðir, sérstaklega í eldri húsum í bænum, sem margar hverjar eru sennilega ekkert betri, heldur jafnvel kannske enn þá meira heilsuspillandi heldur en jafnvel brakkarnir, vegna þess hversu mikill raki er í ýmsum slíkum kjallaraíbúðum. Ég held sem sagt, að ástandið sé þannig, að það megi heita neyðarástand í þessu efni, og þess vegna séu líka ekki aðeins réttlætanlegar þær takmarkanir, sem nú eru í l. varðandi rétt húseigendanna til þess að segja upp leigðu húsnæði, heldur sé blátt áfram nauðsyn að halda þessum ákvæðum við, meðan ekki er bætt úr því ástandi, sem almennt ríkir í húsnæðismálunum, sérstaklega hér í Reykjavík og á ýmsum öðrum stöðum, sem líka koma til greina í þessu sambandi. Það er þess vegna þetta, sem gerir það fyrst og fremst að verkum, að ég er með því og tel nauðsynlegt, að þetta frv. verði samþ.

Að hinu leytinu álít ég líka rétt, að það séu sett lög um hin almennu viðskipti leigutaka og leigusala, eins og gert er hér í fyrstu 9 köflunum af þessu frv., sem hér liggur fyrir. Um þetta hafa ekki verið nein lög í gildi, og þar sem slík viðskipti eru, eins og kunnugt er, svo almenn sem hér er um að ræða og varða hagsmuni svo mikils fjölda fólks, þá tel ég rétt, að það séu settar um það fastar reglur í lögum, sem báðir aðilar geti haldið sig við og séu þá einnig skyldir að halda sig við í þeim viðskiptum, sem þarna eiga sér stað. Um það hefur heldur í raun og veru ekki verið ágreiningur í n., að það væri rétt að setja lög um þessi almennu viðskipti. Hv. þm. Seyðf. hélt því að vísu fram, að það væri rétt — eins og hann nefndi hér líka áðan — að aðgreina þetta alveg. Lögin, sem um þetta væru sett, ættu að vera sjálfstæð út af fyrir sig, en síðan, ef talið væri óhjákvæmilegt að setja eða halda við þvingunarákvæðum varðandi leigu húsnæðis, þá ætti það að vera í öðrum lögum.

Ég get í sjálfu sér vel fallizt á þessa röksemdafærslu út af fyrir sig, að það hefði verið kannske rétt að flytja um þetta tvö frv. og hafa almennu ákvæðin í l. út af fyrir sig, þau ákvæði, sem ætlazt er til að gildi til frambúðar, og þá hefði auðvitað verið hægt að flytja jafnhliða annað frv. varðandi takmarkanirnar á uppsögn leiguhúsnæðis. En af því að þetta var ekki gert, þá mundi það sennilega hafa leitt til þess, ef n. hefði farið að kljúfa þetta í sundur í tvö frv., að erfitt hefði orðið að fá þetta mál afgr. hér á þinginu, og n. vildi þess vegna ekki — eða a. m. k. ég fyrir mitt leyti vildi þess vegna ekki á því stigi, sem málið þá var komið á, fallast á þessa skiptingu, þó að hún út af fyrir sig gæti verið eðlileg og réttmæt.

En þó að ég sé samþykkur þessu frv. í meginatriðum og hafi skrifað undir nál. meiri hl. n., þá eru það samt viss ákvæði hér í þessum almenna hluta frv., sem ég er ekki samþykkur meiri hl. n. um, og það er, eins og hv. frsm. þegar hefur tekið fram, varðandi ákvæðin um viðhaldsskyldu leigutaka. Í frv. er sem sagt gert ráð fyrir því, að viðhaldsskyldu á leigðu húsnæði verði skipt þannig, að leigusali annist aðeins viðhald húseignarinnar utanhúss, en leigutaka hins vegar gert að skyldu að annast allt viðhald innan húss, þ. e. a. s. í þeim herbergjum, sem hann hefur á leigu, og þeim hluta húsnæðis að öðru leyti, sem hann notar einn út af fyrir sig, en ekki sameiginlega með öðrum leigutökum í sama húsi. Eins og þetta er sett hér fram, þá felst í þessu bein hækkun á hinni lögleyfðu húsaleigu eða því hámarki, sem ákveðið er um húsaleigu, því að þessari viðhaldsskyldu leigutaka er bætt við, án þess að nokkurt tillit sé tekið til þess í sambandi við ákvæðin um hámarksleigu hins leigða húsnæðis. Hv. frsm. lét að vísu falla orð á þá leið, að það mundi vera undirskilið, að leigumáli yrði vægari af þessum sökum, en ég held, að það sé misskilningur. Það eru áreiðanlega ekki í frv. nein ákvæði um það, að um leið og þessi viðhaldsskylda er færð yfir á leigutaka, þá skuli lækka húsaleiguna. Meira að segja er það svo, að í þessum almenna hluta frv. eru engin ákvæði um hámark á húsaleigu. Það ákvæði er aðeins í heimildarköflunum, sem á eftir koma, en ef samþ. verður 1. gr. frv., þar sem ákveðið er, að þessi heimildarákvæði skuli gilda sem lög í tilteknum bæjum til 14. maí 1955, þá kemur að vísu líka í lög það ákvæði, sem í þessum köflum er sett um hámark húsaleigunnar og gildir þá a. m. k. í þessum viðkomandi bæjum einnig þennan tiltekna tíma, en mundi ekki gera það lengur, nema það verði framlengt þá með einum eða öðrum hætti. Og hitt er a. m. k. alveg víst, að þrátt fyrir það, þó að þessi viðhaldsskylda sé færð yfir á leigutaka, þá gerir frv. ekki neins staðar ráð fyrir því, að leigan verði af þeim sökum neitt lækkuð. Þetta ákvæði hefur þess vegna í för með sér, að sett er í lög ákvæði um það, að húsaleiga skuli hækka eða megi hækka frá því, sem hún nú er, en það álít ég fyrir mitt leyti ekki ástæðu til að gera.

Ég hef þess vegna leyft mér að flytja um þetta atriði og annað atriði, sem er í beinu sambandi við það, þ. e. a. s. úttekt á leigðu húsnæði, brtt. um að fella þessa viðhaldsskyldu leigutaka niður og vil þá einnig að falli niður ákvæðið um úttekt leiguhúsnæðis, en ég tel, að það standi beinlínis í sambandi við þetta og þeirrar úttektar sé ekki þörf, ef leigusali annast allt viðhal.d á húsnæðinu, eins og verið hefur hingað til. Fyrsta brtt. mín varðandi þetta efni er þess vegna við 22. gr. frv. Eins og frv. er núna, þá fjallar þessi 22. gr. um skyldur leigusala til þess að halda við hinu leigða húsnæði utanhúss, en ég vil taka inn í þessa grein skyldu leigusala til þess að halda húsnæðinu við, bæði utanhúss og innan, sem sagt taka upp í hana ákvæði, sem eru nú í 29. gr. um skyldu leigutaka til þess að halda húsnæðinu við innanhúss. Af þessu leiðir auðvitað það, að ég legg til, að 29. gr. falli aftur niður og þessi viðhaldsskylda sé sem sagt öll látin hvíla á leigusala eins og verið hefur og ákvæðin um það komi þá öll í þessa sömu grein frv. Þó hef ég bætt hér við sem 2. málsgr. þessarar væntanlegu 22. gr., ef mín till. yrði samþ., ákvæði um það, að heimilt skuli þó vera að ákveða í leigusamningi, að leigutaki skuli annast viðhald hins leigða húsnæðis að meira eða minna leyti, enda sé þá fullt tillit tekið til þess til lækkunar á leigumála.

Þau rök, sem meiri hl. n. hefur fært fyrir því, að heppilegra væri, að leigutaki annist viðhaldið innanhúss, eru, að þeir telja, að í því mundi felast trygging fyrir því, að betur yrði gengið um húsnæðið, ef leigutaki þyrfti sjálfur að annast og kosta viðgerðina og viðhaldið á því. Og þetta má að sjálfsögðu til sanns vegar færa. Ég vil þess vegna hafa opna leið til þess, þó að ekki sé tekin upp þessi regla og leigutaki skyldaður til þess að gera þetta, — þá vil ég hafa opna leið til þess, ef leigusali og leigutaki vilja gera um það samning, að leigutaki annist þetta viðhald, enda sé það þá á þeim grundvelli, að leigumálinn verði þá lækkaður, sem því nemur. Með því móti er hægt að ná þessum sama tilgangi sem meiri hl. n. hefur viljað ná og sjálfsagt hefur líka vakað fyrir þeim, sem samdi frv. og setti þetta ákvæði inn í það, en það er þá aðeins á grundvelli frjálsra samninga leigusala og leigutaka og byggt á því, að leigumálinn verði þá lækkaður sem þessu nemur, þannig að raunverulegur kostnaður af viðhaldinu hvíli eftir sem áður á leigusala, þ. e. a. s. þeim, sem á eignina, því að það verður þó að teljast eðlilegur hlutur, að menn haldi sjálfir við sínum eignum, en komi því ekki yfir á aðra aðila. Ég held þess vegna, að ef þessi till. mín verður samþ., þá sé alveg opin leið með eðlilegum hætti að ná þeim tilgangi, sem vakir fyrir þeim mönnum, sem þetta ákvæði vilja hafa í frv. eins og nú er, en hins vegar sé ekki gengið — að því er ég tel — með óeðlilegum hætti á hagsmuni leigutaka með því að skylda hann til að halda við eign, sem hann á ekki sjálfur.

Þetta er meginefnið í mínum brtt. Eins og ég sagði áðan, þá er önnur till. bara um það að fella niður 29. gr., sem er afleiðing af þessu, og 3. og 4. brtt., um að fella niður 35. og 36. gr., eru aðeins um það að fella niður ákvæðið um úttekt á húsnæði, sem einnig er í raun og veru afleiðing af þessu ákvæði um viðhaldsskylduna, og síðan einnig að fella niður eða sameina í eitt 5. og 6. kaflann. Það leiðir líka af þessu sama, því að ef viðhaldsskylda leigutaka er felld niður, þá er auðvitað ekki hægt að hafa sem kaflafyrirsögn „Viðhaldsskylda leigutaka“, og er þess vegna eðlilegt, að þessir tveir kaflar rynnu saman í einn og yrði fyrirsögnin þá: „Skyldur leigusala og leigutaka“, því að það eru auðvitað ýmsar skyldur, sem hvíla á leigutaka eftir sem áður, þó að viðhaldsskyldan yrði af honum tekin.

Síðasta brtt. mín, sem er aftur efnisbreyting á frv. og um annað atriði heldur en ég hef nú fjallað um, er breyt. á 61. gr. Það er ein grein í heimildarköflunum og varðar takmarkanirnar á því, að segja megi upp leigðu húsnæði. Þar er talað um, að leigusala sé óheimilt að segja upp leigusamningi um húsnæði, nema honum sé að dómi húsaleigunefndar þess brýn þörf til íbúðar fyrir sjálfan sig og svo fyrir skyldmenni í beina línu, sem þar er nánar tiltekið, en síðan kemur hér í stafliðnum upptalning á því húsnæði, sem komi þó ekki undir þetta ákvæði, og þ. á m. er í 1. tölul. íbúðarhúsnæði, sem er á sömu hæð og húseigandi býr sjálfur á og hefur sama ytridyrainngang. Ef svo háttar til, þá nær takmörkunin ekki til þess húsnæðis, heldur má samkv. frv. segja upp þeim íbúðum, þar sem svo stendur á. Þetta ákvæði eða ákvæði líkt þessu mun hafa verið sett inn í l., sem síðast voru sett til framlengingar á þessum takmörkunum á uppsagnarákvæðum leigðs húsnæðis, með þeim rökum, að þar sem leigusali byggi í sama húsi eða á sömu hæð, — ég man nú ekki fyrir víst, hvernig ákvæðin eru í gildandi l. núna, og það hefur komið upp svolítill ágreiningur um það hér í umr., — en þar sem hann byggi sem sagt í svo miklu nábýli við leigusala, að hætta væri á því, að leigusali hefði sérstök óþægindi af sambýlinu, þá væri honum heimilt að segja þessu leiguhúsnæði upp þrátt fyrir þær takmarkanir, sem annars eru í því efni. Nú lít ég hins vegar þannig á, að þó að það kynnu að hafa verið einhver rök fyrir því að hafa þessa undantekningu, þá falli þau rök niður, ef samþ. verða þau ákvæði, sem frv. gerir ráð fyrir að nú verði sett í lög um hin almennu viðskipti leigusala og leigutaka, því að í 9. kafla frv. eru mjög ýtarleg ákvæði um það, hvenær rifta megi leigumála, ef leigutaki uppfyllir ekki þær skyldur, sem honum eru settar í þessum almennu ákvæðum frv. Þetta er talið hér upp í 9 töluliðum. Ég skal aðeins benda þar á t. d. 7. töluliðinn, þar sem leigusala er heimilt að rifta leigumálanum, ef leigutaki niðir húsnæðið og ræður ekki bót á því, sem miður fer, þegar er leigusali krefst þess, og í 8. liðnum enn fremur, ef leigutaki vanrækir þrátt fyrir áminningar leigusala skyldur þær, er á honum hvíla til að sjá um, að góð regla og umgengni haldist í hinu leigða húsnæði, sbr. 32. gr. Og í 32. gr. er mælt svo fyrir, að leigutaka sé skylt að sjá um í fyrsta lagi, að fullkomins hreinlætis sé gætt í umgengni allri utanhúss og innan á eign þeirri, sem hann hefur á leigu, og í öðru lagi, að hávaði sé ekki í húsnæði hans umfram það. sem samrýmist góðum sambýlisháttum og fyllstu tillitssemi til annarra, og í þriðja lagi, að allt heimilisfólk hans sýni fulla kurteisi og prúðmannlega umgengni við sambýlisfólk sitt, og enn frekari ákvæði eru um þetta. Ef leigutaki uppfyllir ekki öll þessi ákvæði og ýmis önnur, sem hér eru talin upp í þessum 9. kafla frv., þá getur leigusali riftað leigusamningi og látið hann fara úr húsnæðinu þrátt fyrir þær takmarkanir, sem að öðru leyti felast í 9. og 10. kafla frv., þannig að eftir að slíkt sem þetta hefur verið lögleitt, þá tel ég enga minnstu ástæðu til þess að heimila uppsögn frekar á því húsnæði, sem er í sama húsi eða á sömu hæð og leigusali býr í sjálfur, því að honum eru allar dyr opnar til þess að losna við þá leigjendur, sem haga sér þannig í hinu leigða húsnæði, að það sé honum til nokkurs tjóns eða óþæginda.

Ég hef þess vegna lagt til í þessari 6. og síðustu brtt. minni, að þessi 1. tölul. 61. gr. frv. falli niður og að þær takmarkanir, sem þá felast í 61. gr., nái til alls leiguhúsnæðis, sem búið er í, en eftir standa þá ákvæðin í 2. og 3. tölulið, þannig að þetta nái ekki til einstaklingsherbergja og ekki til atvinnuhúsnæðis.

Ég hef þá gert grein fyrir þessum brtt. mínum. Aðalefni þeirra er sem sagt það, að ég vil ekki, að það sé tekin upp sem lögbundin skylda leigutaka að annast um viðhald á eign, sem hann á ekki, hins vegar sé opin leið til þess að gera það með samningi við leigusala, ef viðkomandi aðilar telja það heppilegra og vilja koma sér saman um það og þá á þeim sanngirnisgrundvelli, að tillit sé tekið til þess í leigumálanum. — Hitt meginatriðið í mínum till. er svo þetta, sem ég nú síðast var að ræða um, að þessi takmörkun á uppsögn leiguhúsnæðis nái til allra fjölskylduíbúða án tillits til þess, hvort leigusali býr sjálfur í húsinu eða ekki.