16.10.1952
Efri deild: 9. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í C-deild Alþingistíðinda. (3463)

69. mál, kaup á togurum og togveiðibát

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram hér í hv. d. frv. það, sem nú liggur fyrir til 1. umr., um, að ríkisstj. verði veitt heimild til þess að ábyrgjast fyrir Húsvíkinga lán til þess að kaupa togara, annaðhvort ábyrgjast fyrir bæjarfélagið út af fyrir sig eða fyrir hlutafélag, sem bæjarfélagið yrði þátttakandi í. Ég hef gert þetta eftir eindregnum óskum bæjarstjórnar Húsavíkur, svo sem fylgiskjal það, sem prentað er með greinargerð frv., ber með sér. Á bak við óskir bæjarstjórnarinnar standa svo samþykktir borgarafundar í Húsavík. Húsvíkingar hafa komizt að þeirri niðurstöðu, m. a. með því að líta til næsta bæjarins við sig, Akureyrar, að helzta bjargráð til að bæta úr atvinnuleysisböli vetrarmánaðanna í Húsavík sé að fá þangað togara, er gangi þaðan til veiða og leggi þar upp afla sinn.

Í Húsavík eru nú íbúar á fjórtánda hundrað. Höfuðatvinnuvegirnir í Húsavík eru sjávarútvegur og landbúnaður, svo sem lengi hefur verið. Landbúnaðurinn er til mikilla þæginda og drjúgrar matbjargar og hollustu, en sjávarútvegur verður að leggja til, auk mikillar matbjargar, sem hann leggur til, aðalpeningatekjur fólksins til viðskipta og verzlunar, í skatta og skyldur, til umbóta og framfara o. s. frv. Vel má nú segja, að alltaf hafi verið vöntun á atvinnu í Húsavík á vetrum, jafnvel atvinnuleysi, því að aflaskortur er þar venjulega á vetrum og sjór lítið sóttur, vegna þess að hvorki er afli í sjó né gæftir að staðaldri. En áður fyrr þoldu menn þetta ástand betur en nú. Lífshættir voru allt aðrir þá í Húsavík eins og annars staðar í landinu. Þá voru skattar litlir, því að samfélagið hafðist þá lítið að og hafði því lítinn tilkostnað og krafðist lítilla framlaga. Menn grófu mó úr jörðu til eldsneytis. Nú kaupa menn erlent eldsneyti og rafmagn. Áður sóttu menn vatn í læki eða brunna. Nú kaupa menn vatn í vatnsveitunni. Ég nefni þetta sem dæmi um auknar og sjálfsagðar þarfir. Vegna þessara atriða og margs annars gátu menn þá þreytt þorrann og góuna atvinnulausir, þótt menn geti það alls ekki lengur. Og að menn geta það ekki nú, stafar ekki af ódugnaði í afköstum og kemur ekki heldur af breyttu náttúrufari landsins eða illum stjórnvöldum, heldur meiri lífskostnaði, betri aðbúð, auknum þörfum. Stöðugt vaxandi þarfir hafa kallað eftir meiri atvinnu og stöðugri, og nú orðið kalla þær eftir atvinnu alla mánuði ársins, því að alla mánuði ársins þarf að standa straum af útborgunum, sem útheimtast til þess að lifa — eins og nefnt er — menningarlegu og mannsæmandi lífi.

Eftir því sem fólki fjölgar meira í bæ eða kauptúni með atvinnuhætti eins og venjulegastir eru, eftir því reynir meira á þolrif atvinnuveganna. Húsavík hefur fram að þessu haldið í horfi og sinnt, að ég tel, umbótum og kröfum tímanna sómasamlega. Þetta hefur tekizt af því, að Húsavík hefur sent burt stærri báta á vetrum til útgerðar og margt manna hefur farið í atvinnuleit á fjarlæga staði. En nú hrekkur þetta ekki til lengur. Nú þarf aukna atvinnu heima. Samt er í Húsavík, sem betur fer, ekkert neyðarástand enn þá, en það getur orðið, og það blasir við fram undan, ef ekki er aðhafzt. Það þarf, sem betur fer, ekki að reisa, heldur styðja, og það er alltaf hægara að styðja en reisa. Frv. þetta er ósk um stuðning, sem Húsvíkingar álíta að sér sé mikilsverður og muni hrökkva til ávinnings næsta áfanga.

Frá Húsavík á togari ekki erfiðara að sækja til miða heldur en frá Akureyri, en togaraútgerð á Akureyri er talið að hafi gengið vel.

Á Húsavík er höfn fyrir togara og löndunaraðstaða. Þar er hraðfrystihús, sem er almenningseign. Þar er saltfisksþurrkunarhús, sem líka er almenningseign. Þar eru fisksöltunarhús til reiðu. Þar er síldarverksmiðja, sem vinnur fiskúrgang. Hana á ríkið, og hún mundi að sjálfsögðu hafa ávinning af auknum verkefnum.

Húsavík er einn af 13 kaupstöðum landsins.

Aðeins í þrem þessara bæja eða kaupstaða er nú engin togaraútgerð. Það er í Húsavík, Ólafsfirði og Sauðárkróki. Ríkið hefur veitt öllum hinum kaupstöðunum 10 eða íbúum þeirra meiri og minni aðstoð til þess, að þangað fengjust togarar. Enn fremur hafa þó nokkur kauptún orðið þvílíkrar aðstoðar aðnjótandi. Hér er þess vegna alls ekki nýmæli á ferð, ekki verið að biðja um að skapa fordæmi, heldur er farið fram á jafnrétti. Ég tel aðstöðuna heima fyrir í Húsavík þannig, að hún sé mun betri til þess að hagnýta togaraafla, en víða annars staðar, og þörfina fyrir aukna atvinnu tel ég tvímælalausa. Svo vel vill líka til, að hæstv. ríkisstj. hefur starfandi atvinnumálanefnd, og sú atvinnumálanefnd kom til Húsavíkur í sumar og athugaði þar aðstöðu og atvinnuhætti og atvinnuástand. Mér þætti mjög eðlilegt, að n., sem um þetta mál fjallar væntanlega, leitaði álits þessarar n., og ég efast ekki um, að það álit muni votta það, að ég hef hér með því, sem ég hef sagt, skýrt rétt frá.

Í frv. er ekki tiltekin lánsupphæð, sem ríkið megi ábyrgjast, en hins vegar er tiltekið hundraðshlutfall af stofnkostnaði, 90% hámark ábyrgðar á lánum og auðvitað með þeim fyrirvara, að kaupverð togarans verði við hæfi eftir áliti ríkisstj. Þetta, 90% ábyrgð fyrir stofnláni, 1. veðréttar lán er falið þar í, mun vera það hlutfall, sem viðgengizt hefur um aðstoð ríkisins, þó að sums staðar hafi ekki verið svo hátt farið, en annars staðar hefur líka áreiðanlega verið meiri hjálp veitt. Ég sé engar líkur til þess, að Húsvíkingar geti lagt fram í upphafi meira en tíunda part stofnkostnaðar. Ekki er hægt að vita með vissu, hvert stofnverðið kann að verða. Helzt munu Húsvíkingar hugsa til þess að kaupa einhvern hinna fyrri nýsköpunartogara. Gamla togara vilja þeir alls ekki, og er það ekki láandi. Togara af nýjustu gerð telja þeir sér yfirleitt ofviða að verði, enda veit ég engan þeirra falan. Hins vegar mun Húsvíkingum hafa boðizt í sumar og haust fleiri en einn togari úr hópi eldri nýsköpunartogaranna, þeirra, sem ekki eru í bæjareign.

Ég leyfi mér að vænta þess, að hið háa Alþ. telji við eiga að taka þessu frv. vel og samþykkja það. Ég óska, að málinu verði að aflokinni þessari 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.