11.11.1952
Efri deild: 24. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í C-deild Alþingistíðinda. (3472)

69. mál, kaup á togurum og togveiðibát

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Mér þótti vænt um að heyra það, að hæstv. dómsmrh. sagðist ekki vera því mótfallinn út af fyrir sig, að Húsavík og Ólafsfirði yrði veitt aðstoð til þess að komast yfir togara. En hann vildi fyrst og fremst fá upplýsingar um það, hvaðan ætti að taka þá togara, hvort það væri meiningin að kaupa nýja togara til landsins eða flytja til togara í landinu. Og enn fremur virtist mér hann telja það alveg sérstakt áhættumál að samþ. svona frv. með þeirri brtt. sem fyrir liggur, ef það væri ætlunin að taka togara, sem þegar er til í landinu, og flytja.

Ég get svarað því að því er snertir Húsavík, að það hefur ekki vakað fyrir áhugamönnum þar að fara fram á það, að keyptur væri togari til landsins, og það er vegna þess, að yfirleitt virðist ekki líta svo út, að þeir, sem fara með völd í landinu, telji, að af gjaldeyrisástæðum séu möguleikar á slíku, og líka vegna hins, að þegar það vitnaðist, að Húsavík hefði hug á því að fá sér togara, þá bárust henni ýmis tilboð um kaup á togurum. Það virðist þess vegna liggja á lausu fyrir þann stað, sem vill fá sér togara, að geta fengið hann. En því skal ég bæta við, að það voru ekki bæjarfélög, sem buðu togara, heldur einstakir menn, — það voru togarar úr einkarekstri, sem boðnir voru.

Viðvíkjandi því, hvað hættulegt sé að samþ. svona l. vegna þeirra, sem ekki mættu missa togarana, þá vil ég benda á það, að hér er aðeins um heimild að ræða og enga fordæmisheimild. Þó að frv. væri samþ., þá er ekki þar með leitt í lög, að Húsavík og Ólafsfjörður skuli fá togara frá stað, sem alls ekki má missa togara, heldur er aðeins heimilað, að ríkisstj. megi veita þeim aðstöðu til þess að fá togara, og það er eftir fyrir Húsavík og Ólafsfjörð að vinna ríkisstj. til þess. Og mér finnst votta fyrir meira vantrausti á ríkisstj. heldur en ég hef haft og heldur en mér finnst eiginlega eðlilegt að ríkisstj. hafi á sjálfri sér, þegar það á að verða aðalatriðið hjá einum úr hæstv. stjórn, að hér sé hættumál á ferðinni, þegar aðeins er um heimild handa ríkisstj. að ræða. Um fordæmi með slíkri heimild er ekki að tala að þessu sinni, því að hér eru komnir á undan beint og óbeint 10 bæir. Hér er um jafnréttismál að ræða. Og ef nú fordæmið væri, ef það væri einhver eftir í landinu, sem teldi sig hafa alveg sama rétt og þessir bæir, þá held ég, að það sé bara einn, og það er bærinn Sauðárkrókur. Það er eini bærinn, sem ríkið á eftir að veita aðstoð til togarakaupa, auk Húsavíkur og Ólafsfjarðar.

Svo er annað. Mér virtist koma fram hjá hæstv. dómsmrh., að hann teldi eðlilegra að veita þessa heimild sem almenna heimild vegna sveitarfélaga. Mér hafði ekki hugkvæmzt, að það gæti samrýmzt að vera á móti þessari heimild, vegna þess að hún væri að einhverju leyti hættuleg á þá leið, sem áður greinir, en með því, að heimildin yrði gerð almenn snertandi öll sveitarfélög. Mér finnst þess vegna ekki laust við, að grunsamlegt sé, að einhverjar aðrar ástæður séu fyrir því, að bandað er á móti þessu frv., heldur en þær, sem látnar eru í veðri vaka. Og þykir mér þá kenna ósanngirni vegna þess, sem á undan er gengið. En vitanlega mundi ég ekki hafa við það sérstaklega að athuga sem flm. þessa frv., þó að heimildin yrði víkkuð, því að ég er ekki að biðja um sérréttindi fyrir Húsavík. Ég ætlast til þess, að það verði metið af ríkisstj., þegar heimildir sem þessar eru notaðar, hversu réttmætar þær eru. Og þegar til mats kemur að því er snertir Húsavík, þá er ég viss um það, að þar er aðstaða og þar er þörf, sem réttmætt er að taka til greina.

Hv. þm. Barð. gerði hér að umtalsefni tryggingaratriðið. Og ég játa það, að hann hafði minnzt á málið á svipaðan hátt í fjhn. eins og hann gerði hér áðan. En hann hafði þó sætt sig við þá niðurstöðu, sem kemur fram í till. þeirri, sem n. flytur. Þess vegna finnst mér veðrið hjá honum skipast á helzt til skammri stund — eða ganga fljótt upp aftur. En þá hefur hann líka hreinsað sig af því að standa að rausnarlegri afgreiðslu, sem hæstv. viðskmrh. vildi segja að afgreiðsla fjhn. hefði verið. Ég álít, að það sé rétt að krefjast skynsamlegra trygginga, en þó álít ég, að af því að hér er um jafnréttismál að ræða, eins og ég hef lagt áherzlu á, þá þurfi að gæta hófs í slíku, ef á ekki að gera mun á mönnum í landinu. Og enn fremur kemur það til greina, að oft er það svo, að þeir, sem þurfa á aðstoð að halda, eru einmitt þeir, sem örðugast eiga með að setja miklar tryggingar. Þess vegna leita þeir aðstoðar. Og víst væri það svo, að ef bæirnir væru þess megnugir að kaupa sér togara án ríkisaðstoðar, þá mundu þeir gera það.

Hæstv. viðskmrh. talaði allmikið um þá áhættu, sem ráðizt er í af bæjum með því að reka togaraútgerð, og víst er sú áhætta til, en áhætta atvinnuleysisins og áhætta sú, sem í því felst að hafast ekkert að vegna atvinnuleysis, er líka mikil, og þó að hægt sé að benda á slæm dæmi um togararekstur, þá eru líka til önnur dæmi, og einmitt þeir bæir, sem frv. talar um, hafa dæmin hjá sér um togararekstur, sem hefur borið sig vel og talinn er til mikillar farsældar á sínum stað. Það er sem sé togaraútgerðin á Akureyri. Aðstaða til miða fyrir togara frá Húsavík og Ólafsfirði og mörg önnur aðstaða er ekkert verri þar heldur en á Akureyri.

Ég hafði vænzt þess, að þetta mál gæti fengið nokkuð greiðan byr í gegnum þessa hv. d., en hins vegar mun ég ekkert fjargviðrast út af því., þó að málinu sé frestað um stund og tekið fyrir aftur í n. Ekki sízt, ef það gæti orðið til þess, að t. d. hæstv. ríkisstj. gæti bent á leiðir til úrlausnar fyrir þessa bæi, sem jafngiltu því, að þeir fengju togara, eða fyndi flöt á því að veita umbeðna aðstoð á þann hátt, sem hæstv. stjórn er ekki hrædd við fyrir sjálfa sig og landið.