18.11.1952
Efri deild: 28. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í C-deild Alþingistíðinda. (3483)

69. mál, kaup á togurum og togveiðibát

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Vegna margendurtekinna ummæla hæstv. forseta um, að ráðh. séu hér lítið viðstaddir í d., þá vil ég segja, að ég tel þau ummæli að verulegu leyti mjög ómakleg. Störfum ráðh. er þannig hagað, að bæði þurfa þeir að sinna störfum í báðum d. þingsins og geta þegar af þeirri ástæðu ekki ætið verið við í hvorri d. sem er, heldur verða oft að gera upp á milli, í hvorri d. þeir eiga að dvelja, og þá með eðlilegum hætti eru þeir frekar í þeirri d., þar sem þeir eru þm. En þessu til viðbótar kemur það, að þeir hafa margvíslegum öðrum störfum að sinna, sem ekki sízt eru aðkallandi á meðan Alþ. situr. Þess vegna er þeim ómögulegt og þeir mundu ekki með nokkru móti komast yfir það að gegna öllum þeim störfum, sem á þeim hvíla, ef þeir ættu ætíð að sitja á fundum Alþ. Þeir verða að láta daglega afgreiðslu mála ganga fyrir, margháttaða samninga, bæði innan stjórnarinnar og milli þingfl. til þess að greiða fyrir þingstörfum og við aðra aðila. Allt þetta verður að ganga fyrir því að sitja ætíð inni í þd. Þess vegna er það mjög ómaklegt, þegar verið er af hæstv. forseta að sveigja að ráðh., að þeir séu ekki (Forseti: Ég hef ekkert sveigt að ráðh. fyrir það.) viðstaddir, og a. m. k. heldur hv. 1. þm. N-M. naumast svo ræðu hér nú orðið, að hann minnist ekki á það, að ráðh. séu ekki viðstaddir, og er á stundum hættur að fást til að greiða atkv., nema þeir séu nærstaddir. Nú skal ég játa, að það gæti verið töluverð freisting að láta hv. 1. þm. N-M. ekki ætíð greiða atkv., og þess vegna væri það viðbótarástæða fyrir ráðh. til þess að vera í burtu. En samt held ég, að það ráði tiltölulega litlu um þessar margumtöluðu fjarvistir ráðh. Allir þm. ættu að vita, að störfum ráðh. er þannig háttað, að þeir geta ekki með nokkru móti ætíð setið inni í d. Hitt vil ég svo segja að lokum, áður en ég hverf frá þessu, að ég held, að allir ráðh. reyni, ef eftir því er sérstaklega óskað og þeir eru ekki bundnir af öðrum störfum, að vera viðstaddir. En það kann líka svo að vera, að þeim sé það ekki mögulegt, og þá tjóir ekki um það að tala.

Ég ætlaði ekki aðallega að ræða um þetta, þó að mér þætti skylda mín að minnast á þetta í beinu framhaldi af því, sem hér var sagt, heldur aðeins taka fram út af þeim ummælum, sem hér hafa komið fram í umr., að það er engin afsökun fyrir því, að þetta frv. er einhliða og flutt með tiltekna staðarhagsmuni fyrir augum, en ekki reynt að leysa alþjóðarþörf eins og skyldi, að það skuli aðeins vera heimildarfrv. Vitanlega ætlast hv. flm. og hans stuðningsmenn ekki til þess, að heimildin sé aðeins til þess að sýnast, heldur hljóta þeir að ætlast til þess, að þarna séu þeir að leysa eitthvert mál. En ef þeir segja: Við viljum ekki taka afstöðu til þess, hvaðan skipin á að taka, heldur ætlum við öðrum að leysa þann vanda, — þá eru þeir með málið jafnóleyst eftir sem áður, og þá er ekki um gagnlega till. að ræða, heldur um eitthvað allt annað, sem ég skal ekki lýsa. Það tjáir ekki fyrir hv. þm. að segja, að þeir flytji frv. í trausti þess, að málið verði stöðvað af hæstv. ríkisstj. (Gripið fram í.) Ja, hví vill þm. sjálfur ekki leysa það með alþjóðarhag? Honum hefur verið bent á það, hvað til þess þarf, og hví vill hann ekki sjálfur gera það? Það er vegna þess, að hann tekur aðeins helming málsins, þann, sem honum virðist vera auðveldari, og ætlar svo öðrum að leysa hinn helminginn, þann, sem er óþægilegur. En sá óþægilegi hluti fylgir með á sínum tíma og verður að leysast. Og áður en menn taka afstöðu með málinu eða móti, þá er það mjög eðlileg krafa, sem ég vil ítreka enn, að því verði svarað, hvaðan á að taka þau skip, sem hér er um að ræða, og af hverju vilja ekki stuðningsmenn þessa máls veita aðilum á þeim stöðum, sem á að taka skipin frá, sams konar hlunnindi eins og þeir ætla sínum vinum og skjólstæðingum.