18.11.1952
Efri deild: 28. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í C-deild Alþingistíðinda. (3485)

69. mál, kaup á togurum og togveiðibát

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vissi, að hv. þm. Barð. er vel íþróttum búinn, en aldrei hafði ég búizt við því, að hann væri svo fimur, að hann færi í gegnum sjálfan sig á þann hátt, sem hann hefur gert í þessu máli. Þeir, sem hafa lesið nál., sem fjhn. gaf út, geta séð afstöðu hans þar. Þeir, sem hafa hlustað á ræður hans hér, hafa getað séð fimi hans við að taka breytta afstöðu. Skýrslur þær, sem hann gaf um, með hvaða hætti einstakir bæir og menn í einstökum bæjum hafa getað gerzt eigendur togara á undanförnum árum, voru mjög óljósar og að því er ég tel villandi. Ég er að vísu ekki undir það búinn á þessu stigi að liða þær sundur, en eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið um aðstoðina til ýmissa bæjarfélaga, t. d. Seyðisfjarðar, sem fékk togara úr fyrri innkaupunum, þá skilst mér, að þar hafi verið um alveg sambærileg hlunnindi eða aðstoðarhlunnindi að ræða og hér er farið fram á. Skýringar hv. þm. á því, hvers vegna þeim, sem fengu síðari togarana, var veitt 90% ábyrgð fyrir lánum, eru allmikið villandi, því að þær byggjast aðallega á því, að vegna þess að peningagildi var breytt og verð hækkað, þá hefði orðið að hækka þetta hlutfall. En það eru ekki rétt rök að telja, að hlutfallið hefði átt að breytast af þeim ástæðum. Hitt væru rétt rök, að segja, að nú séu komnir þeir tímar og hefðu verið að koma, þegar þeir togarar komu inn, að miklu örðugra sé fyrir bæjarfélög og einstaklinga að fá lán án þessarar aðstoðar heldur en var þegar togararnir fóru fyrst að flytjast til landsins, og fyrir breyttar aðstæður til þess að útvega lán og tryggja lán vegna þess hvað þau séu torfengin, þá sé mjög eðlilegt, að nú sé veitt hámark aðstoðar. En það er ekki einu sinni hámark aðstoðar, sem Húsavík hefur farið fram á eða ég fyrir hennar hönd með frv. Það er mun meira en 90%, sem ríkið hefur aðstoðað t. d. Siglufjörð við að fá sinn seinni togara.

Það er hægt að segja sem svo, að heppilegra sé, að einstakir menn eða einstök fyrirtæki reki togarana, og ég skal játa það, að ég hefði talið það æskilegra, ef einhver aðili á Húsavík hefði verið nægilega sterkur til þess að taka upp togararekstur, en því er ekki til að dreifa. Aðalatriðið fyrir staðinn er að fá togararekstur, til þess að almenn atvinna geti stuðzt við hann, og úrræði er ekki annað fyrir hendi, en að sveitarfélagið beiti sér fyrir því. Þess vegna er frv. fram komið. Það er alveg rétt, að togaraútgerðin hefur borið sig mjög misjafnlega, og það er í ljós komið með þennan rekstur sem allan annan, að það fer mjög eftir því, hverjir fara með hann. Eitt af því, sem fullyrt hefur verið í mín eyru að hafi skipt allmiklu máli, þar sem togarar hafa verið reknir, er það, hvort tök hafa verið á því fyrir þá, sem togarana hafa rekið, að fá frystan aflann með hagfelldu móti. Niðurstaðan hefur víða orðið sú, að frystihúsin hafa grætt, þó að togararnir hafi tapað. Þessi reynsla kvað vera mjög áberandi, og ég vil taka fram, að einmitt Húsavík hefur skilyrði til þess að vera sjálfri sér nóg að mestu leyti um þetta atriði. Þeir sömu aðilar sem hugsa sér að reka þar togara hafa ráð á frystihúsaðstöðu. Og þess vegna er það, að þeir geta vænzt þess, að sá ávinningur, sem aðrir hafa haft af að skipta við togarana með því að taka hjá þeim fisk til frystingar, geti fallið togaranum hjá þeim sjálfum í skaut.

Hv. þm. Barð. spurði mig að því, hvort ég liti svo á, að þegar til þess kæmi, að stjórnin ákvæði það, hvort hún notaði heimild eða ekki. sem hún fengi, í þessu falli heimild handa Húsavík og Ólafsfirði, þá ætti það að koma til kasta allrar stjórnarinnar að taka ákvörðunina eða valdið að vera hjá einstökum ráðh. Ég vil lýsa því yfir, að í stóru máli sem þessu og sem stuðningsmaður stjórnarinnar lít ég svo á, að stjórnin öll eigi að taka þátt í að ákvarða í slíku máli. Ég vil ætlast til þess, að stjórn, sem ég styð, þó að hún sé frá tveim flokkum, hafi samvinnu um slík mál sem þessi. Og í raun og veru get ég lýst því yfir, að það hafa komið fyrir atvik í starfsemi þessarar ríkisstj., sem ég álít að betur hefði farið á, að hefði verið samráð um.

Hæstv. dómsmrh., sem er landskunnur fyrir velvilja, sanngirni og liðleika í viðskiptum við þegna þjóðfélagsins, heldur áfram, að ég tel, að ýta á móti framgangi þessa máls. Hann telur, að ég vilji aðeins leysa helming þess. Ég tel, að hér á Alþ. eigi ekki með lögum að leysa svona mál nema að þeim helmingi, sem hér er farið fram á að veita heimild til þess að ríkisstj. leysi. Ég hef borið fram málefni Húsavíkur, en ég tel þrátt fyrir það alls ekki rétta þá ásökun ráðh., að ég sé mikill sérréttindamaður vegna Húsavíkur. Ég hef sannað það með því að fylgja strax till. um, að Ólafsfjörður njóti sömu réttinda, og ef nú hæstv. ráðh. vildi láta verða af því að bera fram till. í samræmi við þá yfirlýsingu, sem hann gaf við fyrri hluta þessarar umr. um, að hann teldi, að heimildin ætti að vera fyrir öll sveitarfélög, þá mundi ég ekki verða á móti þeirri breyt. á málinu, því að ég tel, að sem mest jafnrétti eigi að ríkja í landinu. Og ég hef lagt áherzlu á það, að nú væri búið að gera svo mikið fyrir tíu bæi, að einmitt væri það jafnréttismál, að Húsavík og Ólafsfjörður fengju aðstoð til þess að kaupa togara eins og aðrir bæir. Ég er viss um það, að ef lögin yrðu gerð almenn og heimild veitt öllum sveitarfélögum, þá mundi hæstv. dómsmrh., sem rekur ættir sínar til Húsavíkur, vera með Húsavík og telja rétt, að Húsavík yrði í fremstu röð til að fá togara, jafnvel þótt hann minntist ekkert uppruna síns, bara ef hann beitti sínum venjulega liðleika og sanngirni.