18.11.1952
Efri deild: 28. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í C-deild Alþingistíðinda. (3486)

69. mál, kaup á togurum og togveiðibát

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hv. þm. S-Þ. (KK) fór svo fögrum orðum um mig, sem ég veit, að hann mælir af heilum hug eins og allt annað, er af hans munni gengur, að ég held, að það fari bezt á því, að ég felli deilur við hann niður um málið, ekki sízt þar sem hann vitnaði svo fagurlega til minnar ættar og uppruna, enda er loks svo komið fyrir mína þrákelkni hér í þessum umr., þá, að bera fram það, sem rétt er, að ég held, að okkur greini ekki mjög mikið á milli. Ef hv. þm. stendur við það, að hann vilji fallast á að breyta þessu frv. í almenna heimild, þar sem öllum verði gert jafnt undir höfði, þá skal ég styðja málið. Ég lýsti því yfir í minni fyrstu ræðu, og ég endurtek það. Því miður held ég, að hv. þm. hafi verið nokkuð lengi að komast á þennan leiðarenda, en úr því að hann er þangað kominn, þá býð ég hann velkominn í samfélag við mig. — Ég vildi fara þess á leit, að umr. verði nú frestað.