25.11.1952
Efri deild: 31. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í C-deild Alþingistíðinda. (3492)

69. mál, kaup á togurum og togveiðibát

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég var nú bundinn við önnur störf og gat þess vegna ekki verið hér á fyrri hluta þessa fundar, það skiptir nú ekki miklu máli. Mér er að vísu sagt, að minn ágæti vinur, hv. þm. S-Þ., hafi haldið hér ágæta og vel undirbúna skrifaða ræðu með miklum snillibrag, eins og hans var von og vísa. Vonast ég til þess, að mér endist aldur til þess að lesa hana einhvern tíma í elli minni, en geri nú ráð fyrir því, að ég hirði ekki um það fyrr en ég hef ekki öðrum störfum að sinna, og skal þess vegna leiða hest minn hjá því afreksverki að þessu sinni.

Till., sem ég flyt hér, er rækilega rökstudd af mér fyrr í þessum umr. Segja má, að í henni sé samandreginn kjarni þess. sem ég hef haldið fram. Ég hef síður en svo á móti því, að Húsavík — allra sízt Húsavík — og ekki heldur Ólafsfjörður, fái togara með tilstyrk ríkisvaldsins, ef með því er ekki hallað á aðra. Ef Húsvíkingar vilja t. d. kaupa togara frá öðru landi, þá er heimildin til þess alveg óskert fyrir mína till. Sú eina takmörkun, sem í henni felst á tilstyrk ríkisins, er sú, að gefa á aðilum, sem ríkisstj. metur til þess hæfa að gera út skip, kost á því að kaupa skip, sem taka á frá þeim stað, sem það hefur verið á, ef þeir aðilar vilja gera skipið áfram út þaðan. Þetta er alþekkt ákvæði í l., að aðilum er veittur forkaupsréttur, — þekkjast t. d. forréttindi innansveitarmanna til kaupa á jarðeignum umfram utansveitarmenn og er gamalt og gott fyrirmæli, sem mjög er eðlilegt að eigi einnig við hér. Og það má öllum vera ljóst, að það er mjög óeðlilegt að taka togara burt frá þeim stað, sem fyrst og fremst hefur byggt upp afkomu sína á togaraútgerð, — taka hann burt með tilstyrk þess opinbera og ætla að fara með hann þangað, sem togari hefur aldrei verið gerður út, þó að til séu aðilar á fyrri staðnum, sem vilji tryggja útgerð skipsins. Og það tjáir ekki að segja, að með því sé verið að fá bröskurum skipið í hendur, vegna þess að þetta er komið undir mati ríkisstj., og ég veit, að hv. þm. S-Þ. tekur okkur í núverandi stjórn, ekki sízt mig og hv. 1. þm. S-M. saman, sem næga ábyrgð fyrir því, að þetta skip yrði ekki látið í óvandaðra hendur, enda vitum við það, að það eru nógir fjársterkir aðilar hér í Rvík, sem sækjast eftir eignum, svo sem t. d. S. Í. S., svo að við nefnum aðeins eitt dæmi, sem mjög hefur sótzt eftir því að ná undir sig margs konar eignum hér í bænum, og er því mjög óeðlilegt, ef það er sérstaklega hugstætt hv. þm. S-Þ. að halda, að skipin hljóti endilega að lenda í höndum braskara, þó að sá háttur sé á hafður, sem ég legg hér til. En aðalatriðið er, að um leið og menn vilja veita Húsvíkingum og Ólafsfirðingum réttmætan styrk, þá sé það tryggt, að ekki séu að ófyrirsynju tekin burt atvinnutækin þaðan, sem þau hafa verið, ef hæfir aðilar fást til að gera þau út þaðan framvegis. Það er þetta, sem í minni till. felst, og vonast ég til, að þingheimur geti á það fallizt.

Um leið og ég lýsi ánægju minni yfir, að mér gafst tækifæri á að bera fram þessa brtt., vil ég lýsa vonbrigðum mínum yfir því, að hv. n. skuli ekki hafa notað þann tíma, sem gefizt hefur, til þess að spyrja atvinnumálanefndina að því, sem nauðsynlegt var að fá vitneskju um til viðbótar hennar fyrri umsögn, hvaðan hún ætlaðist til, að skipið væri fengið, sem ætti að fá Húsvíkingum í hendur.