25.11.1952
Efri deild: 31. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í C-deild Alþingistíðinda. (3493)

69. mál, kaup á togurum og togveiðibát

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Eins og þessi till. hæstv. dómsmrh. á þskj. 263 er orðuð, þá á ég ákaflega erfitt með að fylgja henni, enda þótt aðalatriði hennar séu með þeim hætti, að ég mundi vilja fylgja þeim. Mér virðist það vera rétt, sem hv. þm. S-Þ. sagði í sinni ræðu, að samkv. þessari brtt. sé hvaða braskari sem vera skal gerður jafnrétthár bæjarfélagi eða hlutafélagi, sem bæjarfélag er þátttakandi í og mundi þá hafa þar væntanlega yfirráð. Hins vegar finnst mér sjálfsagt, að sams konar aðili á stað, sem skip væri skráð á, fengi sama rétt og í þessu tilfelli Húsavík og Ólafsfjörður. Ég vil þess vegna leyfa mér að bera fram brtt. við þessa till. hér á þskj. 263, þannig, að í stað orðanna „einhver aðili, sem hún metur til þess hæfan,“ komi: hlutaðeigandi bæjar- eða hreppsfélag eða hlutafélag, sem bærinn eða hreppurinn er þátttakandi í — þannig að till. orðist þá þannig: „Ef ábyrgð samkv. 1. málsgr. á að veita til kaupa á skipi, sem skrásett er á öðrum stað innlendum, og það hefur verið gert út þaðan, þá skal ríkisstj. leita eftir því, hvort hlutaðeigandi bæjar eða hreppsfélag eða hlutafélag, sem bærinn eða hreppurinn er þátttakandi í, er fúst til þess að gera skipið þaðan út, og gefa honum þá kost á sams konar ábyrgð til kaupanna.“

Ég vil svo leyfa mér að leggja þessa till. fram.