29.11.1952
Efri deild: 32. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í C-deild Alþingistíðinda. (3507)

69. mál, kaup á togurum og togveiðibát

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það voru í rauninni tvær athugasemdir, sem komu fram við þessa till. frá hv. þm. S-Þ. Önnur var sú, að till. væri smíðuð úr austrænum viði. Við því er því til að svara, að við höfum lengi fengið rekadrumba á fjörur Íslands, og menn hafa talið, að margir þeirra kæmu alla leið frá Síberíu, og engum hefur til hugar komið, að það ætti að kasta viðnum í sjóinn aftur, jafnvel þótt upprunninn væri þaðan, heldur talið sjálfsagt að hagnýta viðinn, eftir því sem þörf væri fyrir hann.

Annars lýsti ég því strax yfir þegar till. hv. 1. landsk. kom fram, að þó að ég teldi hana lakari en mína, þá mundi ég verða með henni að minni till. felldri. Og í raun réttri hefði verið rökvísast, að hún hefði verið flutt sem varatill. við mína till., en ekki sem brtt., og þá er ég viss um, að hún hefði verið samþ., en ekki felld. Og það er í öruggri vissu um það, sem ég ber till. fram nú í þessari mynd. Annars er á henni nokkur munur frá því, sem hv. 1. landsk. flutti hana. Hann vildi takmarka þetta við hlutafélög, en í minni till. er þessi heimild veitt öllum félögum, sem sveitarfélög eru þátttakendur í. Kemur þar fram sá efnismunur, sem gerir það að verkum, að enginn vafi er á því, að það er fjarstæða að tala um, að þessari till. ætti að vísa frá. Þetta er till. um annað.

Að öðru leyti vil ég segja það, að hv. þm. S-Þ. staðfesti enn þann mun, sem er á milli minnar skoðunar og hans í þessu máli, að ég vil láta þetta vera almenna heimild, þannig að allir njóti jafnréttis, en hann vill gera upp á milli borgaranna. Það er það sjónarmið, sem ég get ekki fallizt á.