04.02.1953
Neðri deild: 66. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í C-deild Alþingistíðinda. (3519)

69. mál, kaup á togurum og togveiðibát

Frsm. 4. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Það er rétt, að mál þetta hefur verið alllengi til athugunar hjá fjhn. d., og stafar það einkum af því vitanlega, að það hefur ekki tekizt að ná samkomulagi í n. um afgreiðslu málsins. Nú hafa komið nál., 4 að tölu, frá nm. Einn stend ég að minnihlutaáliti á þskj. 727, sem er frá 4. minni hl. n. Það mun vera gömul og góð regla, að formaður verði síðastur af áhöfninni til að yfirgefa skip, þegar hættur ber að höndum, og þannig hefur verið hér.

Frv. þetta var borið fram í hv. Ed., og þar voru gerðar verulegar breytingar á því, áður en það kom hingað til Nd.

Samkv. 1. mgr. 1. gr. er ríkisstj. veitt heimild til að ábyrgjast fyrir Húsavík og Ólafsfjörð lán til kaupa á einum eða tveimur togurum, en í 2. mgr. sömu frvgr. er svo fyrir mælt, að ef ríkisstj. ætlar að veita ábyrgð samkv. 1. mgr. fyrir láni til kaupa á skipi, sem skrásett er á öðrum útgerðarstað hér á landi, þá skuli stjórnin leita eftir því, hvort sveitarfélag eða félag, sem það er þátttakandi í, vill gera skipið út frá þeim sama stað, þar sem það hefur áður verið, og ef svo reynist, er ríkisstj. skylt að gefa því kost á sams konar ábyrgð vegna kaupanna.

Samkv. þessu á sveitarfélag eða félag, sem það er þátttakandi í á útgerðarstað, þar sem togari er nú skrásettur, að hafa forgangsrétt til ríkisábyrgðar fyrir togarakaupaláni.

Það er fyllsta ástæða til að gera sér það vel ljóst, hvernig þetta yrði í framkvæmd, ef frv. verður samþ. óbreytt. Við skulum gera ráð fyrir t. d., að Húsavíkurkaupstaður ætti kost á að fá keyptan togara, sem nú er gerður út frá öðrum stað hér á landi, og leitaði eftir ríkisábyrgð fyrir láni til kaupanna. Ef ríkisstj. vildi nota heimild l. til að veita Húsvíkingum slíka aðstoð, þá væri stjórninni skylt samkv. l. að auglýsa eftir því, hvort sveitarfélag á þeim stað, þar sem togarinn hefur áður verið, eða félag, sem það er þátttakandi í, vildi gera skipið út þaðan, og ef svo reyndist, þá væri ríkisstj. ekki aðeins heimilt, heldur skylt að veita þeim aðila sams konar ábyrgð til togarakaupanna. Ekkert er ákveðið um það í frvgr., að hve miklu leyti sveitarfélag þyrfti að vera þátttakandi í félagi, sem krefðist ríkisábyrgðar. Eftir orðanna hljóðan væri skylt að veita útgerðarfélagi ábyrgðina, þó að bæjarfélagið ætti ekki nema örlítinn hlut í félaginu.

Af þessu er það fullkomlega ljóst, virðist mér, að vegna fyrirmælanna í 2. mgr. 1. gr. er ekki mögulegt fyrir ríkisstj. að nota heimild 1. mgr. 1. gr. til að ábyrgjast lán fyrir Húsavík eða Ólafsfjörð, ef ákvæði 2. mgr. eru látin haldast óbreytt. Ef ríkisstj. vildi veita þessum kaupstöðum norðanlands ábyrgð, þá mætti hún búast við því, að í stað þess að koma fram þeim stuðningi við þá staði, þá yrði hún að veita einhverju félagi á öðrum útgerðarstað ábyrgð fyrir láni, og fyrir fram gæti ríkisstj. ekki vitað, hvaða aðili yrði ábyrgðarinnar aðnjótandi.

Ég tel, að það megi segja, að í þessu ákvæði felist raunverulega bann við því, að togarar, sem nú eru gerðir út frá öðrum útgerðarstöðum hér á landi, verði seldir til Húsavíkur eða Ólafsfjarðar með aðstoð þess opinbera.

Ef samþykkt frv. á að geta komið að nokkru gagni fyrir þá staði, sem nú vantar togara, þá verður að fella úr því 2. mgr. 1. gr. Verði það ekki gert, þá er þýðingarlaust að mínu áliti að samþ. frv.

Ég viðurkenni, að þörf sé að stuðla að því, að þeir kaupstaðir, sem nefndir eru í frv., geti fengið atvinnutæki, svo að það fólk, sem nú er á þeim stöðum, þurfi ekki að flytjast þaðan burt. Þess vegna tel ég, að frv. þurfi að breytast þannig, að von sé um, að ákvæði þess geti komið að gagni við öflun atvinnutækja fyrir þá staði.

Það hafa komið hér fram brtt. frá 3. minni hl. fjhn. um að taka inn í frv. ábyrgð fyrir útgerðarfyrirtæki á fleiri stöðum. Um það sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða eða segja annað en það, að mér virðist, að eftir því sem fleira er tekið inn í frv., eftir því verði minni líkur til, að það geti orðið að gagni fyrir þá staði, sem upphaflega var ætlað að styðja með flutningi þess. En eins og ég hef áður sagt, þá legg ég aðaláherzluna á það, að 2. mgr. 1. gr. verði úr frv. felld, og flyt um það brtt. á þskj. 727.