27.10.1952
Efri deild: 15. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í C-deild Alþingistíðinda. (3546)

93. mál, skipulag kauptúna og sjávarþorpa

Sigurður Ó. Ólafsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 115, fer fram á það, að lögbundið verði, að merkja skuli eða nefna allar götur með nöfnum og númera hús.

Nú mun það vera svo, að í öllum kaupstöðum og flestum stærri kauptúnum landsins mun þetta hafa verið framkvæmt. Eftir því sem hv. flm., 4. landsk. þm., tók fram, þá munu vera nokkur brögð að því, t. d. hér í Reykjavik, að þetta sé ekki nógu vel framkvæmt, og ræddi hann mest um það á þeim grundvelli, þar sem hann var atvinnu sinnar vegna kunnugastur, að þetta væri ekki eins og skyldi. Ég skal nú ekki bera á móti því, að það sé nauðsynlegt að setja löggjöf um þetta efni, en ég álít, að ekki sé heppilegt að lögbinda þetta alveg skilyrðislaust, eins og gengið er út frá í frv. Nokkur atriði eru einnig í frv., sem ég hefði viljað gera aths. við — skal nú ekki gera það mikið á þessu stigi málsins, en vil þó benda á eitt, sem ég geri ráð fyrir að yrði nokkuð erfitt í framkvæmd. Það er ákvæðið um að lýsa upp húsnúmer allan þann tíma, sem skylt er að láta loga ljós á bifreiðum. Ég geri ráð fyrir því, að þó að svona ákvæði sé sett inn í l., þá yrði framkvæmdin svo erfið, að ákvæðið hafi ekkert að þýða, geti gengið á einstaka stöðum, en sem algildri reglu hygg ég að ekki verði gott að framfylgja því. Og þetta hlýtur að verða einnig nokkur kostnaður fyrir húseigendur, því að þeir eiga sjálfir að kosta þessa lýsingu, eftir því sem mér skilst.

Ég vil benda þeirri hv. n., sem fær þetta frv. til meðferðar, á að athuga t. d. við skipulagsstjóra ríkisins, hvað hann segir um þetta. Grg. ber ekki með sér, hvort það hafi verið gert eða hvort hv. flm. hafi gert það. En þetta er það stórt mál, þar sem þetta er heill kafli, sem bætist við l. um skipulag kauptúna og sjávarþorpa, að ég álít, að það væri rétt að fá hans umsögn um það.

En það er eitt, eins og ég drap á áðan, sem mér þykir athugavert í þessu sambandi, og það er að lögbjóða þetta skilyrðislaust. Maður veit um það, áð það eru mörg þorp úti um land, sem eru þannig byggð, að þau eiga mjög erfitt með þetta. Götur eru óreglulegar og húsaskipan einnig. Þetta lagast ekki fyrr en þessar byggingar, sem fyrir eru, verða ónýtar og í staðinn byggist upp eftir nýju skipulagi, en þá, um leið og sú þróun á sér stað, er náttúrlega sjálfsagt að taka svona lagað upp. En samkv. frv. er aðeins gefinn frestur til næsta árs um það, að þá skuli þetta alls staðar vera komið í kring. Ég hefði getað hugsað mér, að þarna hefði komið viðbót, t. d. ný gr., sem hefði haft það inni að halda, að undanþágu mætti gefa frá þessum lagaákvæðum á þeim stöðum, þar sem mjög er erfitt að framfylgja þeim og skipulagsstjóri ríkisins t. d. mælti með undanþágunni. Ef slíkt ákvæði kæmi inn í l., þá álít ég, að það væri mikil bót. Ég vildi sem sagt taka þetta fram núna við 1. umr., áður en málið fer til n., til þess að biðja hv. n. um að taka þessi atriði til meðferðar.