21.11.1952
Neðri deild: 30. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

10. mál, áburðarverksmiðja

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það voru aðeins fáein orð út af þessari skriflegu brtt. frá hv. 8. landsk. þm. — Þetta frv. er flutt til staðfestingar á brbl., sem sett voru á þessu ári. Það samdist svo, að það fengist 1 millj. dollara Marshalllán til áburðarverksmiðjunnar, og voru þá brbl. gefin út, til þess að hægt væri að ganga frá láninu. Það, sem þarf, er að fá þetta frv. samþ. hér á Alþingi óbreytt og afhenda það síðan lántakendum, til þess að það geti legið með lánssamningnum og það sé þar með sýnt, að endanlega og réttilega hafi verið gengið frá málinu. Það er því ekki viðeigandi að vera að hnýta aftan í þetta frv. neinu öðru efni en því, sem það fjallar nú um, og mundi það áreiðanlega koma lánveitendum heldur kynduglega fyrir sjónir, ef þetta frv. kæmi nú með þeim viðauka t.d., að Alþingi ákvæði, að endurskoða skyldi l. um áburðarverksmiðjuna.

Ég vil benda hv. 8. landsk. á þinglega aðferð til þess að fá fram afstöðu um það, hvort menn vilja láta endurskoða áburðarverksmiðjulögin, og hún er sú að flytja þáltill. um efni þessarar brtt. Vil ég nú beina því til hans, hvort hann geti ekki á það fallizt að taka brtt. til baka og flytja efni hennar í þáltill. (Gripið fram í.) Nei, það geri ég nú ekki, enda skiptir það engu máli í þessu sambandi. Aðalatriðið fyrir hv. þm. er að geta komið að á þinglegan hátt til reynslu, hvort hann hefur meiri hluta fyrir því að láta endurskoða áburðarverksmiðjulögin. Ég geri ekki ráð fyrir, að það vaki fyrir hv. þm. að fleyga þetta frv., þannig að það spilli fyrir, og þá er opin leið að flytja þáltill. um það efni, sem í brtt. er. Ég beini þessu til hans.