31.10.1952
Efri deild: 19. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í C-deild Alþingistíðinda. (3555)

106. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þetta frv. er samið af n., sem ég skipaði til þess að endurskoða gildandi lagaákvæði um aukatekjur ríkissjóðs. Í n. áttu sæti Jón Steingrímsson sýslumaður, formaður n., Júlíus Havsteen bæjarfógeti og Þorlákur Jónsson stjórnarráðsfulltrúi. Ástæðan til nefndarskipunarinnar var sú, að gagnger endurskoðun hefur ekki farið fram á aukatekjul. síðan 1921, að þau voru sett. Hafði rn. borizt áskorun frá Félagi héraðsdómara um að láta endurskoða l., auk þess sem það var álit endurskoðunardeildar fjmrn., að full þörf væri á slíkri endurskoðun. Aukatekjur ýmsar hafa verið innheimtar með viðaukum undanfarin ár, og auk þess hafa ný ákvæði um aukatekjur, sem ekki hafa verið innheimtar með álagi, verið að finna í dreifðum lagafyrirmælum. Þótti nauðsynlegt að sameina gjöld þessi í ein lög til þess að auðvelda innheimtuna og alla meðferð málsins. Þetta frv. er ekki fremur en það frv., sem kemur hér til meðferðar næst á eftir, flutt í tekjuöflunarskyni, heldur til þess að reyna að koma betri skipan á þessi mál.

Eins og ég sagði áðan, hafa ekki verið gerðar aðrar breytingar á aukatekjul. á undanförnum árum en þær, að viðaukar hafa verið settir á sum gjöldin og þessir viðaukar mjög mismunandi háir. Þessar hækkanir hafa orðið þess valdandi, að föst gjöld samkv. l. hafa hækkað óeðlilega lítið, ef miðað er við verðlagsbreytingar, þ. e. a. s., þau hafa raunverulega lækkað mjög mikið, en prósentugjöld, sem greiðast af gjaldstofni og hækkað hafa með vaxandi dýrtíð, hafa hins vegar hækkað óeðlilega mikið. Er mér tjáð. að nú sé t. d. þannig komið, að bú sé helzt ekki afhent til opinberra skipta, nema óumflýjanlegt sé, og eignir ekki seldar á opinberu uppboði, ef nokkurs annars er kostur. Þá eru ýmis gjöld tekin í aukatekjufrv., sem eru ákveðin nú í öðrum l., svo sem gjöld fyrir skipstjóraskírteini, mælingabréf o. fl., en eru þó alveg hliðstæð aukatekjugjöldunum. Einnig má þar nefna gjöld fyrir vélstjóraskírteini, skrásetningu vörumerkis o. fl.

Helztu nýmælin og breytingarnar, sem frv. gerir ráð fyrir, eru þau að taka þessar nýju tegundir gjalda inn í aukatekjul., sem ég hef áður greint frá, og þá enn fremur, að dómsmálagjöld eru nú ákveðin 100 kr. fyrir fyrirtekt máls, og eru sameinuð þar í eitt gjald þrjú gjöld, sem áður voru gjöld fyrir þingfestingu, fresti og dómtöku máls. Upp í þennan kafla eru tekin dómsmálagjöld í hæstarétti, sem áður voru ákveðin í l. nr. 112 1935. Gjöld samkv. þessum kafla aukatekjul. eru yfirleitt tvöfölduð eða þrefölduð frá því, sem nú er, nema dómsmálagjald í hæstarétti, sem er hækkað nokkru meira. Gjöld fyrir fógetagerðir samkv. II. kafla eru yfirleitt tvöfölduð. Skiptagjald samkv. III. kafla er lækkað úr 4,8% í 3%. Uppboðsgjald af lausafé samkvæmt IV. kafla er lækkað úr 8,5% í 6%. Uppboðsgjöld af fasteignum eru einnig lækkuð, en gjaldaflokkunum einnig nokkuð breytt. Notarialgjöld samkv. V. kafla l. eru yfirleitt tvöfölduð. Ákvæðum VI. kafla l. um þinglýsingar hefur verið breytt á þann hátt, að gjald fyrir aflýsingar hefur verið fellt niður, og telst það þá framvegis innifalið í þinglýsingargjaldinu. Þá hefur verið felld niður heimild banka og lánsstofnana til þess að fá ókeypis veðbókarvottorð. Gjöld fyrir leyfisbréf og skírteini samkv. VII. kafla og fyrir skrásetningar samkv. VIII. kafla hafa yfirleitt ekki verið ákveðin í aukatekjul., heldur í ýmsum sérlögum og reglugerðum, enda þótt þau hafi verið færð í aukatekjubækur hjá sýslumannsembættunum. En nokkur gjaldanna voru áður stimpilgjöld, en önnur voru áður talin með stimpilgjöldum, þau sem nú eru talin í þessu frv., en önnur hafa verið talln í öðrum l. Afgreiðslugjöld skipa samkv. IX. kafla eru nokkuð hækkuð. Áritunargjöld eru og hækkuð. Heildarblærinn á þessu er sá, eins og ég sagði, að hér hefur ekki verið hugsað til þess að auka tekjur ríkissjóðs, heldur að samræma þessi gjöld, og eru sum þeirra lækkuð og önnur hækkuð, eftir því sem mþn. fannst vera sanngjarnt og rétt miðað við núverandi ástand.