31.10.1952
Efri deild: 19. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í C-deild Alþingistíðinda. (3562)

107. mál, stimpilgjald

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þetta frv. er samið af sömu n. og frv. til aukatekjul., sem var hér til umr. næst á undan. Á stimpilgjaldal. frá 1921 hefur ekki farið fram gagnger endurskoðun, fyrr en nú. Nokkrar breyt. hefur Alþingi samþ. síðan þau voru sett, og eru þær helztar, að árið 1933 var ákveðið, að eigi skyldi greiða stimpilgjald af eignayfirfærslu fasteigna, þegar þær eru lagðar erfingja út sem arfur eða maka upp í búsamning hans. Og árið 1945 var það ákvæði sett, að þegar afsal tilgreinir ekki söluverð. þá skuli verð fasteignar ekki áætlað lægra en fimmfalt fasteignamat hennar. Þá hefur Alþingi á undanförnum árum heimilað að innheimta stimpilgjöldin með viðauka, og nam sá viðauki 100% árið 1950, en 140% árin 1951 og 1952. Þar sem gjöld samkv. stimpilgjaldal. hafa verið bæði föst gjöld og prósentugjöld, hafa hækkanir þær, sem heimilaðar voru, leitt til verulegs ósamræmis. Föstu gjöldin hafa hækkað um 140% aðeins, og er það miklu minni hækkun en verðlagsbreytingar þær, sem orðið hafa í landinu síðan 1921, gefa tilefni til. Hins vegar hafa gjaldstofnar þeir, sem prósentugjöldin eru greidd af, hækkað með vaxandi dýrtíð, og hefur þá hækkun prósentutalnanna orðið þess valdandi, að gjöld þessi eru orðin mjög há og í algeru ósamræmi við hin gjöldin, sem ákveðin hafa verið með fastri krónutölu.

Helztu breyt., sem frv. ráðgerir, eru þessar: Frestur til stimplunar verði lengdur úr tveimur mánuðum í sex. Heimild til að fela einstökum mönnum stimplun skjala verði felld niður og heimild bankanna til þess að stimpla nokkuð þrengd. Stimpilgjöld af afsölum verði lækkuð úr 2,4% í 2%, af veðskuldabréfum lækkuð úr 7,20/00 í 60/00 og af víxlum úr 2,40/00 í 20/00. Tilkynningar til hlutafélagaskrár skuli stimpla í staðinn fyrir hlutabréfin, því að vanhöld hafa viljað vera á því, að hlutabréfin komi inn til stimplunar. Skyldutryggingarskírteini bifreiða stimplist með 25 krónum. 41. gr. stimpillaganna frá 1921 verði felld niður. Stimpilgjöld þessi voru í flestum tilfellum greidd samhliða aukatekjugjöldum. Eru þau í frv., sem hér var til meðferðar áðan, um aukatekjur ríkissjóðs, sameinuð aukatekjugjöldunum eða tekin upp sem ný aukatekjugjöld, ef þau hafa ekki áður verið greidd samhliða þeim gjöldum. Er því hér í raun og veru að ræða um tilfærslu á milli lagaflokka, þar sem þessi gjöld þykja eiga betur heima í aukatekjul. — Ef skjal er ekki stimplað innan lögákveðins tíma, varði það sektum, er nemi jafnhárri upphæð hinu löglega stimpilgjaldi, en áður varðaði það sekt, sem nam fimmfaldri upphæðinni. En það ákvæði hefur yfirleitt ekki verið framkvæmt þannig. Þykir því sönnu nær, að það verði framkvæmt raunverulega, ef því er breytt á þessa lund. Enn fremur eru ákvæðin um stimpilfrelsi banka og lánsstofnana felld niður. Þá er sett bráðabirgðaákvæði hér um stimplun afsala, sem eigi tilgreina söluverð eða tilgreina það grunsamlega lágt, og skal það gilda meðan fasteignamat frá 1942 er í gildi. Samkv. þessu bráðabirgðaákvæði skal ákveða stimpilskylda fjárhæð eigi lægri en tífalt fasteignamat, ef ekki er tilgreint neitt söluverð, en ef söluverð er tilgreint grunsamlega lágt í afsali, þá skal sá, sem annast stimplunina, meta stimpilskylda fjárhæð þess og hafa hliðsjón af fasteignamati hinnar seldu eignar, brunabótamati og söluverði sambærilegra eigna. En því mati má áfrýja til fjmrn. eða leggja það undir úrskurð dómstóla. Þetta eru helztu breyt., sem frv. gerir ráð fyrir.

Ég vil leyfa mér að óska eftir því, að þessu máli verði vísað til hv. fjhn., því eins og ég tók fram áðan í sambandi við hitt málið, þá finnst mér rétt að gera það að reglu á hv. Alþingi að vísa þeim málum, sem flutt eru af n. eftir tilmælum annarra, t. d. ráðherra, ætíð til n. aftur, ef þau eru með þeim formála, að n. hafi ekki tekið efnislega afstöðu til málsins með flutningnum. Þess vegna legg ég til, að þessu verði vísað til n.