03.11.1952
Efri deild: 20. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í C-deild Alþingistíðinda. (3567)

113. mál, uppbót á sparifé

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hef nú hlustað á framsögu hjá hæstv. menntmrh. og hjá hv. frsm. í sambandi við þetta mál. Ég sé nú á ræðu hæstv. ráðh., að hann hefur ekki, sem ekki er von, haft tækifæri til þess að setja sig inn í meginatriði þessa máls, því að annars hefði hann rætt þau nánar, og mun ég nokkuð koma að þeim hér í minni ræðu.

Eins og tekið er fram í grg., sem fylgir frv. þessu, sem hér er til umr., skipaði samgmrh. nefnd árið 1949 til þess að athuga og gera tillögur um nauðsynlegar breytingar varðandi réttindi vélstjóra samkv. l. nr. 66 1946 svo og till. um fyrirkomulag á kennslu fyrir þá, sem ætla að gerast vélstjórar. Er nefndarskiþun þessi tvímælalaust fram komin vegna frv., sem fram kom hér á Alþ. árið 1949 um mjög aukin réttindi mótorvélstjóra án þess jafnframt að auka kröfur þeirra til náms. Urðu um frv. þetta mjög harðar deilur hér, enda var því sterklega mótmælt af vélstjórastéttinni. Náði frv., sem betur fór, aldrei fram að ganga. Nefnd sú, sem ég hef þegar minnzt á, er skipuð þannig, eins og hæstv. ráðh. tók fram, að samtök vélstjóra eiga þar einn fulltrúa, samtök mótorvélstjóra annan, vélstjóraskólinn þann þriðja, mótorfræðslan þann fjórða og ráðuneytið þann fimmta, og var hann formaður n. Það vekur strax nokkra furðu, að samtök útgerðarmanna eiga engan fulltrúa í n., og þó er vitað, að engir aðrir aðilar eiga meira undir því en einmitt þeir, hversu tekst um starf n. Milljónir verðmæta, sem þessi stétt manna ræður yfir, eru látnar í hendur þeirra manna, sem eiga að búa sig undir að gæta þeirra eftir þeim reglum og fyrirmælum, sem n. leggur til að lögfest verði, og segja má, að mikið velti á því um afkomu þessa atvinnuvegar, að hér sé vel og viturlega séð fyrir þörfum hans og öryggi. Og þegar vitað var um þá löngu og hörðu deilu, sem stóð hér á Alþ. um þessi mál 1949, er það gersamlega óverjandi að útiloka útgerðaraðilann frá þátttöku í framtíðarskipun þessara mála. Það vekur ekki minni furðu, að n., sem skipuð er til þess að koma á samkomulagi um mjög viðkvæmt deilumál, sem snertir fjölda manna í landinu, skuli ekki hafa megnað að komast nokkuð nær því að leysa vandann eftir nærri þriggja ára þrotlaust starf og að formaður n. skuli velja þann kostinn að kljúfa n. og láta meiri hl. skila till., sem á engan hátt leysa vandann og á engan hátt eru í samræmi við verkefnið, sem n. var falið. Allra mestu furðu kann það þó að vekja, að hæstv. menntmrh. skuli beita sér fyrir því að fá þessar till. lögfestar hér á Alþ. gegn sterkum mótmælum frá minni hl. n. og það eftir að hafa beinlínis fallizt á það að láta þetta mál ekki koma til afgreiðslu á Alþ., fyrr en það hefði fengið betri undirbúning. Þykir mér í þessu sambandi rétt að lesa hér upp kafla úr grg., er minni hl. hefur látið fylgja athugasemdunum, sem hann hefur gert við þetta frv., en þó eru ekki birtar með því, eins og þó hefði verið eðlilegast, svo að Alþ. hefði ekki verið alveg ókunnugt um afstöðu hans til málsins og þau rök, sem hann færir fyrir henni. En í þessari grg. segir svo:

„Árið 1949 skipaði samgmrn. nefnd til þess að athuga og gera nauðsynlegar till. varðandi réttindi til vélgæzlu. Í n. voru skipaðir Páll Pálmason, M. E. Jessen, Þorsteinn Loftsson, Þorsteinn Árnason og Lúther Grímsson. Meiri hl. n. kom sér saman um það frv., sem hér liggur fyrir, gegn eindregnum mótmælum þeirra einu manna í n., sem nokkuð til hlítar þekkja til vélgæzlu hér á landi og varða þessi mál mest, og gegn einróma áliti kennara við vélskólann í Reykjavík og við meira próf Fiskifélags Íslands. Að lokum látum vér undrun vora í ljós yfir því, að frv. þetta skuli vera fram komið, þar sem minni hl. n., þeir Lúther Grímsson og Þorsteinn Árnason, ásamt Gunnari Bjarnasyni, kennara við vélskólann í Reykjavík, gengu á fund menntmrh., herra Björns Ólafssonar, og gerðu fulla grein fyrir minnihlutaafstöðu sinni. Lýsti ráðh. þá yfir því, að umrætt frv. mundi ekki koma fram án þeirra vitundar, en slík hefur þó raun á orðið.“

Af því, sem ég þegar hef tekið fram, er sýnilegt, að meiri hl. n. hefur fullkomlega misskilið hlutverk sitt. Í stað þess að snúa sér að því höfuðverkefni, sem n. var ætlað, þ. e. að endurskoða l. um atvinnu við siglingar og gera till. um breytingar á þeim, leggur meiri hl. n. fram frv. til l. um fræðsluskipulag og bætir þar svo inn í, alveg af handahófi, að menn skuli njóta réttinda til gæzlu við ákveðna stærð véla eftir að hafa lokið námi því, sem þar um ræðir. Ekkert er hugsað um að samræma þetta við önnur ákvæði um réttindi þessara aðila, sem þó eru gildandi í öðrum l. og beinlínis rekast óþyrmilega á hin nýju ákvæði og að sjálfsögðu ætti því að fella niður, ef frv. það, sem hér um ræðir, verður samþ. óbreytt. Verði hins vegar þessi nýju ákvæði felld úr frv., er svo að segja ekkert annað eftir af því en það, sem fyrir er í eldri l. um fræðsluna sjálfa. En mörg af þeim atriðum eru þannig, að þau eru orðin úrelt og þurfa að breytast með breyttum fræðsluháttum á öðrum sviðum. Meiri hl. n. lætur sér ekki koma til hugar að hrófla við þeim þætti málsins.

Ég kemst ekki hjá því að lýsa undrun minni yfir því, að formaður n. skyldi ekki finna meira til þeirrar ábyrgðar, sem á honum hvíldi um lausn þessa vandamáls, en svo að kljúfa n. og leggja síðan til, að lögfest yrði ákvæði, sem honum var kunnugt um að ekkert samkomulag gat fengizt um við þá aðila, sem áttu að búa við þetta í framtíðinni. Slík vinnubrögð eru vægast sagt ekki til fyrirmyndar og kunna engu góðu að stýra í löggjöf landsins. Væri fróðlegt í þessu sambandi að fá upplýst, hvort hann sem formaður n. hafi nokkru sinni leitað til samtaka útvegsmanna um álit þeirra á því deiluatriði, sem allt starf n. snerist um og aldrei varð útkljáð, og ef svo er, hver svör þeirra samtaka hafi verið. — Ég get í sambandi við þetta leyft mér nú að upplýsa, að ég átti tal um þetta fyrir nokkrum mínútum við formann n., og fullyrti hann við mig, að það hefði aldrei verið leitað til samtaka útgerðarmanna í sambandi við þetta deilumál, og harma ég það mjög. Þá hefði heldur ekki verið úr vegi, að skipaskoðunarstjóri ríkisins hefði eitthvað lagt til þessara mála, en ekkert kemur fram um það í grg., að leitað hafi verið álits þessara aðila eða hvaða till. þeir hafa haft í málinu, ef til þeirra hefur verið leitað. Verða þessi vinnubrögð öll ekki skýrð á annan hátt en að formaður n. hafi ekki verið sér þess meðvitandi, hversu þýðingarmikið atriði það var fyrir málið að fá um það fullt samkomulag, áður en það var sent til Alþingis. Og satt að segja var nefndarskipunin gersamlega óþörf, ef ekki mátti vænta þess árangurs. Ég kemst ekki heldur hjá því að lýsa undrun minni yfir því, að hæstv. menntmrh. felur hv. menntmn. þessarar d. að flytja þetta frv., athuga það og gera á því nauðsynlegar breyt. Ég ber að vísu fullkomið traust til þeirra hv. þm., sem sæti eiga í hv. menntmn. en mér er hins vegar ókunnugt um, að neinn þeirra hafi sérþekkingu á útvegsmálum, en mál þetta snertir fyrst og fremst og langmest sjávarútveginn og þá menn alla, sem við hann starfa, einkum þegar vitað er, að nýmælin í frv. snerta á engan hátt fræðsluna, heldur réttindi þeirra manna, sem fræðslunnar njóta, og það samkv. fyrirmælum l., sem þegar eru í gildi og engin breyt. er gerð á, þótt endurprentuð séu í öðrum lagabálki. Það er því alveg ljóst, að hv. menntmn. verður að leita sér mjög víðtækra upplýsinga og umsagnar um þetta frv., áður en hún getur skapað sér fullkomna skoðun á málinu og metið að síðustu, hvort ákvæði frv. kunni í framtiðinni að færa sjávarútveginum og þeim, sem við hann starfa, böl eða blessun.

Þegar umr. fóru hér fram á Alþingi um þessi mál árið 1949, voru af mér færð full rök fyrir þeirri hættu, sem fælist í því að auka réttindi vélstjóranna án þess að auka jafnframt kröfur til þeirra til undirbúnings starfinu. Ég benti þá á, hversu sú braut hefði verið hættuleg, sem farið hefði verið inn á áður í sambandi við þessi mál, og hversu reynslan hefði sýnt, að sá varð eini árangur af þeirri tilslökun, sem þá var gerð, að fjöldi þeirra skipa, sem lætur draga sig að landi fyrir vélarbilanir vegna ónógrar þekkingar þeirra manna, sem gæta þeirra, hefur vaxið stórlega. Hefur síðan komið í ljós, að þessi fjöldi fer enn vaxandi, svo að til stórvandræða horfir, ekki einasta í sambandi við afkomu útvegsins, heldur og í sambandi við það öryggi, sem Alþingi raunverulega vill ekki verða til þess að skerð.a, en óhjákvæmilega verður stórkostlega skert, ef frv. það, sem hér um ræðir, verður að l. óbreytt. Það ber því sannarlega að snúa við á þeirri braut, sem illu heilli var þá mörkuð, en halda ekki lengra inn á hana, eins og hér er lagt til með þessu frv.

Í fljótu bragði mætti álykta, að frv. um þetta efni, sem samið er undir forustu lögfróðs manns og af tveimur mönnum, sem um langt skeið hafa haft á hendi kennslu í þessum fræðum, annar sem skólastjóri vélskólans, hinn sem mótorfræðingur og kennari við mótornámskeið Fiskifélagsins, væri engin fjarstæða, og er það vel skiljanlegt, að bæði hv. menntmn. og hæstv. ráðh. léti nokkuð afvegaleiðast, ef aðeins væri litið á þetta eitt út af fyrir sig. En þegar vitað er jafnframt um andmæli þeirra aðila, sem við l. eiga að búa, og enn fremur, að kennarar við fyrrnefndar stofnanir telja hér stefnt í ranga átt og mæla gegn því, að frv. verði óbreytt að l., ber að brjóta málið til mergjar og athuga gaumgæfilega þær ástæður, sem kunna að liggja til þess, að ekki hefur náðst samkomulag um málið, m. a. um það, hvort sameina skuli fræðsluna undir eina stofnun í framtíðinni eða halda henni tvískiptri, eins og nú er gert og lagt er til að verði áfram samkv. ákvæðum frv.

Það er öllum kunnugt, sem eitthvað þekkja til þessara mála að mótorvélafræðsla sú, sem Fiskifélag Íslands hefur haft á hendi um langt skeið, var hafin á þeim tíma, þegar vélskólinn hafði enga möguleika vegna húsnæðis- og vélaskorts til þess að annast þá kennslu jafnframt þeirri kennslu, sem honum bar að annast samkv. l., eins og einnig er ljóst, að þessi fræðsla varð að fara fram víðar, en í Reykjavík og einkum á þeim stöðum, þar sem mótorbátaflotinn hafði aðsetur sitt. Þessi fræðsla var því bundin við smærri vélar og smærri verkefni. Þegar mótorvélarnar stækkuðu og urðu margbrotnari, var að vísu gert allmikið að því að auka fræðsluna, en þó engan veginn í neinu hlutfalli við stærð og margbreytni vélanna, og frv. það, sem hér um ræðir, gengur alveg fram hjá því meginatriði. Án þess að treysta grundvöllinn undir aukinni fræðslu er byggt ofan á, svo að stoðirnar hrynja, þegar byggingin hefur náð fullri hæð. Eftir að húsa- og vélakostur vélskólans jókst, svo sem kunnugt er, og einkum eftir að mótorvélarnar stækkuðu og urðu margbrotnari og þá alveg sérstaklega eftir að vitað er, að það eru einmitt mótorvélarnar, en ekki eimvélarnar, sem verða framtíðarvélar hér á landi í hvaða fleytu sem er, og að skammt er að bíða þess, að Íslendingar eigi svo að segja enga eimvél í skipi, var ekkert sjálfsagðara og eðlilegra en að færa alla mótorvélafræðsluna í vélskólann, því að hvaða verkefnum ætti sá skóll að sinna í framtíðinni, ef ekki þeim að undirbúa vélstjóra til gæzlu mótorvéla, bæði í fiskiskipum, flutningaskipum, farþegaskipum og verksmiðjum, þegar vitað er, að verið er að útrýma innan mjög fárra ára eimvélunum og búið er að útrýma þeim að langmestu leyti úr verzlunarflotanum? Annaðhvort er þá að leggja vélskólann alveg niður eða breyta honum í mótorskóla og hafa þá tvo mótorvélskóla í sömu borginni. Sjá allir, sem mál þetta vilja athuga hlutlaust, hversu mikil fjarstæða það væri. Um þetta atriði segir minni hl. n. það, sem hér skal greina:

„Engin rök liggja fyrir því, að kennslan þurfi að vera tvískipt, þar sem vélskólinn í Reykjavík hefur nú yfir að ráða húsnæði og tækjum, sem uppfylla þau skilyrði, sem gerð eru til kennslu í vélfræði hér á landi; og er því hispurslaust mótmælt, að nú þegar þurfi að leggja fram 2 millj. kr., til þess að vélskólinn geti annazt þessa þjónustu.“

Þetta er m. a. sagt af manni, sem ég hygg að hafi setið í byggingarnefnd sjómannaskólans. Eins og þegar er sagt, á kennsla í vélfræði aðeins að fara fram í vélskólanum í Reykjavík, en engin þörf á, að henni sé skipt milli tveggja stofnana, því að skipting kennslunnar hlýtur að draga úr hagnýtum áhrifum hennar og kennslukraftar nýtast betur í einni stofnun, en tveimur. Kostnaður við eina kennslustofnun hlýtur einnig að vera minni en við tvær. En gert er ráð fyrir, að kostnaður við báðar stofnanirnar sé greiddur úr ríkissjóði. Af þessu verður ekki annað ráðið, en að till. þær, sem fram eru settar um framtíðarskipun þessara mála, sbr. það frv., sem hér er til umr., hafi skapazt út frá persónulegum sjónarmiðum.

Skólastjóri vélskólans er innan fárra ára að láta af löngu og merku starfi, sem eðlilega hefur meira verið háð eimvélatækninni, en mótorvélatækninni, þótt hann hafi hins vegar ávallt fylgzt með öllum breyt. á þessum sviðum. Það er vel skiljanlegt, að hann óski ekkert sérstaklega eftir því að beita sér fyrir þeirri breyt., sem er að mínu áliti og margra annarra manna alveg brýn nauðsyn á að gerð verði sem fyrst. Námskeiðskennari Fiskifélagsins í vélfræði hefur haft þetta starf á hendi í áratugi. Hann telur sig að sjálfsögðu hafa vaxið með starfinu og kann því illa að verða á gamals aldri settur undir stjórn sér yngri kennara. Og það er ekki nema mannlegt, að hann vilji halda í þann sess, sem hann hefur þannig skapað sér. Hitt er svo allt annað atriði, að út frá slíkum forsendum er afar hættulegt að skipa þessum málum, þótt þriðji maður í meiri hluta n., sem vel kann að hafa slíkt sjónarmið, að margra ára embættisferill eigi sér meiri rétt, en nmbætur nýja tímans, gæti einnig fallizt á þessa skipun málanna. Það er einmitt nú alveg sérstakt tækifæri að koma á þeim umbótum í þessum málum, sem nauðsynlegar eru, en með allt öðrum hætti, en ráð er gert fyrir í þessu frv. Það er hvorki nokkur ástæða né nokkur vilji fyrir hendi hjá neinum þeim, sem mál þetta snertir, að blaka hið minnsta við þeim aðilum, sem hér eiga hlut að máli, eða vanmeta á nokkurn hátt þeirra ágætu störf. Hitt verður að stöðva, að þeir fyrir einhvern reginmisskilning komi því fram, sem valda mundi miklu tjóni fyrir þjóðfélagið í heild.

Ég sagði hér áðan, að með frv. þessu, ef að l. yrði, væri verið að byggja ofan á veikar undirstöður. Um þetta atriði segir minni hluti n. í athugasemdum sínum: „Við inntökuskilyrði til I. stigs væri ekkert að athuga, ef því væri ekki ætlað að vera grundvöllur undir siðari námstigum. I. stigs nám getur engan veginn verið fullnægjandi undirbúningur undir II. stigs nám og ekki verið undirstaða til framhaldsnáms, nema að undangenginni ákveðinni verklegri reynslu svo og verklegri æfingu við smíðar.“

Ég hygg, að þetta sé nægilegt til þess að sýna, að ég hafi farið hér með rétt mál.

Þá hélt ég því fram hér í upphafi máls míns, að nauðsynlegt hefði verið að fá fyrst lögteknar fyrirhugaðar breyt. á l. um atvinnu við siglingar. eins og til var ætlazt, því að með hliðsjón af þeim ákvæðum yrði síðar að ákveða fræðsluna. Þetta hefur raunar minni hluti n. einnig fundið, því að í lok 5. gr. frv. setur hann beinlínis fram, hvaða réttindi skuli fylgja því námi, sem ljúka skal á II. stigi. Það er ekki einasta, að þessi grein eigi hér ekki heima, heldur er hér um svo mikla fjarstæðu að ræða, að maður fær ekki skilið, að menn í ábyrgðarstöðu skuli hafa kjark í sér til að bera slíkt fram. Nægir að vísa til þess, að margfalt meiri vandi er að hafa á hendi gæzlu 900 hestafla dieselvélar, en ef um eimvél af sömu stærð væri að ræða. Og þó eru í gildandi l. gerðar margfalt meiri kröfur til að gæta þeirrar síðari og ekki ætlazt til, að þeim ákvæðum verði breytt. Um þetta atriði segir minni hlutinn í sinni greinargerð:

„Um kröfur til náms í 5. gr. verður ekkert sagt að svo stöddu, að undanteknum 5. lið 2. málsgr. Vér mótmælum, að þær námskröfur, sem þar eru gerðar, veiti nægilega þekkingu til gæzlu á 900 ha. mótorvél, hvort heldur er í fiskiskipi eða öðru skipi. Í þessu sambandi er rétt að benda á, að ríkisvaldið hefur krafizt þess allt frá 1915, að miklu meiri kröfur séu gerðar til vélgæzlu á þeim skipum. sem hér um ræðir. Mótornámskeið Fiskifélags Íslands var upphaflega aðeins stofnað til þess að veita vélgæzlumönnum á fiskiskipum nægilega þekkingu, en aldrei til þess ætlazt, að það sæi fyrir vélgæzlumönnum á verzlunarflota Íslands, eins og ótvírætt er stefnt að með frv. þessu, enda ákveðið í l., að Fiskifélag Íslands skuli hafa þessa þjónustu, þar til vélskólinn er þess umkominn að taka hana að sér.“

Meiri hluti n. gerir einnig till. um það í þessu frv., hvaða réttindi eigi að fylgja III. stigs námi, en aftur á móti er enginn stafur um það, hvaða réttindi skuli fylgja lokanáminu, eða IV. stigi. Munu þar eiga að gilda ákvæði annarra l., án þess þó að þau séu í nokkru samræmi við þessi ákvæði. Um þetta segir minni hluti nefndarinnar:

„Að voru áliti er námsskipting mjög ófullkomin og vélstjóraréttindi engan veginn í samræmi við það, sem áður greinir um þá, sem notið hafa kennslu samkv. I. kafla 5. gr.

Eins og ég hef þegar bent á hér að framan, er ruglað saman í frv. ákvæðum, sem eiga heima í allt öðrum l. og stangast verulega á við þau ákvæði, sem þar eru fyrir og ætlazt er þó til að ekki verði úr gildi numin. Hins vegar er engin tilraun gerð til þess að samræma sjálfa fræðsluna við þá þróun, sem átt hefur sér stað í fræðslulöggjöfinni almennt. Það sýnist vera ákaflega hjákátlegt, úr því að verið er að gera tilraun til þess að endurskoða l., að ekkert er hróflað við þeim ákvæðum, sem algerlega eru orðin úrelt fyrir breytta fræðslulöggjöf. Það sýnist vera allhæpið, að rétt sé að eyða nokkrum tíma eða mikium tíma í kennslu í þeim greinum, sem aðili á samkv. öðrum l. að hafa notið áður en hann er 16 ára að aldri, einkum þegar vitað er, að það aldurstakm.ark er sett sem skilyrði fyrir inntökunni. Að öðru leyti skal ég ekki fara frekar inn á einstök atriði frv.

Langsamlega bezta lausnin á þessu máli væri sú, að hæstv. ráðh. hlutaðist til um að stöðva þetta frv. nú og skipaði síðan n. til áframhaldandi undirbúnings á málinu. Væri nægilegt, að 3 menn væru valdir til þessara starfa, og ættu útvegsmenn að eiga þar einn fulltrúa, sem væri formaður hennar; hinir tveir ættu að vera frá vélstjórafélaginu og félagi mótorvélstjóra, sinn frá hvorum samtökum. Ég sé enga ástæðu til þess, að fræðslustofnanirnar hefðu þar fulltrúa. Þeirra fulltrúar hafa þegar sagt sitt síðasta orð, sem fyrir liggur hér í frumvarpsformi; annars ætti n. einnig ávallt að eiga aðgang að þeim til skrafs og ráðagerða. Skyldi það bregðast mót von minni, að hæstv. ráðh. hafi þennan hátt á, sem hér er bent á, vil ég mælast til þess við hv. menntmn. þessarar deildar, að hún sendi frv. til umsagnar til eftirfarandi aðila: Vélstjórafélags Íslands, Mótorvélstjórafélags Íslands, skipaskoðunarstjóra, samtaka útgerðarmanna og sameiginlegs fundar kennara og nemenda við Vélstjóraskóla Íslands og mótornámskeið Fiskifélagsins, enn fremur til Eimskipafélags Íslands, sem nú á glæsilegan mótorskipafiota og mætti því ekki vera alveg sama um, hve traust sú undirbygging er, sem ætlað er að standa undir fræðslu þeirra vélstjóra, sem þar vinna í framtíðinni. Hefur félagið í þjónustu sinni ungan og mjög vel lærðan vélaverkfræðing, og væri ekki einskis virði að fá umsögn hans um þetta mál.

Ég vænti þess, að þegar fyrir liggja umsagnir frá öllum þessum aðilum, þá hafi hv. menntmn. aflað sér nægilegs forða til þess að leggja til, að málið verði afgr. með rökstuddri dagskrá í þessari hv. d. í trausti þess, að ríkisstj. láti undirbúa það betur fyrir samkomudag næsta reglulegs Alþingis. Ég mun ekki, nema tilefni gefist til, ræða málið nánar í einstökum atriðum, en ég vil leggja til, því að ég hef ekki heyrt þá till., að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað aftur til hv. menntmn., sem þá athugar málið og væntanlega fellst á að leita þeirra umsagna, sem ég hef þegar minnzt á, ef ekki tekst samkomulag við hæstv. ráðh. um þá meðferð þessa máls, sem ég hef þegar bent á.