03.11.1952
Efri deild: 20. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í C-deild Alþingistíðinda. (3568)

113. mál, uppbót á sparifé

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég viðurkenni fúslega, að ég hef ekki mikla þekkingu á þessum málum, sem hér er um að ræða. Hv. þm. Barð. er sérmenntaður í þessum efnum og því að mörgu leyti betur til þess fallinn og færari, en ég að rökræða þetta mál. Þó kemur í ljós, að jafnslyngur ræðumaður og hann er hefur talið nauðsynlegt vegna þess, hversu sérfræðilegt þetta mál er, að búa sig sérstaklega undir þessar umr., og vil ég sízt átelja það. Ég hef ekki hugsað mér að taka mikinn þátt í þessum umr., enda hef ég ekki tekið afstöðu til málsins í heild, vegna þess að mér er ljóst, að það er verk sérfræðinganna að útkljá málið og koma sér saman um lausn þess.

Vel kann að vera, að rétt hefði verið að láta birtast með frv. álit minni hluta n., og má þá segja, að það hafi verið athugunarleysi af minni hálfu að gera það ekki, ef það hefur legið fyrir, þó að það sé nú ekki venja, ef frv. er ekki borið fram af n. í heild og ágreiningur gerður af minni hlutanum. En hv. þm. virtist vera að ásaka mig um það, að ég hefði borið fram eða látið bera fram álit meiri hlutans. Ég vænti, að honum finnist ekki, að það hefði verið meiri háttsemi af minni hálfu að láta bera fram álit frá minni hluta n. og leggja það fyrir þingið. Í þessu máli er um tvö sjónarmið að ræða, sem mér skilst, að megindeilan standi um. Það kann vel að vera, að ég hafi sagt við minni hluta n., að ég mundi tala við hann, áður en ég legði frv. fyrir, en ég minnist þess ekki, að ég hafi lofað að leggja ekki frv. fram nema fá samþykki minni hl. fyrir því.

Ég get ekki orðið við þeim tilmælum hv. þm. að stöðva frv. vegna þess, að það sé ekki nægilega undirbúið. Nefndin, sem í þetta var skipuð, var talin vera mjög hæf til þess að fjalla um það. En það sýnir sig, að n. klofnar í tvennt um þetta deilumál, sem við höfum nú rætt um. Og eftir þeim kynnum, sem ég hef af málinu og afstöðu þessara tveggja aðila, þá er ekki nokkur leið að fá samkomulag hjá þeim um málið. Þeir standa hvor á sínu máli og vilja ekkert þar um þoka. Það kann að vera skiljanlegt, að það sé erfitt að fá þessa aðil.a til að komast að einhverju samkomulagi, vegna þess að samkomulagið brestur á því, hvort það á að vera einn skóli eða tveir skólar. Þeir, sem vilja láta kennsluna vera í einum skóla, vilja ekki samþykkja það sjónarmið, að hún sé í tvennu lagi eins og nú. Þeir, sem eru með því, að kennslan sé í tvennu lagi eins og nú, eru á móti því, að hún sé öll sett undir vélskólann. Þannig stendur málið, og ég álít, að því sé engu betur borgið, þó að því sé vísað aftur annaðhvort til þessarar n. eða einhverrar annarrar n. í því skyni, að samkomulag náist. Ég hef ekki nokkra trú á, að samkomulag náist milli þessara aðila. Ég álit, að Alþingi verði að taka afstöðu til málsins og skera úr því. Að sjálfsögðu mun sú hv. n., sem um málið fjallar í þinginu, kynna sér alla málavöxtu svo sem framast er kostur og vera í sambandi við þá aðila, sem við málið koma. Á annan hátt verður þetta mál ekki leyst að mínum dómi. Ég hygg, að út af fyrir sig sé ekki hægt að deila um það, að málið er mál menntmn., en ekki sjútvn., þó að þetta snerti sjávarútveginn. Hins vegar efast ég ekki um, að hv. menntmn. setji sig í samband við alla aðila, sem hún þarf að fá uppIýsingar hjá.