03.11.1952
Efri deild: 20. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í C-deild Alþingistíðinda. (3569)

113. mál, uppbót á sparifé

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir nú allmiklu miður, að hæstv. ráðh. hefur ekki séð sér fært að láta athuga þetta mál betur, en ég skal hins vegar ekki eyða mínum tíma né tíma hv. deildar til þess að ræða um það nánar. En ég vildi mega leiðrétta hér eitt atriði, sem er ákaflega veigamikið atriði í þessu máli og litur út fyrir að hæstv. ráðh. hafi ekki komið auga á. — Megindeilumálið er ekki um það raunverulega, hvort kennsla skuli fara fram í einni eða tveimur stofnunum, þar sem ríkið sjálft kostar báðar stofnanirnar. Tíminn mun leiða það í ljós, — og það veldur ekki neinu böli, þó að það dragist, — en tíminn mun leiða það í ljós, að þetta verður fært undir eina stofnun síðar meir, svo að það er engin ástæða til þess að vera að halda uppi sterkri andstöðu við málið af þeim ástæðum einum. Hitt er meginatriðið, — og það vildi ég biðja hæstv. ráðh. að athuga, - að með frv., eins og það er nú sett fram, eru hækkuð stórkostlega réttindi fjölda manna í landinu án þess að bæta við þá námi. Þetta er meginatriðið í málinu. Og þetta geta ekki þeir menn fallizt á, sem vita af margra ára reynslu, að það er undirstaðan undir vélgæzlunni, að byrjunarnámið sé sæmilegt. Það er ætlazt til þess hér, að nám, sem tekið er hjá Fiskifélaginu í þeirra lægstu deildum, sé sambærilegt og komi í staðinn fyrir annað nám, sem innt er nú af hendi annars staðar og aðrir menn verða að inna af hendi, ef þeir ætla að fara beint í vélstjóraskólann. Þetta er kjarni málsins. Nú hafa þessir menn leyfi til þess að vera vélstjórar á skipum með allt að 600 hestöflum. Þetta er sett upp í 900 hestöfl. Og þeir geta komizt upp í þessi réttindi án þess nokkurn tíma að hafa innt af hendi nauðsynlegt nám. Þetta er kjarni málsins. Og það er einmitt þetta atriði, sem ekki á heima í þessum lögum. Þetta á heima í l. um atvinnu við siglingar, en því er lætt hér inn til þess að verða gildandi ákvæði. Og þegar búið er að nema þetta í burtu úr frv., þá er raunverulega sáralítið eftir annað af frv. heldur en það, sem fyrir er í l. nú.

Ég vil biðja hæstv. ráðh. að athuga þetta mál, eins og ég einnig vil biðja hv. n. um að taka þetta mál betur til athugunar. Ég geri engan ágreining um það, eins og ég tók raunar fram fyrr, hvort málið er flutt af hv. menntmn. eða einhverri annarri n. Ég vil hins vegar benda á, að öll ákvæði í sambandi við fræðslu húsmæðraskóla eru látin fara í landbn., vegna þess að það er viðurkennt, að þetta sé mál landbúnaðarins, og þó eru það fjöldamargir aðilar, sem nema á húsmæðraskólum, sem búa í kaupstöðum og koma aldrei í sveit í landinu. (Gripið fram í.) Já, það eru sveitaskólarnir. En þetta er ekkert kappsmál fyrir mig. Ég þekki allt of vel þá ágætu hv. þm., sem eru í n., til þess að bera nokkurt vantraust til þeirra, að þeir fari vel og samvizkusamlega með málin, og sé ekki ástæðu til að tefja umr. um það. En ég vil enn leggja áherzlu á það, að numin séu burt úr frv., ef það á að ná fram að ganga, þau ákvæði, sem ekkl heyra til þessu máli og hljóta að valda voðatjóni í þessu landi, ef samþykkt verða.

Það var líka á misskilningi byggt hjá hæstv. ráðh., og ég vil sannarlega biðja afsökunar á því, ef hann hefur getað skilið orð mín þannig, að ég væri að ásaka hann fyrir að láta birta meirihlutaálit n. Það er síður en svo, að mér hafi nokkru sinni dottið í hug að halda því fram. Hitt var eðlilegt, að minnihlutaálit hefði verið birt, til þess að Alþingi gæti séð þau rök, sem minni hlutinn færði fram. En að ég hafi álasað eða ásakað ráðh. fyrir að birta nál. meiri hl. n., er byggt á hreinum misskilningi.