20.11.1952
Efri deild: 29. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í C-deild Alþingistíðinda. (3579)

149. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hérna liggur fyrir, felur ekki í sér aðra breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt en þá, að barnsmeðlög til einstæðra mæðra og hvers konar bætur samkv. lögunum um almannatryggingar skuli ekki teljast sem tekjur við framtal til tekju- og eignarskatts.

Ég held, að menn hljóti að geta orðið sammála um það, að þessar bætur, sem hér er um að ræða, séu þess eðlis, að ekki sé ástæða til þess, að ríkið sé að taka af viðkomandi fólki nokkurn hluta þessara bóta. En eins og nú standa sakir, þá er það þó svo vegna þess, hversu persónufrádrátturinn samkvæmt skattalögunum er lágur, að þessar bætur allar verða að nokkru leyti skattskyldar, og á ýmsum stöðum er það að minnsta kosti svo, að í framkvæmdinni er lagður á þær tekjuskattur. Eftir því sem ég hef komizt næst, þá mun það vera svo, að bæði elli- og örorkulifeyrir samkv. almannatryggingalögunum mun vera um 2500 kr. hærri, hvort heldur er fyrir einstakling eða fyrir hjón, ef þau fá þennan lífeyri sameiginlega, heldur en persónufrádráttur viðkomandi aðila samkv. skattalögunum, og þessi hluti bótanna mundi þess vegna verða skattskyldur eins og lögunum er nú háttað. Um barnsmeðlög og barnalífeyri munu vera samkv. þeim frádrætti, sem notaður hefur verið s. l. ár hér í Reykjavík, um 800 kr. af barnalífeyri með hverju einstöku barni, sem skattskyldar yrðu. Það má náttúrlega segja, að slík upphæð mundi ekki verða skattlögð ein út af fyrir sig, en þar sem svo hagaði til, að um mörg börn væri að ræða, þá gæti vel komið til þess, að þetta leiddi til þess, að á barnalífeyrinn yrði lagður tekjuskattur. Fyrir ríkissjóð mun þetta ekki vera neitt stórt fjárhagslegt atriði, því að sá skattur, sem hann með þessum hætti hefur fengið og mundi fá, er náttúrlega ekki stór upphæð á mælíkvarða fjárlaganna til dæmis og mundi ekki koma til með að muna miklu fyrir ríkissjóðinn, þó að það hins vegar muni dálitlu fyrir þá, sem hér eiga hlut að máli, vegna þess að þeir eru yfirleitt þannig efnum búnir, að þá munar um svo að segja hverja einustu krónu, auk þess sem þetta er tilfinningamál fyrir þá og að hinu leyti líka það réttlætismál, sem í raun og veru ætti fyrir löngu að vera búið að leiðrétta og að minnsta kosti ætti að minni hyggju ekki að draga lengur að leiðrétting yrði gerð á.

Ég álít, að það sé ekki þörf á því, að ég sé að skýra þetta frekar, en ég þegar hef gert, — þetta liggur svo ljóst fyrir, — og ég vil vænta þess, að hv. þdm. séu mér sammála um það, að þetta sé það mikið réttlætismál, að ástæða sé til þess að samþykkja þetta frv., sem hér liggur fyrir. Og þó að því hafi nú verið borið við oft undanfarið, þegar fluttar hafa verið brtt. við lögin um tekju- og eignarskatt, að ekki væri ástæða til þess að afgreiða þær, vegna þess að þessi lög væru í endurskoðun, þá held ég nú samt sém áður, að vegna þess, hversu mikill dráttur virðist nú ætla að verða á þeirri endurskoðun. — það bólar ekki á, að árangur hennar ætli að koma fyrir þetta þing, sem nú situr, — þá sé ekki ástæða til þess að bíða með slíkar sjálfsagðar lagfæringar og breytingar eins og hér er um að ræða eftir þeirri almennu endurskoðun, heldur sé rétt að afgreiða það þegar í stað.

Ég vil þá leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjhn.