02.12.1952
Efri deild: 33. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í C-deild Alþingistíðinda. (3588)

165. mál, sala ríkisins á olíu og bensíni

Flm. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér á þskj. 287 frv. til laga um innflutning og sölu ríkisins á olíu og benzíni. Efni þessa frv. er í stuttu máli þetta: Í fyrsta lagi það, að ríkisstj. skuli gerast í allstórum stíl beinn þátttakandi í innflutningi á olíu og benzíni. í öðru lagi, að það magn, sem ríkisstj. flytur inn af þessum vörum, skuli hún selja aðeins í heildsölu og á sama verði alls staðar þar á landinu, sem olíuflutningaskip getur landað í olíu- og benzíngeyma. Í þriðja lagi, að þetta verð, sem ríkisstj. selur þessar vörur fyrir, skuli vera kostnaðarverð olíunnar og benzínsins í aðalbirgðastöð ríkisstjórnarinnar, að viðbættum áætluðum meðalflutningskostnaði með olíuflutningaskipi ríkisins á hafnir úti um land. Í fjórða lagi, að ef félagasamtök, sem nánar eru tilgreind í frv.. félagasamtök olíu- og benzínnotenda, sem óska að njóta slíkra viðskipta við ríkisstjórnina, geta ekki með öðrum hætti fengið afnot af olíugeymum, sem þó eru tiltækir á viðkomandi stað, þá er ríkisstj. veitt heimild til að taka slíkar eignir leigunámi eða eignarnámi og fá viðkomandi samtökum olíu- eða benzínnotenda eignirnar til afnota. Í fimmta lagi, til þess að fyrirbyggja, að nokkur sá aðili, sem kaupir þessar vörur í heildsölu af ríkisstj., væntanlega á miklu lægra verði en olíufélögin nú selja þær á, geti notað þessa aðstöðu til þess að afla sér milliliðagróða, þá er ríkisstj. gefin heimild til að ákveða hámarksálagningu í smásölunni, ef hún telur ástæðu til þess. Og svo í sjötta og síðasta lagi er ætlazt til þess, að olíukaupin, sem gert er ráð fyrir samkvæmt þessu frv., verði svo sem frekast er kostur á tengd sölu á aðalútflutningsvörum landsins, og er framkvæmdin þess vegna látin heyra undir sama ráðuneyti.

Tilgangur minn með því að flytja þetta frv., sem hér liggur fyrir og ég hef nú lýst að efni til, er fyrst og fremst sá, að með þessum aðgerðum gæti ríkisvaldið komið fram mjög lækkuðu verði á olíu og benzíni í landinu. Eins og hv. alþm. er kunnugt og að nokkru er vikið að í grg. fyrir frv., þá er olíu- og benzíninnflutningurinn til landsins orðinn einn allra stærsti, ef ekki alstærsti liðurinn í innflutningi erlendra vara til landsins. Á þessu yfirstandandi ári hefur þessi innflutningur samkvæmt upplýsingum í Hagtíðindum numið nálægt því 100 millj. kr., en af því sést, að heildarinnflutningurinn á þessu ári mun vafalaust verða talsvert mikið á annað hundrað millj. króna. Nú er þetta aðeins innflutningsverð vörunnar, en það þýðir aftur, að útsöluverðið, þegar kominn er á kostnaður við dreifinguna og sú álagning, sem seljendur olíunnar hér yfirleitt viðhafa, mun sjálfsagt verða nokkuð á þriðja hundrað millj. króna það ár, sem nú er að líða. Það er þess vegna auðséð, að það skiptir mjög miklu máli fyrir þær atvinnugreinar og þá einstaklinga, sem þessar vörur þurfa að kaupa og nota í stærri eða smærri stíl, að hægt sé að fá þessar vörur með réttu verði. Hins vegar mun það einnig kunnugt, að þeir aðilar, sem nú hafa með höndum sölu á þessum vörum, þ. e. a. s. olíufélögin, munu fyrst og fremst stunda þann rekstur með það fyrir augum að hafa af því sem mestan hagnað, enda kunnugra en frá þurfi að segja, að olíusala í heiminum yfirleitt er eitthvert mesta gróðafyrirtæki, sem sögur fara af, enda myndaðir um þá verzlun, alþjóðlegir einokunarhringar, sem áreiðanlega hafa rakað saman of fjár fyrr og síðar, eins og vera mun á vitorði flestra manna, og það er svo, að þau olíufélög, sem hér starfa, eru einnig angar af þessum alþjóðlegu einokunarhringum og munu líka haga viðskiptum sínum eftir svipuðum leiðum og olíuhringarnir yfirleitt gera og hafa enda hér eins og annars staðar áreiðanlega grætt mjög mikið á þessari verzlun og safnað á þann hátt allmiklum auði.

Það væri nú kannske í raun og veru óþarfi að nefna nokkur dæmi til sönnunar þessum tilhneigingum olíufélaganna og olíuhringanna. Þó má aðeins minna á það, að ekki er lengra síðan en á s. l. sumri, að lesa mátti í blöðum, bæði hér og erlendis, þungar ákærur á hendur allmörgum olíufélögum og olíuhringum fyrir það, að þau hefðu misnotað aðstöðu, sem þau höfðu fengið m. a. í sambandi við það, sem kallað er alþjóðleg samhjálp, þ. e. a. s. í sambandi við þau hernaðarbandalög, sem mynduð hafa verið fyrst og fremst fyrir atbeina Bandaríkja Ameríku, og þær fjárveitingar og svo kallaða fjárhagslega aðstoð, sem veitt hefur verið í sambandi við það, — að þessi olíufélög og olíuhringar hafi misnotað sér aðstöðu, sem þau höfðu fengið í sambandi við þetta mál, til þess að halda uppi miklu hærra olíuverði heldur en ástæða var til, og safnað sér þannig aukagróða í sambandi við þessa starfsemi.

Við þurfum ekki heldur að fara út í lönd til þess að finna dæmi um fjáröflunaraðferðir olíufélaganna. Við höfum dæmin líka hér heima, og er þar skemmst að minnast þess, hvernig eitt olíufélaganna hér notaði sér t. d. gengislækkunina, þegar hún var framkvæmd hér árið 1950, til þess að hafa af því mjög verulegan aukagróða fram yfir það, sem félögin annars afla sér beinlínis með álagningunni á olíuna, þ. e. þeirri venjulegu álagningu. Einnig má minna á það, að á þessu liðandi ári komust olíufélögin hér upp með það að hækka olíuverðið um 10%, án þess að nokkur hækkun hefði orðið á olíuverði erlendis, þannig að með þessu tóku þau nýjan viðbótargróða af starfsemi sinni, og ef reiknað er með því, sem ég nefndi áðan, að oliusala olíufélaganna hér verði samanlögð á þriðja hundrað millj. króna yfir árið á útsöluverði, þá gera þessi 10%, — þótt ekki væri reiknað með nema 200 milljónum, — hvorki meira né minna en 20 millj. kr., sem olíufélögin með þessari einu og að því er verður að álíta ónauðsynlegu hækkun á verði olíunnar taka af olíunotendum hér á þessu eina ári umfram það, sem annars hefði verið með óbreyttu olíuverði, sem þó hefði áreiðanlega líka gefið þeim allverulegan gróða. Ég held þess vegna, að það sé hægt að slá því föstu, að verðlag á þessum vörum, eins og nú er háttað, sé yfirleitt óhæfilega hátt og miklu hærra, en þyrfti að vera, ef þessi verzlun, þ. e. a. s. innkaup á oliunni til landsins og verzlunin með hana hér, væri rekin með heilbrigðum hætti, og álít ég þess vegna fulla ástæðu til þess, að löggjafarvaldið grípi hér í taumana, og þetta frv., sem ég hér flyt, er einmitt ætlað til þess að stemma stigu fyrir þessu óhæfilega verði á þeim vörum, sem hér er um að ræða.

Það þarf náttúrlega ekki að lýsa því, að þessi okurgróði, sem ég hér hef verið að ræða um, þrautpínir þá aðila, sem hér eiga hlut að máli og vöruna verða að kaupa, hvort sem það er til atvinnurekstrar eða annarra nota. Þar má í fyrsta lagi nefna okkar aðþrengda sjávarútveg, þar sem að mjög verulegu leyti er notuð olía til að knýja fiskiskipin — og reyndar verzlunarskipin líka nú orðið að ákaflega miklu leyti. Og með þeirri álagningu, sem nú er á olíunni og benzíninu, eru þessir útgjaldaliðir — fyrst og fremst olían, sem átt er við í þessu tilfelli orðnir geysilega þungbærir bæði bátaútveginum og nú einnig togaraútgerðinni, og mundi hafa mjög mikil áhrif í þá átt að auðvelda þennan atvinnurekstur, ef lækkað yrði verulega verð á olíunni, eins og ég álít að hægt sé. Sama er að segja um verksmiðjur og fiskiðnaðarfyrirtæki, sem hér starfa, að því leyti sem þau nota olíu sem aflgjafa, en það eru ýmis stór fyrirtæki, sem það gera. Og í þriðja lagi gildir þetta um þær rafstöðvar, sem reknar eru með olíu. En svo er nú, að víða í landinu, þar sem vatnsafl hefur ekki verið virkjað til rafmagnsframleiðslu, eru reknar dieselstöðvar eða aðrar stöðvar, sem nota olíu sem aflgjafa. Þetta hefur orðið til þess, að rafmagn á þeim stöðum er yfirleitt mjög miklu dýrara, en rafmagn, sem framleitt er í vatnsvirkjunum, og er það olíuverðið, sem mestu ræður um það, hversu þessi rafmagnsframleiðsla verður dýr. Eins og kunnugt er, hafa verið uppi háværar raddir og m. a. fluttar um það margar till. og frv. hér í þinginu, að nauðsynlegt sé að hlaupa undir bagga með þeim, sem þurfa að kaupa rafmagn háu verði frá þessum dieselrafstöðvum, með því annaðhvort að veita þeim styrk eða þá, eins og till. hafa líka verið uppi um hér í þinginu, að greiða niður verðið á þessum stöðum með því að hækka rafmagnsverðið annars staðar, þar sem vatnsaflið er notað til rafmagnsframleiðslunnar. Það væri hægt að greiða mjög fyrir lækkun á raforkuverði frá þessum dieselstöðvum með því, að olíuverðið væri lækkað. Í fjórða lagi er það svo orðið mjög algengt, að menn nota olíuna til upphitunar húsa. Það er þess vegna mjög mikill fjöldi fólks, fyrir utan beinan atvinnurekstur, sem ég áður hef verið að tala um, sem hefur mikilla hagsmuna að gæta í sambandi við olíuverðið. Fyrir alla þessa aðila, sem ég nú hef rætt um, er það þess vegna mjög þýðingarmikið, ef hægt væri að lækka olíuverðið til muna frá því, sem nú er, og álít ég þess vegna fullkomið tilefni til þess, að þessi mál séu athuguð mjög gaumgæfilega og leitazt við með einhverjum hætti — annaðhvort með þeim, sem ég legg til hér í þessu frv., eða þá einhverjum öðrum, sem talinn yrði heppilegri — að koma fram ráðstöfunum, sem yrðu til þess að lækka olíuverðið mjög frá því, sem nú er.

Það hefur oft verið á þessa hluti minnzt áður, og það, sem menn gjarnast hafa talað um í sambandi við þetta, hefur verið að koma á olíueinkasölu ríkisins. Það er að sjálfsögðu hlutur, sem vel getur verið til umræðu, en í sambandi við það er náttúrlega ýmislegt, sem þá kemur til athugunar, bæði það, að einkasölur eru af mörgum ekki sérlega vel liðnar og ekki litnar ákaflega hýru auga, enda hefur það verið svo um þær einkasölur, sem ríkið sérstaklega rekur, að þær hafa einkum verið notaðar til þess að afla ríkinu fjár og þannig orðið til þess, að þær vörur, sem þær einkasölur verzla með, hafa verið seldar miklu hærra verði, en eðlilegt er, og orðið þannig til þess að íþyngja almenningi og taka af honum fé, en þetta hefur ekki orðið til þess að afla hugmyndinni um einkasölur mjög mikilla vinsælda. Í öðru lagi mundi í sambandi við ríkiseinkasölu sennilega verða komið upp allflóknu og dýru kerfi, og ýmislegt er hægt að misnota í sambandi við það og gera dýrara, en nauðsynlegt er. Samt sem áður er ég síður en svo að fordæma það, að vel geti komið til mála að koma upp einkasölu ríkisins á olíu og benzíni og slíkum hlutum. En í þetta sinn hef ég samt sem áður valið mér dálítið einfaldari leið í sambandi við þetta mál, eins og ég nú hef lýst, sem sagt þá, að ríkið taki ekki einkasölu á innflutningi og verzlun með þessa hluti, heldur aðeins hitt, að ríkisstj. gerist stór þátttakandi í þessum innflutningi á olíu og benzíni og selji þessa vöru síðan aðeins í heildsölu, til þess að þáttur ríkisins verði sem einfaldastur í þessu efni, en selji á það lágu verði og í það stórum stil, að það hljóti að verða í raun og veru mælikvarði á það verð, sem olía og benzín verði seld á í landinu, eftir að ríkið hefði orðið jafnstór þátttakandi í þessari verzlun eins og hér er gert ráð fyrir. Þetta ætti að vera, eins og ég segi, mjög einfalt, og ætti ekki að þurfa að setja upp í sambandi við það neitt stórt eða dýrt bákn á vegum ríkisins. Og þetta ætti að vera sérstaklega auðvelt í framkvæmd fyrir ríkisstj. vegna þeirra aðstæðna, sem nú eru fyrir hendi í þessu efni. Í fyrsta lagi hagar svo til, að ríkið sjálft á stóra olíustöð hér uppi í Hvalfirði, eins og hv. alþm. er kunnugt um, og það þarf þess vegna ekki að gera neitt til þess að byggja olíugeyma til þess að taka á móti þeirri olíu, sem það flytti inn. Geymarnir eru þarna þegar fyrir hendi í eigu ríkisins. Það hefur verið svo undanfarið, að olía og benzín er flutt til landsins í stórum förmum og flutt allt með leiguskipum, vegna þess að Íslendingar eiga enn engin slík stór olíuskip. Það ætti að vera auðvelt fyrir ríkisstj. alveg á sama hátt eins og olíufélögin að fá slík leiguskip til þess að geta annazt þessa olíuflutninga til landsins. Í þriðja lagi á ríkið olíuflutningaskip af þeirri stærð, sem hentar til þess að dreifa olíunni frá aðalbirgðastöðinni og á hafnir úti um landið, þannig að það er fyrir hendi allt, sem til þess þarf, að ríkisstj. geti gerzt slíkur þátttakandi í olíuinnflutningnum og olíusölunni í heildsölu eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., og þarf sem sagt enga nýja fjárfestingu af hálfu ríkisins til þess að geta framkvæmt þetta. Þess vegna tel ég líka, að sú leið, sem ég hér hef valið, sé miklu einfaldari og auðfarnari og að því leyti heppilegri, eins og sakir standa nú, heldur en olíueinkasala.

Annar höfuðtilgangurinn með flutningi þessa frv., næst því að lækka stórlega olíuverðið, er svo hitt, sem mjög hefur líka verið á baugi nú undanfarið og fluttar um það till. hér í þinginu, að jafna olíu- og benzínverðið á hinum ýmsu stöðum á landinu. Eins og ég gat um áðan, þá hefur olíuinnflutningnum verið háttað þannig, að flutt hefur verið inn í stórum förmum, sem allir hafa svo verið losaðir í aðalbirgðastöðvar olíufélaganna hér í grennd við Reykjavík eða hér suðvestanlands. Þetta hefur verið gert af hálfu olíufélaganna til þess að fá flutningskostnaðinn minni með þessum stóru skipum, sem aftur hafa svo ekki vegna aðstæðna getað losað farminn í olíugeyma á smærri höfnum úti um land. En síðan hefur hátturinn verið sá, að olían hefur verið flutt með smærri skipum á hafnir úti um land, og sá flutningskostnaður hefur síðan verið lagður á verðið og olían og benzínið þannig seld á miklu hærra verði úti um landið heldur en hér og því hærra verði sem lengra hefur þurft að flytja olíuna eða aðrar aðstæður hafa gert það að verkum, að flutningskostnaður hefur orðið meiri. Verðmismunur hefur þess vegna á ýmsum stöðum orðið mjög mikill og hefur, eins og ég sagði áðan, valdið mikilli óánægju og verið uppi háværar raddir um það að koma fram jöfnunarverði á þessari vöru alls staðar á landinu. Ég skal nefna það til dæmis um þennan verðmismun, að nú fyrir nokkrum dögum mátti lesa það í einu dagblaðanna hér, að það munaði t. d. togara, sem gerður væri út á Siglufirði, 45 þús. kr. á tveggja mánaða útgerð, sá munur, sem er á olíuverðinu á Siglufirði og hér fyrir sunnan. Þetta sýnir, að það er enginn smáræðismunur, sem hér er á, og ekki að ástæðulausu, þó að uppi séu þær óánægjuraddir, sem ég gat um áðan, um þennan geysilega mismun á olíuverðinu. Sama gildir um benzínverðið, og er ekki minni munur þar hlutfallslega víðs vegar úti um landið. Þótt þær till., sem uppi hafa verið um þetta, m. a. hér í þinginu, hafi haft marga formælendur hér, þá hafa allar framkvæmdir í þessu efni strandað á þeirri andstöðu, sem verið hefur hér, bæði hjá olíufélögunum sjálfum, af því að þau hafa ekki viljað taka á sig neinn kostnað af þessari verðjöfnun, þ. e. a. s., þau hafa ekki viljað minnka gróða sinn með því að taka á sig nokkurn hluta af flutningskostnaði olíunnar út um land, jafnvel þó að þau hafi fengið flutningskostnaðinn lækkaðan til landsins með þeim hætti að flytja það inn með svona stórum skipum, og hins vegar hefur að sjálfsögðu líka komið fram andstaða olíunotenda hér suðvestanlands gegn verðjöfnun, sem framkvæmd yrði á þann hátt að hækka olíuverðið hérna til þess að geta lækkað það aftur úti um land. Hins vegar mundi þetta verða mjög auðvelt, ef farin yrði sú leið, sem ég legg til hér í frv., að ríkisstj. annaðist innflutning á olíunni og dreifinguna í heildsölu til hafna úti á landi. Mundi verða mjög auðvelt í sambandi við verðlækkun, sem með þessum hætti yrði á olíunni, að koma verðjöfnuninni á, því að þá væri ekki aðeins hægt að lækka verðið á olíunni úti um land á þeim stöðum, þar sem það hefur verið hærra heldur en hér, heldur yrði vafalaust hægt, ef þetta yrði haganlega framkvæmt, að lækka verðið einnig hér á Suðvesturlandinu, ef minnkaður yrði sá mikli gróði, sem nú er á olíuverzluninni. Þess vegna væri þetta um leið tilvalið tækifæri til þess að framkvæma þá verðjöfnun, sem svo háværar kröfur hafa verið um undanfarið og fluttar hafa verið um margar till. hér í þinginu, þótt árangur af þeim hafi enn enginn orðið.

Þá vil ég fara um það nokkrum orðum, hverjir yrðu helzt væntanlegir viðskiptavinir ríkisstj. í sambandi við þessa verzlun og hvað gera þyrfti til þess að auðvelda þeim þau viðskipti, sem hér er um að ræða. Eins og ég nefndi áðan, þá er ekki gert ráð fyrir því, að ríkið annist dreifingu olíunnar eða benzínsins í smásölu, heldur aðeins að ríkisstj. selji í heildsölu og sjái um flutning á olíunni til þeirra, sem hafa aðstöðu til þess að kaupa þessar vörur í heildsölu. Þeir, sem fyrst og fremst mundu verða til þess að vilja njóta þessara viðskipta, eru ýmis olíusamlög og fyrst og fremst olíusamlög útvegsmanna, en slík samlög hafa verið mynduð á undanförnum árum á ýmsum stöðum í hinum stærri verstöðvum, bæði hér á Reykjanesskaganum og t. d. í Vestmannaeyjum og á Norðfirði og sennilega á nokkrum fleiri stöðum. Það er alveg gefið, að þessi samlög mundu fyrst og fremst, vegna þess að þau hafa þegar aðstöðu til þess að taka á móti olíunni í heildsölu, verða einna fyrst til þess að taka þátt í viðskiptum við ríkisstj., ef þessum hætti yrði komið á. Sama er að segja um þær síldarverksmiðjur, sem þurfa að nota olíu í stórum stíl og hafa geyma til þess að taka við henni, og önnur þau iðjuver, sem olíu nota og hafa svipaða aðstöðu til þess að taka við og geyma olíuna. Og svo eru í þriðja lagi þær olíurafstöðvar, sem ég var að tala um áðan. Þær mundu að sjálfsögðu líka koma hér til skjalanna og fá þannig aðstöðu til þess að fá olíuna með miklu lægra verði og þar með aðstöðu til þess að lækka verðið á þeirri raforku, sem þær framleiða. En jafnframt mundi þetta fyrirkomulag að sjálfsögðu ýta undir það, að stofnuð yrðu olíusamlög eða samtök olíunotenda á miklu fleiri stöðum, en nú þegar eru fyrir hendi. Og þess vegna hef ég, í 3. og 4. gr. frv., gert ráð fyrir því, að þar sem slík samtök olíu- og benzínnotenda yrðu mynduð, en hefðu ekki möguleika á að fá aðgang að þeim tækjum, sem þeim eru nauðsynleg til þess að geta orðið kaupendur að olíunni eða benzíninu í heildsölu, ef slík tæki væru þó til staðar á viðkomandi stað, þá yrði, til þess að greiða fyrir þessum aðilum, ríkisstj. heimilað að taka slík tæki hvort það eru nú olíugeymar eða önnur olíudreifingartæki — leigunámi eða eignarnámi og afhenda þessum samtökum olíu- og benzínnotenda þau til afnota. Um þetta eru sem sagt fyrirmæli bæði í 3. og 4. gr. frv. Ég tel alveg sjálfsagt og nauðsynlegt, ef farið er inn á þessa leið á annað borð, að ríkið fari þannig að gerast þátttakandi í oliulnnflutningi og olíuverzluninni, að þá verði til staðar heimild til þess að hjálpa á þennan hátt þeim samtökum, sem mynduð yrðu í því skyni að hafa slík viðskipti við ríkisstj. Það yrði þá bæði til þess að gefa miklu fleiri einstaklingum aðstöðu til þess að njóta þessara viðskipta og um leið til þess að greiða fyrir þeim viðskiptum, sem ríkisstj. sjálf hefði þannig með höndum. En síðan eru náttúrlega ýmsir aðrir staðir, þar sem engin slík tæki eru fyrir hendi, heldur yrði að byggja þau að nýju. En það eru þegar í lögum ákvæði, sem hægt er að nota til þess að greiða fyrir sams konar samtökum á þeim stöðum, og eru það l. nr. 110 frá 30. des. 1943, um olíugeyma o. fl. En samkv. þeim l. er heimilt að styrkja byggingu olíugeyma, ef ég man rétt, með allt að því 20%, eða 1/5 af byggingarkostnaði, og enn fremur heimild til þess að lána þeim aðilum, sem að byggingu slíkra geyma standa, ég held allt að 50% byggingarkostnaðarins.

Með því að samþ. þetta frv. og með því að framkvæma allar þær aðgerðir, sem ég nú hef talað um, eftir því sem þær eiga við á hverjum stað fyrir sig, þá ætlast ég til þess og álít, að það sé full ástæða til að ætla það, að hægt yrði að fá olíu til landsins og koma henni á hafnir víðs vegar úti um land til olíu- og benzínnotendanna með miklu lægra verði heldur en nú er á þessum vörum. Og eins og ég hef margtekið fram, þá álít ég, að það sé svo mikilsvert atriði bæði fyrir atvinnulífið í landinu og fyrir fjárhagslega afkomu mikils fjölda einstaklinga, að það sé ekki aðeins verjandi, heldur í raun og veru sjálfsagður hlutur, að ríkisvaldið grípi hér inn í og framkvæmi annaðhvort þessar eða þá aðrar aðferðir, sem taldar yrðu heppilegri til þess að koma fram þeirri verðlækkun á olíu og benzíni, sem áreiðanlega er hægt að gera.

Til þess svo að fyrirbyggja misnotkun í sambandi við smásöludreifinguna á olíunni, þá hef ég sett hér í 5. gr. frv. ákvæði um það, að ef ríkisstj. telur ástæðu til, þá sé henni heimilt að setja hámarksálagningu á vöruna í smásölunni, því að það væri náttúrlega hægt að hugsa sér þann möguleika, að einhverjir aðilar vildu nota sér það, að ríkisstj. seldi olíu svo miklu lægra verði í heildsölu heldur en olíufélögin hafa gert, til þess að kaupa hana af ríkinu, en selja hana svo óhæfilega háu verði í smásölu. Þótt ekki séu miklar líkur til þessa, taldi ég samt rétt að hafa slíkan varnagla.

Það, sem ég nú hef sagt um þetta mál, er sem sagt það, að höfuðtilgangur minn með flutningi þess er að koma fram ráðstöfunum, sem ættu að verða til þess að lækka stórlega olíuverðið. En svo er náttúrlega ekki hægt og ekki heldur ástæða til að loka augunum fyrir því, að þessi innflutningur á olíu og benzíni, í jafnstórum stíl og hann er, hlýtur að geta verið mjög þýðingarmikið atriði, ef honum er beitt í sambandi við sölu á aðalútflutningsvörum okkar. Þess vegna hef ég líka sett í 6. gr. frv. ákvæði um það, að framkvæmdin á þeim aðgerðum, sem frv. gerir ráð fyrir, skuli vera látin heyra undir sama ráðuneyti og fer með viðskiptasamninga eða sölusamninga á aðalútflutningsvörum landsins. Því verður sjálfsagt haldið fram, að það sé ekki hægt að hafa mikið gagn af þessu í sambandi við sölusamninga á fiskinum okkar, vegna þess að hann sé ekki svo eftirsótt vara á heimsmarkaðinum, en olían hins vegar mjög eftirsótt og auðvelt að selja hana og þess vegna sé ekki hægt að jafna því saman. Það er að sjálfsögðu rétt, að það er mikill munur á þessu, og sérstaklega hefur það þó verið á meðan olíuhringarnir hafa verið einráðir um verzlunina á olíu og benzíni. En það eru nú sem betur fer að renna upp þeir tímar, að skörð eru að koma í þessa einokun olíuhringanna, og er í því sambandi skemmst að minnast atburðanna í Íran. Og ég held, að það sé engin sérstök bjartsýni að gera ráð fyrir því, að það kunni þegar að vera fyrir hendi og muni því meira sem lengra líður opnast möguleikar til þess að ná samböndum um olíuverzlun við lönd, sem ekki lúta einokun olíuhringanna og þess vegna mundu gjarnan vera til viðræðu um vöruskipti á olíu og öðrum vörum, sem þau þurfa að kaupa. Og ég álít, að það sé að minnsta kosti sjálfsagt að rannsaka alla möguleika, sem kynnu að vera fyrir hendi í þessu efni, og nota þá, eftir því sem frekast er kostur, í sambandi við sölu á útflutningsafurðum okkar.

Ég held, að ég hafi þá gert nokkurn veginn skýra grein fyrir efni þessa frv. og fyrir því, hvað vakir fyrir mér með flutningi þess, og vænti þess, að hv. þm. vilji taka það til alvarlegrar yfirvegunar. Og jafnvel þó að mikið sé nú talað um það, að þingi eigi að ljúka fyrir jól og nú fari að verða skammur tími til að afgr. mál, þá vildi ég þó vonast til þess, að sú n., sem fengi þetta mál til meðferðar, — og ég leyfi mér að leggja til, að því verði vísað til hv. fjhn. (Gripið fram í.) Ja, mér skilst, að þetta sé nú viðskipta- og fjárhagsmál, en annars skal ég ekki hafa á móti því, að það fari til sjútvn., ef menn telja það hepþilegra. — En ég vil sem sagt vænta þess, að þó að nú sé talað um þennan hraða á þingstörfum, þá vilji sú hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, gefa sér nokkurn tíma til þess að athuga það og skila áliti til d. um það, jafnvel þótt svo kynni þá að fara, að ekki ynnist tími til þess að afgr. málið endanlega frá þessu þingi.