21.11.1952
Neðri deild: 30. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

10. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Hæstv. fjmrh. sagði hér nokkur orð áðan út af brtt., sem fram var komin viðvíkjandi endurskoðun á áburðarverksmiðjulögunum, og það var eiginlega táknrænt, það sem var höfuðatriðið í hans stuttu ræðu. Hann sagði, að lánveitandanum mundi koma það eitthvað undarlega fyrir sjónir, ef farið væri að breyta þessum brbl. Ég held nú, að út af fyrir sig gerði það ekki svo sérstaklega mikið til, hvernig lánveitandanum kæmi lagafrv. eða lög fyrir sjónir, þegar búið væri að afgr. þau hér frá Alþingi. Brbl. hafa lánveitendurnir vafalaust séð og hljóta að hafa verið ánægðir með þau, en Alþingi hins vegar hlýtur náttúrlega að ákveða sjálft, hvernig það vill ganga frá einu frv. Og það hefur komið fyrir hér áður viðvíkjandi brbl. og hefur komið fyrir á þessu þingi, að brbl. frá hæstv. ríkisstj. hefur verið breytt, þannig að það getur ekki verið neitt stórfellt atriði í þessu sambandi. Það getur raunverulega ekki gengið fyrir okkur, að við verðum að fara að sníða bæði lög og samninga eftir því, hvernig þeim lánveitanda þóknast, sem hæstv. fjmrh. þarf kannske að leggja þetta fyrir á eftir. Ég álít, að það hefði verið fyllilega ástæða til þess að setja ákvæði um endurskoðun l. um áburðarverksmiðju inn í þetta lagafrv., en ég hef getið þess áður hér við umr., af hverju ég fyrir mitt leyti hef ekki viljað flytja og tengja við þetta beinar brtt., eins og hægt væri náttúrlega að koma við á l. um áburðarverksmiðju. Það er vegna þess, að ég hef álitið og álit enn, að ég standi með þann skilning, sem ég hef haft og fleiri hv. þm. hafa, á grundvelli laganna, 1.–12. gr., og sérstaklega 3. gr., sem ákveður, að verksmiðjan skuli vera sjálfseignarstofnun og heyra að öllu leyti undir ráðstöfun ríkisins. Ég álit þess vegna, að það sé ríkisstjórnarinnar að koma fram með breyt. á l., vegna þess að það var raunverulega hún, — og þó aðallega hæstv. viðskmrh., sem skemmdi þessi lög hreint lögfræðilega séð með því að fá það, sem nú er 13. gr., inn í frv. við síðustu umr. í Ed., þegar þessi lög voru samþ. Þess vegna hefði það að öllu leyti verið æskilegt, ef það hefði nú verið bætt við ákvörðunum um endurskoðun á l. Ég hef hins vegar hér komið fram með brtt., sem ég hef skýrt áður við þessa umr., viðvíkjandi því að bæta inn í lánsheimild til ríkisstj. til að endurlána Sogsvirkjuninni allt að 90 millj. kr. Þetta stendur í beinu sambandi við það mál, sem hér um ræðir, þær lánveitingar, sem fram fara til áburðarverksmiðjunnar. Ákvörðunin um að koma áburðarverksmiðjunni upp þýðir, að það þarf óhjákvæmilega að flýta virkjun Sogsins, þ.e. fullvirkjun þess, þriðju virkjuninni, það mikið, að hún verði til, við skulum segja, haustið 1956.

Það er oft látið í veðri vaka, að þessi miklu lán, sem séu veitt úr mótvirðissjóði og erlendis frá, lendi fyrst og fremst til Rvíkur og Akureyrar og nágrennis þeirra staða. Ég hef í mínum ræðum um þetta mál reynt að sýna fram á, að það sé allmikill misskilningur í þessu sambandi. Áburðarverksmiðjunni er komið upp fyrir landið allt og þó alveg sérstaklega fyrir sveitirnar. Áburðarverksmiðjan fær sjálf og kostar sjálf um 100 millj. kr., og til þess að koma áburðarverksmiðjunni upp hefði, ef hún hefði átt að hafa raforku bara handa sér af eigin virkjun, þurft að verja yfir 100 millj. kr. til slíkrar virkjunar. Og eins og ég sýndi fram á í minni fyrri ræðu um þetta mál, þá er ekki ósanngjarnt að áætla, að af þeirri orku, sem kemur með annarri virkjun Sogsins, með Írafossvirkjuninni, megi segja, að 90–100 millj. kr. séu beinlínis vegna áburðarverksmiðjunnar, því að bara það rafmagn, sem áburðarverksmiðjan þarf á ári, er það, sem stöð, sem væri 15.000 kw., mundi framleiða með því að framleiða það sama dag og nótt. Áburðarverksmiðjan tekur, eins og við vitum, upp undir 2/3 af öllu því magni rafmagns, sem framleitt verður úr annarri virkjun Sogsins.

Hæstv. ríkisstj. veit það vel, þar sem hún er eigandi og stjórnandi áburðarverksmiðjunnar, eigandi að mínu áliti og stjórnandi hennar tvímælalaust, að það er ríkisstj., sem lagt hefur höfuðáherzluna á, að það væru knúnir fram samningar fyrir Sogsvirkjunina, sem gera ráð fyrir, að Sogsvirkjunin verði að láta áburðarverksmiðjunni í té rafmagn til mjög langs tíma. Og ég veit, að það var öllum aðilum, bæði stjórn áburðarverksmiðjunnar og stjórn Sogsvirkjunarinnar, ljóst, að stjórn Sogsvirkjunarinnar gat ekki staðið við þetta, þegar komið væri fram yfir ákveðinn árafrest, þ.e. ca. næstu 3 ár. Það er vitanlegt, að ef ekki er búið að virkja, við skulum segja fyrir haustið 1956, þá erum við komnir í þau vandræði, að til þess að láta áburðarverksmiðjunni það ódýra rafmagn í té, sem hún á að fá eftir samningunum og hún þarf að fá og er ákaflega heppilegt líka að geta látið henni í té, því að það er mjög hagstætt að geta látið rafmagn til áburðarverksmiðjunnar, — við erum komnir í þau vandræði, að þetta rafmagn, sem áburðarverksmiðjan fær, ef ekki er búið að virkja eftir ein 3 ár, eða við skulum segja haustið 1956, þá verður annaðhvort að minnka við áburðarverksmiðjuna, minnka við neytendurna í Rvík eða þá að fara að framleiða af fullum krafti aftur mjög dýrt rafmagn úr varastöðinni við Elliðaár. Og þá vofa hreinustu vandræði hér yfir. Þetta er ástand, sem er alveg óviðunandi. Og það veit hæstv. ríkisstj., að það er á hennar siðferðislegu ábyrgð, sem það er gert að reisa áburðarverksmiðjuna og miða við rafmagnið úr Írafossvirkjuninni einni saman. Og hún veit, að í l. um áburðarverksmiðjuna stendur, að hún hafi ekki leyfi til þess að byrja að byggja áburðarverksmiðjuna, fyrr en tryggt er nægilegt rafmagn; hún veit það. Og þess vegna hefði hæstv. ríkisstj. átt að taka því vel og vera til í að ræða um það að tryggja áfram þessa afhendingu á rafmagni til áburðarverksmiðjunnar, án þess að ætla máske að velta því öllu saman yfir á Reykjavíkurbæ, þannig að Sogsvirkjunin verði að halda áfram að tryggja áburðarverksmiðjunni rafmagn og Reykjavík að framleiða sitt rafmagn með útlendri olíu. En það er náttúrlega það, sem liggur við, ef ekki fæst nú mjög bráðlega tekin ákvörðun um, að hægt sé að byrja raunhæfan fjárhagslegan undirbúning að þriðju virkjun Sogsins. — Eins og ég hef áður getið, er sá tæknilegi undirbúningur í fullum gangi.

Ég held þess vegna, að hæstv. ríkisstj. ætti nú að gefa yfirlýsingu um, hvað hún vill gera í þessum efnum. Ég hef óskað eftir slíkri yfirlýsingu, og ég bar mína till. fram með þeirri forsendu, að ef yfirlýsing kæmi fram frá hæstv. ríkisstj. um það, að hún hefði eitthvað slíkt í undirbúningi, þá tæki ég hana með glöðu geði til baka. En svo fremi sem ekkert slíkt er í undirbúningi frá hálfu hæstv. ríkisstj. sem heildar, þá vildi ég að minnsta kosti bera fram þessa till., til þess að það verði alveg hreint ljóst, hver ábyrgð hvílir á þeim aðilum, sem raunverulega ráða því, hvort lagt er í þriðju virkjun Sogsins í tæka tíð eða ekki. Það er hæstv. ríkisstj., sem hefur valdið í þessum efnum. Það er vitanlegt, að Sogsvirkjunin hefur ekkert vald í þessum efnum; hún hefur ekki fjárráð þannig sjálf, heldur verður þvert á móti að greiða svo skiptir tugum millj. króna til hæstv. ríkisstj. í hennar ríkissjóð í söluskatti og tollum af þeim tækjum, sem til Sogsvirkjunarinnar koma. Svo framarlega sem ekki er tekið ráð í tíma í þessum efnum, þá stöndum við uppi í hreinustu vandræðum hér í Rvík ettir ein 3–4 ár, ef engin afgreiðsla fæst á þessum málum nú á þessu þingi. Ég sýndi greinilega fram á það, að af tæknilegum ástæðum væri langeðlilegast, hagsýnast og bezt að geta byrjað virkjunina, undirbúninginn að virkjuninni, að grafa göngin og annað slíkt á næsta sumri, þar sem öll tæki eru til upp frá og hægt að halda áfram með æfðum vinnuflokkum að því. Væri hægt að spara líklega 5–10 millj. kr. bókstaflega á því, ef hægt væri að leggja í þá vinnu næsta sumar, í staðinn fyrir að hætta þessu öllu saman nú og láta þessi tæki fara úr landi, sem þar eru, og leysa upp þá vinnuflokka, sem við þetta erfiða starf hafa unnið, sem hefur verið alveg brautryðjendastarf hér á Íslandi, eins og að bora þessi stóru göng. Það er allt, sem mælir þess vegna með því, að það væri gert kleift að halda áfram nú næsta sumar og undirbúa þriðju virkjun Sogsins.

Það er ekki verið að skylda hæstv. ríkisstj. með þessari brtt. minni til þess að taka svona lán strax næsta sumar. Hún hefði góðan tíma til þess að undirbúa þetta og athuga allar kringumstæður. En með samþykkt svona till. væri því slegið föstu, að vilji Alþingis væri fyrir hendi til, að farið yrði að undirbúa þetta. Og það er meiri hluti landsmanna, sem þarna á sína hagsmuni, þ.e. Reykjavík, Gullbringu- og Kjósarsýsla og allt Suðurlandsundirlendið, þar sem allur atvinnurekstur á þessu svæði meira eða minna stöðvast eftir þennan tíma, sem ég hef nefnt, svo framarlega sem ekki er ráðizt í þessar framkvæmdir í tæka tíð. Það vita allir, sem til þekkja, hve gífurlegu tjóni það veldur núna, að rafmagnið er skammtað, þannig að iðjufyrirtæki verða öðru hvoru að hætta, eða spenna er lækkuð, vélar skemmdar, vélar stöðvaðar. Víða tekur það, þar sem virkileg nýtízku tæki eru, marga klukkutíma að koma í gang aftur verksmiðjum, sem þannig eru stöðvaðar. Það er stórskaði, sem gerður er atvinnulífinu með því að valda slíkum rafmagnsskorti eins og nú er, svo að ég ekki tali um öll þau óþægindi og beina hættu, sem af því getur stafað.

Ég vil þess vegna eindregið mælast til þess í fyrsta lagi, að hæstv. ríkisstj. láti í ljós sína skoðun á því, hvað hún hyggst fyrir í þessum efnum. Ég er síður en svo að bera fram þessa till. til þess, að það kæmi einhver till. bara frá mér um að samþ. þetta. Eins og ég tók fram í upphafi, þá mun ég, ef hæstv. ríkisstj. segir, að hún hafi þetta mál í undirbúningi og ætli sér að leggja eitthvað fyrir þingið um það, með glöðu geði taka mína till. til baka. En hitt vil ég knýja fram, að það komi greinilega í ljós, að það sé verið að gera það í þessum málum, að Reykvíkingar og Sunnlendingar megi treysta á það, að þeir búi ekki við sama vandræðaástandið, þegar önnur virkjun Sogsins verður fullnýtt, eftir 3–4 ár, eins og þeir eiga við að búa núna, en yrði bara miklu tilfinnanlegra þá, vegna þess að áburðarverksmiðjan verður annaðhvort að fá það rafmagn, sem hún á að fá eftir samningum, eða stoppa, og það er dýr leikur. Og þeir, sem þekkja til, hve hart stjórn áburðarverksmiðjunnar hefur eðlilega sótt það að vera trygg með rafmagn, vita, hvað er í húfi, ef þeir eiga að fara að takmarka þannig við hana og hálfeyðileggja þar með reksturinn. Hins vegar getur það ekki gengið af hæstv. ríkisstj. að knýja aðila eins og Sogsvirkjunina til þess að undirskrifa samning, sem vitanlegt er, að hún getur ekki staðið við, nema því aðeins að virkjun Sogsins verði haldið áfram. Það er ekki hægt að tryggja til frambúðar þetta rafmagn, sem áburðarverksmiðjan á að fá og hún þurfti að sanna samkv. samningi, að hún gæti fengið, til þess að fá það lán, sem hér er um að ræða. Ég veit það, að hún þurfti að geta lagt þennan samning fyrir bankana vestan hafs, til þess að þeir létu í té það lán, sem við hér erum að ræða um. En það er bara ekki til neins af ríkisstj. að knýja stjórn Sogsvirkjunarinnar til þess að gera slíkan samning og gera síðan ekki stjórn Sogsvirkjunarinnar mögulegt að standa við slíkan samning, eftir að 3–4 ár væru liðin. Þess vegna vil ég, að það komi greinilega fram, hver ábyrgð hæstv. ríkisstj. er í þessu sambandi, og það sé alveg greinilegt hér fyrir Alþingi og fyrir þeim, sem hér eiga hagsmuna að gæta, að hæstv. ríkisstj. verður að standa við að framkvæma þá ábyrgð, gera Sogsvirkjuninni mögulegt að standa við þann samning, sem hún hefur gert. Ég vildi þess vegna eindregið leyfa mér að óska eftir því, áð hæstv. ríkisstj. léti í ljós, hvað það er, sem hún hefur í undirbúningi viðvíkjandi þessu, hvort við mættum vænta að sjá frv. frá henni á þessu þingi viðvíkjandi framhaldsvirkjun Sogsins og hvort hún er búin að móta sína afstöðu í þessum efnum og hvort henni er ljóst, hver hætta er á ferðum, svo framarlega sem ekki er ráðizt í þriðju virkjunina í tæka tíð.