16.12.1952
Efri deild: 41. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í C-deild Alþingistíðinda. (3598)

170. mál, menningarsjóður

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti.

Við 1. umr. þessa frv. var málið reifað að nokkru leyti af hæstv. menntmrh. Get ég því verið stuttorðari um það nú heldur en ella. Menntmn. er sammála um það, að styðja beri þessa stofnun, eftir því sem nauðsyn er á og fé vinnst til. Hún er einnig sammála um það, að það er hæfilegra og viðkunnanlegra og landinu til meiri sóma að leggja fram beint fé til stofnunarinnar, annaðhvort að hún hafi vissar tekjur af formlegri sölu og gróða ríkisins af áfengi eða þá beint úr ríkissjóði, sem væri heppilegast, heldur en hitt, að lifa á lögbrotum, áfengislagabrotum þegnanna, og það sé alveg háð því á hverjum tíma velgengni þessa sjóðs og aukning bókaútgáfunnar, að sem mest og flest áfengislögbrot séu háð í landinu, svo að sektir komi sem mestar til ríkissjóðs — eða réttara sagt til þessa sjóðs.

Eins og sakir standa virðist þessari stofnun vera allmikils fjár þörf, því að allir vita, hversu geysilega dýrtíð hefur nú aukizt og ekki sízt á sviði bókaútgáfu. Um hinar deildir sjóðsins skal ekki vera fjölyrt hér, því að þar má nokkuð sníða stakk eftir vexti, en þar sem stjórn þessa sjóðs, menntamálaráð, hefur hafizt handa um ýmsar merkar og ágætar útgáfur og menningarrit fyrir þjóðina, þá er erfitt að hætta þar við í miðjum klíðum, og í raun og veru er þjóðinni mjög nauðsynlegt að fá þau rit sem fyrst út. Það er búið að gefa út nú þegar fjögur bindi af Íslandssögu hinni lengstu, sem gefin hefur verið út, og menn bíða langeygðir eftir því, að meira komi af því riti, sem á að verða alls 10 bindi. Þegar er hafizt handa um Íslandslýsingu, mjög rækilega, sem einnig er mjög nauðsynlegt verk, þar sem við nú búum við lýsingu Þorvalds Thoroddsens á landinu, sem var ágæt og prýðileg á sínum tíma, en það leikur ekki á tveim tungum, að við erum orðnir á eftir flestum öðrum þjóðum um að hafa reglulega góða og fjölþætta lýsingu af landi okkar. Ég hygg jafnvel, að þar standi Grænland framar undir hinni svo kölluðu „ágætu stjórn“ Dana með lýsingu af sínu landi. Þó að hún sé ekki færð í eina sérstaka bók, þá er í því riti, sem snertir það, líklega öllu rækilegri lýsing af flestum svæðum Grænlands heldur en nokkurn tíma er hér á voru landi, Íslandi. Þetta má ekki svo búið standa. Menningarsjóður er búinn að ráða sér ritstjóra, Eyfirðing, ágætan að því er virðist, vísindamann að mörgu framarlega, Steindór Steindórsson, og er þegar farið að hefjast handa og komnar nokkrar ritgerðir um það efni, sem þegar er búið að leggja fram fé til og kaupa. Í þriðja lagi er það, að historisk-topografiska lýsingu, sögulega staðháttalýsingu, eigum við ekki aðra hér, heldur en Kaalund gamla, sem nú er þegar uppseldur, og þótt góður væri á sínum tíma, mun hann þykja ærið úreltur. Nú er þegar búið að ráða mann til framkvæmda um að gefa út sjálfstæða íslenzka bók um það efni, sem verður sennilega viðlíka stór og Kaalund, í tveimur bindum, og virðist sá maður vera mjög vel að sér í þeirri grein, og ætti að gera ráð fyrir, að sú bók yrði mörgum til gagns og ánægju. Einnig er það leikritaútgáfa þessa sjóðs, sem sýnist vera mörgum til gagns og gleði, og fleiri bækur eru slíkar, sem hann hefur á prjónunum nú og hefur gefið út, en þessar bækur, fræðibækur margar, er nauðsynlegt að séu ekki seldar við ofurverði, og því er það, að nauðsynlegt er og rétt að styrkja, eftir því sem föng eru á, þetta fyrirtæki.

Við nm. erum, eins og nái. ber með sér, nokkuð bogavarir um þetta atriði og vildum nú skjóta því undir hv. deild, hvort hún vildi ekki við þessa umr. samþykkja frv. eins og það nú liggur fyrir, en n. mun taka fyrir 3. umr. frv. til athugunar, hvort ekki sé heppilegra að breyta því á annan veg, t. d. þannig, að framlagið komi beint úr ríkissjóði, en óskum þess helzt, að ekki verði farið að koma með slíkar breytingar nú við 2. umr., því að það er alltaf tími við 3. umr. til að athuga þetta, enda er ekki víst um nema fram komi fjárframlag nú á fjárlögum til sjóðsins, svo að það breytist þá nokkuð öll aðstaða, og verður sennllega beðið með 3. umr., en þá verður komið fram, hvað hæstv. stjórn og fjvn. vill gera á því sviði. Þess vegna er það ósk okkar, að nú við þessa umr. verði frv. samþykkt eins og það liggur fyrir og n. hefur flutt það, en við 3. umr. verður alltaf tækifæri til að koma með brtt., ef hv. dm. þykir ástæða til þess, eða n. jafnvel getur tekið til sinna ráða um það atriði, en eins og allir sjá, er nú ástand svoIeiðis um tekjur sjóðsins, að ekki má við svo búið standa, nema því aðeins að hann leggi niður sína bókaútgáfu að mestu leyti.