16.12.1952
Efri deild: 41. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í C-deild Alþingistíðinda. (3601)

170. mál, menningarsjóður

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég vil leiðrétta það hjá hv. þm. Barð., að hér er ekki í raun og veru verið að ræða um hálfa milljón, heldur er það í hæsta lagi í kringum 300 þúsundir, því að þegar hefur sjóðurinn 200 þúsundir eða nálægt því í sektafé, sem rynni auðvitað til ríkissjóðs, ef þetta frv. gengur í gildi, og verður séð um það, eins og í raun og veru má líka sjá á nál. okkar nm.

Ég held, að það skilji ekki svo mjög mikið á um það hjá okkur hv. þm. Barð., hvert ber að stefna í þessu, en ég vil sérstaklega, eftir því sem ég sagði áður líka, óska þess, að hann vildi draga þessa brtt. sína aftur til 3. umr., þar sem við nm. gefum í skyn, að við munum endurskoða þessa yfirlýsingu í nál. okkar fyrir 3. umr. Það er þannig, eins og ég drap á líka í fyrri ræðu minni, að það getur komið fyrir, að þessi hv. þm. sem formaður fjvn. eigi eða komi til að eiga drjúgan þátt í því að ákveða í þetta sinn skömmtun til sjóðsins. Ég geri ekki ráð fyrir því yfirleitt, að þetta frv. verði afgreitt héðan frá deildinni, fyrr en komin er nokkurn veginn vissa um það, hver sú greiðsla verður og það beint frá ríkissjóði eða hvort hún verður nokkur. Þess vegna er það, að mér þætti það heppilegast frá mínu sjónarmiði séð, og ég veit það, að samnefndarmenn minir eru á sömu skoðun, að við fengjum hér nokkurn veginn ákveðna yfirlýsingu um, hvað deildin vill í þessu efni, hvort hún í raun og veru vill styðja þennan sjóð og þessar útgáfur, sem nú er verið að koma fram með, og ég hygg, að málið geti leystst, þótt á annan hátt kunni að verða heldur en með formlegu samþykki laga, og eigi ef til vill hægara með að leysast, svo að vel fari hjá öllum, einmitt með því að fá ákveðna og styrka viljayfirlýsingu hjá deildarmönnum. En sem sagt, ég tel það ekki viðunandi að hafa þessar sektartekjur til Menningarsjóðs. Ég tel það heppilegra — og við teljum það allir nm. heppilegra, að greiðslan komi beint frá ríkissjóði, heldur en frá áfengissölu ríkisins, ef því verður við komið, og þess vegna er það þannig, að við óskum eftir því núna að fá viljayfirlýsingu þingdeildarinnar um stefnuna, hvort það á að styrkja Menningarsjóð eða ekki nú, en erum tilbúnir og meira að segja í samráði við hv. þm. Barð. að taka ákvörðun og tala við hann, ef hann tekur sína brtt. aftur núna til 3. umr. Ég vænti þess fastlega, að við fáum núna ákveðin svör og Menningarsjóður fái einnig frá deildinni svar um það, að hún vilji styrkja hann, ef ekki á annan hátt, þá á þennan, sem hér liggur fyrir.