16.12.1952
Efri deild: 41. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í C-deild Alþingistíðinda. (3603)

170. mál, menningarsjóður

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Það var ekki út af frv. sjálfu, sem ég ætla að taka til máls. Það var út af ummælum hv. þm. Barð. um það, að prenta beri hér mikil og mörg gögn í þessu máli. Það er auðvitað ágætt og gott að hafa þau prentuð, en ég kann betur við þann sið að safna gögnum til nefndarinnar og gefa aðeins útdrátt úr þeim, eins og í raun og veru er gert í grg. þessari. Ég er á þeirri skoðun, að það sé miklu heppilegra fyrir landslýðinn að verja fé í það að gefa út menningar- og merkisrit eins og til að mynda Menningarsjóður er að gefa út heldur en allt of langdregin og margupptuggin ummæli og álitsgerðir frá kannske 6–7 aðilum, sem hver étur upp eftir öðrum, og er ekki nema til kostnaðar og erfiðleika að gefa slíkt út á prenti. Þess vegna stendur þannig á því, að við förum jafnan, þar sem ég er frsm., hóflega í að láta prenta nema það, sem ég sé að er nauðsynlegast fyrir málið, en í þessu máli skal hv. þm. Barð. fá til umráða öll þau gögn, sem hér liggja fyrir hjá n., til lestrar og lærdóms.