03.02.1953
Efri deild: 64. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í C-deild Alþingistíðinda. (3630)

212. mál, kirkjubyggingasjóður

Flm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Ég hafði nú hugsað mér að fara nokkrum orðum um þetta frv., um leið og ég lýsti því, en hæstv. forseti hefur óskað eftir því, að framsöguræðan taki ekki langan tíma. Ég sé nú ekki samt annað en að ég verði að fara nokkrum orðum um málið, en ég skal reyna að stytta það eftir því, sem ég hef möguleika til.

Í stjórnarskrá íslenzka lýðveldisins segir svo í 62. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.“

Í samræmi við þetta greiðir íslenzka ríkið prestum þjóðkirkjunnar laun, kostar biskupsembættið og fleira, sem þeim málum tilheyrir. Og allar þær greiðslur, sem íslenzka ríkið greiðir nú til kirkjumála samkv. fjárlögum þessa árs, eru tæpar 6 millj. kr. Ekkert af þessu fé fer til kirkjubygginga af þeirri einföldu ástæðu, að ríkisvaldið, sem samkv. stjórnarskránni skal þó vernda og styðja þjóðkirkjuna, hefur engin afskipti af kirkjum, byggingu þeirra eða viðhaldi. Það viðfangsefni er fengið söfnuðum landsins, sem í langflestum tilfellum eru eigendur kirknanna nú orðið. Það er hverjum söfnuði skylt að hafa guðsþjónustuhús innan sóknarinnar, þar sem guðsþjónustur geta farið fram og önnur kirkjuleg starfsemi. Þessir hópar manna, söfnuðir, eru mismannmargir um allt land, en hafa þó þá skyldu á herðum að eiga að halda við og byggja kirkjur. Safnaðarmeðlimir eru allir þeir ungir og gamlir, sem lögheimili eiga í viðkomandi sókn og tilheyra hinni íslenzku þjóðkirkju, en gjaldskyldir til kirkju sinnar eru þeir, sem náð hafa 16 ára aldri og ekki eru eldri en 67 ára. Gjald það, sem hver gjaldskyldur einstaklingur greiðir til kirkjunnar, ákveður ríkisvaldið. Það fer ekki eftir þörfum kirkjunnar á hverjum stað, heldur er það fyrir fram ákveðið með lögum, og ef það ekki nægir til rekstrar og viðhalds kirkjunnar eða til greiðslu þess kostnaðar, sem af hinni kirkjulegu starfsemi leiðir í sókninni, hefur sóknarnefnd heimild til að innheimta hundraðsgjald af útsvörum sóknarmanna, en undanskildir þeirri útsvarsgreiðslu eru þó allir ópersónulegir aðilar og útsvarsgreiðendur,félög og fyrirtæki, og dregur það mikið úr gildi þessarar heimildar. En þó er hún til bóta, þegar í vandræði er komið.

Samkvæmt því, sem ég hef nú drepið á, er þetta staðreynd: Ríkisvaldið viðurkennir og heitir að styðja hina íslenzku þjóðkirkju, og þetta er staðfest með stjórnarskrárákvæði enda greiðir ríkið prestum laun og sér þeim fyrir bústöðum að nokkru leyti. Kirkjuhúsin eru að öllu leyti falin umsjá söfnuðúm landsins. Þéir eiga að byggja þau, halda þeim við og annast rekstur þeirra að öllu leyti, greiða starfsfólki safnaðarins laun, og er þetta allt saman töluverður kostnaður. Tekjur kirknanna, sóknargjöldin, eru ákveðnar með lögum án nokkurs tillits til fjárþarfa þeirra til viðhalds og rekstrar. En sóknarmenn hafa fulla heimild til að neita að greiða til kirkju sinnar, þurfa ekki annað en segja einfaldlega, að þeir séu ekki í þjóðkirkjunni, og gengur þá greiðsla þeirra til Háskóla Íslands. Sóknargjöldin voru samkv. lögum s. l. ár sem næst 20 kr. á ári. 20 kr. á ári eru ekki miklir peningar í dag. Það má benda á það, að maður, sem vinnur fyrir venjulegu verkamannakaupi, mun vera rúmar 83 mínútur að vinna fyrir þeirri upphæð, sem honum er gert að skyldu að greiða til kirkju sinnar á ári.

Af þessu, sem ég hef nú sagt, er ljóst, að tekjumöguleikar safnaða landsins eru ekki meiri en svo, að gott má telja, ef tekjurnar hrökkva til að greiða rekstrarkostnað við guðsþjónustuhald og venjulegt viðhald kirknanna. Ef um meiri kostnað er að ræða, t. d. byggingu nýrra kirkna, mikla viðgerð þeirra eða endurbyggingar, ber viðkomandi söfnuði upp á sker hvað fjárhaginn snertir. Fámennir söfnuðir ráða ekki við að byggja kirkjur, þótt þeir séu fulllr áhuga á málefninu. Þetta er öllum þeim, sem þessum málum eru kunnugir, ljóst, og þeim er einnig ljóst, að úr þessu verður að bæta.

Þegar um kirkjubyggingar er að ræða, er hvergi lán að fá til byggingarinnar nema í hinum almenna kirkjusjóði, en lán þau, sem sjóðurinn veitir, eru mjög lág, miðað við byggingarkostnaðinn. Er þá ekki um annað fé að ræða, eins og nú standa sakir, en það, sem safnaðarfólk leggur sjálft af mörkum með frjálsum samskotum og margháttaðri vinnu og fyrirgreiðslu. En hvað góður sem viljinn er, hljóta efnin að ráða, og fámennir söfnuðir ráða ekki við málið. Verður þá ekki annað fyrir en að biðja ríkisvaldið um hjálp. Fer það nú mjög í vöxt, að söfnuðir leiti til Alþingis um styrki vegna kirkjubygginga, sem hv. alþm. sjá sér ekki fært að sinna. Vil ég benda á, að fyrir Alþ. því, sem nú hefur fyrir nokkrum dögum gengið frá fjárlögum fyrir yfirstandandi ár, þar sem gjöldin eru áætluð 422 millj. kr. eða nálægt því, lágu fyrir fjárbeiðnir frá fimm kirkjum um byggingarstyrk að upphæð samtals 210 þús. kr., sem ekki þótti nokkur leið að verða við. Mér dettur nú ekki í hug að halda því fram, að allir þeir hv. alþm., sem greiddu atkv. á móti fjárbeiðnum kirknanna í þetta sinn, hafi gert það vegna þess, að þeir séu á móti kirkju og kirkjulegri starfsemi í landinu, heldur lnun það vera hitt, að þeir sjá, að þarna er vandamál á ferðinni, sem leysa verði á annan hátt en þann að veita fjárfúlgur hvert sinn, sem um er beðið. Með því væri gefið fordæmi, sem leitt gæti út í öfgar, og skal viðurkennt, að þetta eru nokkur rök, þótt veikluleg séu og haldlítil.

Það frv., sem hér liggur fyrir, fer inn á nýjar leiðir í þessu vandamáli. Hér er gert ráð fyrir að stofna sjóð, sem ríkissjóður greiði til árlega 500 þús. kr. í næstu 20 ár. Sjóður þessi láni síðan eftir vissum reglum til kirkjubygginga á landinu vaxtalaus lán til 50 ára. Lánin veitast eftir stærð kirknanna, og gerir það hægara fyrir um áætlanir á lánsupphæðum. Þá er gert ráð fyrir, að kirkjur, sem endurbyggðar eru eða verulega viðgerð fá, geti einnig fengið lán úr sjóðnum. Verði frv. þetta að iögum, tekst ríkissjóður þá skyldu á hendur að greiða árlega í sjóðinn 500 þús. kr. í næstu 20 ár, eða samtals 10 millj. kr. Þyki einhverjum hv. alþm. þetta vera mikil upphæð, sem varið sé í þessu skyni, má benda þeim á það, sem ég minntist hér á áðan, að fyrir Alþ. lágu fjárbeiðnir frá fimm kirkjum um 210 þús. kr. frá öllum. Þessar beiðnir og miklu hærri berast áreiðanlega hv. Alþ. á næstu árum, ef ekkert verður að gert. — munu berast látlaust og í vaxandi mæli. Það er alveg víst, að hv. alþm., hverjir sem þeir verða á næstu árum, geta ekki til lengdar staðið á móti þessum réttmætu kröfum, sem koma frá þúsundum landsmanna úr fjölmörgum byggðum landsins. Með þessu frv. er stefnt að því að geta mætt þessum kröfum og beiðnum, sem ég nú hef minnzt á, — mætt þeim að fullu, án þess að ríkissjóður finni til útgjaldaaukans. Með samþykkt þessa frv. er stigið stórt spor í menningarátt, hinu áhugasama safnaðarfólki úti um byggðir landsins er rétt örvandi hönd til að halda við og hafa í heiðri hina gömlu menningarstofnun íslenzku þjóðarinnar, kirkjuna.

Þó að nú sé áliðið þings og þingi senn lokið, þykir mér betra að koma þessu máli af stað. Það er þó kynning á því, og hv. alþm., sem nú eiga von á því að tala við kjósendur sína um allt land á næsta sumri, fá tækifæri til þess að kynnast hug kjósenda sinna um þetta mál. Og ég er í litlum vafa um það, að það verða margir hv. kjósendur, sem ekki hafa á móti því, að þm. þeirra styðji að þessu máli. — Ég hefði viljað fara nokkru nánar út í frv., en ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri. Ég vísa til grg., sem með frv. er, og ég vil þá að lokum leyfa mér, herra forseti, að óska eftir, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. menntmn.