04.02.1953
Sameinað þing: 36. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1605 í B-deild Alþingistíðinda. (3657)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég kom inn í fundarsalinn, meðan hv. þm. Ísaf. var með sína fyrirspurn, en þóttist þó skilja, að það, sem hann var að spyrja um, væri till. þær frá brezku stjórninni, sem utanríkisráðherra Breta hafði nefnt að væru á leiðinni til Íslands fyrir nokkrum dögum. Ég vil geta þess, að þessi bréf, till. eða hvað á að kalla það, — það er eiginlega ekki hægt að kalla það till., — eru þegar komnar og eru nú til athugunar hjá ríkisstj. Hins vegar eru nú ekki viðstaddir þeir ráðh. hér á fundi, sem þetta mál sérstaklega heyrir undir, og að sjálfsögðu er ekki aðstaða nú til þess að segja neitt frekar um þetta.