03.02.1953
Efri deild: 64. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1606 í B-deild Alþingistíðinda. (3659)

Afgreiðsla mála úr nefndum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þann 13. jan. var vísað til hv. samgmn. frv. á þskj. 515 um samningsumleitanir við Eimskipafélag Íslands h. f. um strandferðir. Það er nú liðinn nærri heill mánuður síðan n. fékk þetta mál til meðferðar.

Hér er um að ræða mál, sem gæti sparað ríkissjóði hvorki meira né minna en 5–6 millj. kr., ef það næði fram að ganga. Og hefði ég nú haldið; að ríkissjóði veitti ekkert af að þiggja þá upphæð til þess að mæta einhverju af þeim útgjöldum, sem að ófyrirsynju hefur orðið að taka inn á fjárlagafrv. við afgreiðslu þess. Ég vil því vænta þess, að hæstv. forseti sjái svo um, að n. skili áliti, og vænti þess, að hér verði ekki slitið fundum í þessari hv. d., fyrr en það álit liggur fyrir.

Ég ásaka slíka meðferð á málum eins og hér hefur verið viðhöfð, að láta líða svo langan tíma í jafngóðu máli, án þess að það næði fram að ganga, og vænti, að hæstv. forseti styðji mig í því að knýja málið fram.

Þann sama dag var einnig vísað til hv. menntmn. frv. um breyt. á l. um útvarpsrekstur ríkisins. Það átti einnig að spara ríkissjóði allmikið fé. Það hefur ekki heldur heyrzt neitt í sambandi við það mál, og vænti ég þess einnig, að hæstv. forseti beiti sínu forsetavaldi til þess að knýja fram bæði þessi mál, áður en Alþ. er slitið.