03.02.1953
Efri deild: 64. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1609 í B-deild Alþingistíðinda. (3666)

Afgreiðsla mála úr nefndum

Forseti (BSt):

Út af þeim umr., sem hér hafa orðið utan dagskrár um afgreiðslu nefnda, vil ég nú óska þess, að nefndir skili yfirleitt álitum um þau mál, sem til þeirra er vísað. En viðvíkjandi þeirri kröfu hv. þm. Barð., að ég sem forseti d. sjái um það, að tiltekið mál verði afgr. í d., áður en þingi er slitið (Gripið fram í.) — það hefur forseti ekki á valdi sínu. Hann getur óskað eftir því við nefndirnar, en hefur það ekki að öðru leyti á valdi sínu. Hann getur ekki neytt nefndir til að skila álitum. En ég skildi nú hv. þm. svo, að hann óskaði eftir, að ég sæi um það, að málið væri tekið fyrir, ef nefnd hefði t. d. ekki skilað áliti, og afgr. í deildinni. Það getur forseti deildar að sjálfsögðu ekki ábyrgzt, þegar mjög er liðið á þingtímann, því að hann hefur ekki á valdi sinu, hvenær þingi er slitið. Ef deildarforseti hefði það, þá mætti ætlast til þess af honum.

Út af kvörtun hv. 6. landsk. þm. stæði mér nú næst að svara, en ég get það tæplega frá þessum stað, en hans ósk mun verða tekin til athugunar.