06.02.1953
Sameinað þing: 41. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1618 í B-deild Alþingistíðinda. (3701)

Þinglausnir

forseti (JPálm):

Það Alþingi, sem nú er að ljúka störfum, er meðal stytztu þinga, sem háð hafa verið á síðari árum. Hefur það þó haft til meðferðar mjög mörg vandasöm og örðug mál. En það hefur ekki haft við neinar deilur að stríða um stjórnarbreytingu, og veldur það mestu um, að störfum þess hefur þokað svo fram sem raun er á.

Þing og stjórn hefur að þessu sinni átt við að etja margvíslega örðugleika, sem stafa af örðugu árferði, viðskiptastríði frá erlendu stórveldi og stéttarlegu ósamlyndi meðal þjóðarinnar. Allt þetta hefur haft það í för með sér, að störf og aðstaða Alþingis hefur verið miklu ógeðfelldari, en oft áður, og margt af því, sem samþ. hefur verið, ber eðlilega svip af því örðuga ástandi, sem við hefur verið að fást. En fyrir utan það, sem þannig er vaxið, hefur þetta þing afgreitt margvíslega löggjöf og ákvarðanir til nytja og bjargræðis fyrir atvinnu- og fjármálalíf landsins. Mun ég ekki hér gefa neina lýsingu af þeim málum, sem þingið hefur afgreitt, eða hinum, sem eftir liggja óafgreidd. Þeim hefur öllum verið lýst fyrir alþjóð af fréttamanni Alþingis og um mörg þeirra skrifað í blöðum. En ég vil í umboði Alþingis óska þess, að sú löggjöf og þær ákvarðanir, sem þetta þing hefur afgreitt, verði þjóð vorri til gagns og gæfu. Ég vil óska landi voru og þjóð árs og friðar, gæfu og gengis á þessu ári og framvegis. Ég óska þess, að atvinnuvegir þjóðarinnar til lands og sjávar megi blessast og blómgast betur, en verið hefur um skeið.

Þetta þing mun að öllum líkindum verða hið síðasta á yfirstandandi kjörtímabili. Það veit því enginn um, hverjir af núverandi alþm. verða á næsta þingi. En ég vil flytja öllum hv. þm. beztu þakkir fyrir góða og ánægjulega samvinnu við mig sem forseta, og ég óska öllum hv. þm., hæstv. ríkisstj. og öllu starfsfólki Alþingis góðrar heilsu og persónulegrar hamingju. Þeim þingmönnum, sem í fjarlægðinni búa, óska ég góðrar ferðar og góðrar heimkomu.