04.12.1952
Efri deild: 34. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (3709)

17. mál, þingsköp Alþingis

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég er nú ekki jafnsannfærður um það og okkar ágæti hæstv. forseti, að þessar breyt. allar séu til bóta. Mig skortir sem sagt rök fyrir því, að það sé til bóta að hraða svo meðferð mála sem hér er ráðgert. Ég veit ekki til þess, að það hafi nokkurn tíma komið að sök, að þær reglur væru hafðar, sem um þetta hafa verið. Það má ef til vill segja, að í eitt eða tvö skipti hafi einhver mál dagað uppi af þessum sökum, en þá er það vegna þess, að það hefur ekki verið ýtt á eftir þeim af nægri festu eða vilja til þess að koma þeim fram. Og ég tel það yfirleitt mjög misráðið að gefa þm. ekki fullkomið færi á því að átta sig á málum, áður en þau hafa framgang, og eins og málafjöldi nú er mikill, þá kann oft þannig að standa á, að það veiti ekki af tveimur nóttum og þeim tíma, sem á milli er, til þess að átta sig á málunum. Það má segja, að þetta skipti ekki öllu máli, vegna þess að vitanlega mundu glöggir og góðir forsetar halda þannig á að hraða ekki málum meira en vert er og atvik standa til, alveg eins og forsetar hafa nú með samþykki deildar og ríkisstjórnar möguleika til þess, þrátt fyrir ákvæði þingskapa, að hraða málum meira en þingsköp ætlast til, ef sérstök nauðsyn er. Hér er ekki um annað að ræða heldur en almenna reglu, sem segja má að sé til leiðbeiningar, en alls ekki þannig, að alltaf verði eftir henni farið. En eins og ég segi, mig skortir rökin fyrir nauðsyn á þessari breytingu, og ég er alveg ósannfærður um, að það sé til bóta að breyta þessu. Ég vil þó taka fram, að það er ekki hægt að gera þetta að verulegu kappsmáli. Um þetta sýnist sitt hverjum, og það má búast við því, að forsetar verði ætíð svo vandaðir menn, ef svo má segja, að ekki skapist veruleg hætta fyrir störf þingsins, þó að þessi háttur væri tekinn upp.

Eins vil ég benda á það, að það er auðvitað hæpið, að það sé til bóta að draga úr þeim áhrifum, sem ríkisstj. hefur á framgang þingmála, með því að fella það úr l., að hennar samþykki þurfi til afbrigða frá þingsköpum. Hæstv. forseti talaði um það hér við 1. umr., að þetta væru leifar frá því, að við lutum hér erlendu valdi og stjórn. Svo kann að vera. En ég efast þó mjög um, að hæstv. forseti hafi kannað það, hvort slík ákvæði eru eða eru ekki í þingsköpum annarra þjóða, sem ekki hafa lotið slíkum yfirráðum. Ég hef ekki kannað það og skal ekkert um það segja, en ég efast um, að hæstv. forseti hafi kynnt sér þetta. Hitt veit ég, að það hlýtur svo að vera, að ríkisstj., sem er þingbundin eins og hér er, hlýtur ætið að hafa mjög mikil áhrif á gang þingstarfa. Það er t.d. vitað, svo að við tökum móðurland þingræðisins í Bretlandi, að þar ræður ríkisstj. að langsamlega mestu leyti öllum starfstíma þingsins og þingmenn hafa ekki til eigin umráða nema örlítinn tíma. Mestallur tíminn fer til að ræða og afgreiða þau frv., sem stjórnin leggur fyrir þingið, og ég held, að við séum nú smám saman að reka okkur á það hér, að ef þinghald á að vera skaplegt, þá verður þingið ekki síður í störfum sínum að lúta forustu ríkisstj. heldur en sínum eigin forseta. Og við höfum einnig rekið okkur á það, að á þeim tímum, þegar mikill glundroði hefur verið í stjórnarfari, þá hafa þingin orðið miklu lengri heldur en ef stjórn er sæmilega samhent og getur haldið vel á um störf þess. Ég efast þess vegna mjög um, að þessar brtt. séu til bóta. Það má segja eins og um hinar, að það skipti ekki verulegu máli, vegna þess að ráðherrar hafa yfirleitt ekki beitt þessu synjunarvaldi sínu. Þó man ég nú ekki betur, en það hafi komið fyrir í eitt skipti, að það hafi með því að beita þessu valdi tekizt um sinn að forða því, að um 30–40 nýjum embættismönnum væri bætt á ríkissjóðinn, eins og einu sinni stóð til að gera á síðustu dögum þingsins að alveg óathuguðu máli.

En ég hefði talið miklu nær fyrir hv. þingnefnd, úr því að hún fór í slíka endurskoðun þingskapa eins og hún gerði, að athuga betur, en verið hefur, hvort núverandi háttur okkar á umr. er ekki orðinn úreltur, hvort það þarf ekki að gera frekari ráðstafanir til þess, heldur en hér hefur verið gert, að umr. dragist ekki úr hófi fram, að sá háttur verði, að það séu sérstakir fulltrúar úr hverjum flokki, sem aðallega ræði hvert mál, en ekki jafntakmarkalaus tími til umr. eins og nú á sér stað, sem oft getur leitt til mikilla tafa. Það má auðvitað segja, að það eru ákvæði í þingsköpum, sem gera þetta mögulegt, en vel mætti athuga fleiri leiðir í því. Eins er það mikill vafi, hvort því á að halda við, sem verið hefur, en segja má raunar, að ekki sé hægt að breyta nema með breytingu á stjórnarskránni, eins og nú standa sakir, að ráðherrar megi tala eins oft og þeir vilja. Það er mikil spurning, hvort það ætti ekki frekar að hafa þann hátt á, að þeir ættu ætið að tala fyrst og siðast í málum, til þess að gefa upplýsingar og annað slíkt, en ekki blanda sér jafnmikið í umr. og tíðkað hefur verið. Þessar athugasemdir mínar miðast ekki við núverandi þm. eða núverandi ráðherra, heldur eru aðeins almennar athugasemdir um þá galla á þinghaldi, sem menn hljóta að verða varir við, við það að vera hér alllangan tíma og kynna sér, hvernig þingstörfum er háttað.

Ég verð þess vegna að segja, að því fer fjarri, að ég telji, að n. hafi unnið gott verk með sínu starfi. Ég held, að hennar starf hafi verið, sem sagt, ósköp lítilvægt og hefði alveg eins mátt beina hennar starfi að því að afgreiða önnur þörf mál, sem fyrir n. hafa verið, í stað þess að vera að þeim einskisverða sparðatiningi, sem n. hefur lagt í eftir ráðum hæstv. forseta, sem hefur mjög missýnzt í þessum efnum að mínu viti. Eins og ég segi, þá er þetta flest svo lítilvægt, að það borgar sig naumast að vera að eyða tíma í það að vera á móti því, en mér finnst starfið ósköp lítils virði og gengið fram hjá flestu því, sem þýðingu hefur.

Svo vil ég benda á það, að það er ein till., sem ég tel að geti ekki staðizt, þar sem lagt er til, að fallið sé frá fyrirmælunum um ávörp. Það er að vísu rétt, að það er orðið úrelt að tala um ávarp til konungs, en í 38. gr. stjórnarskrárinnar stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Einnig má hvor þd. eða sameinað Alþ. senda forseta lýðveldisins ávarp.“ Þarna er ráðgert, að ávörp eigi sér stað einnig til forseta lýðveldisins, og meðan þetta ákvæði er í stjórnarskránni, þá er auðvitað fráleitt að fella fyrirmælið niður. Ég vildi því mælast til þess, hvað sem öðru liði, að hv. n. taki þessa brtt. aftur til 3. umr. og breyti henni til samræmis við það, að nú er um forseta lýðveldisins að ræða, en ekki konung.

Eins og ég sagði, þá tel ég, að hér sé ekki um neitt stórmál að ræða, og legg mjög litla áherzlu á, hvernig með þetta verður farið, en ég tel, að árangur af störfum nefndarinnar sé nauðaómerkilegur.