12.11.1952
Sameinað þing: 12. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í D-deild Alþingistíðinda. (3714)

27. mál, smáíbúðarhús

Flm. (Finnbogi R. Valdimarsson):

Herra forseti. Hæstv. fors. og félmrh. gat þess síðast, að það væri hans skoðun, að það væri ekki heppilegt, að byggingarstarfsemin í landinu beindist eingöngu að byggingu smáíbúðarhúsa. Og held ég, að ég hafi gert grein fyrir því í ræðu minni áðan, að það væri einnig mín skoðun, og það eina, sem ég hefði að athuga við það, að sú starfsemi hefði orðið í svo stórum stíl sem raun hefði á orðið á þessu s. l. ári, væri það, að menn hafa ekki fengið leyfi til þess að byggja með öðrum hætti, en þessi umræddu smáíbúðarhús. Það er það, sem ég tel varhugavert að framhald verði á vegna þessara ströngu ákvæða fjárhagsráðs. Vegna þess að fjárhagsráð neitaði um leyfi til annarra bygginga en þessara, en hefur neyðzt til að gefa leyfi fyrir þessum sérstöku húsum, þá hefur byggingarstarfsemin beinzt nær eingöngu, meira en að 3/4 hlutum að minnsta kosti, að því, að menn byggi þessi smáibúðarhús. Það er ekki það, að ég sé á móti því eða hafi nokkurn tíma verið, að menn byggi sér þessi smáíbúðarhús og vinni að þeim sjálfir, eða telji varhugavert, heldur það, að byggingarstarfsemin beinist eingöngu að því. Í mínu byggðarlagi var byrjað að greiða fyrir þessum smáíbúðarhúsum og að menn gætu unnið að þeim sjálfir löngu áður en það var gert hér í Reykjavík og löngu áður en hæstv. ríkisstj. gerði neitt til þess að greiða fyrir því, að menn gætu leyst sin byggingarmál með þeim hætti. Enda var ekki slakað á þessum leyfisveitingum, fyrr en það var komið í ljós, að fjárhagsráði, eftir að það hafði starfað í þrjú ár, hafði tekizt að koma í veg fyrir það, að menn gætu leyst sín húsnæðismál með byggingum, þannig að það voru á árunum 1950 og 1951 ekki veitt nema 500 leyfi til íbúðabygginga, þó að menn viti, að það þarf að byggja um 1.500 íbúðir í landinu á hverju ári. — Ég skal ekki ræða frekar um það, en snúa mér að því, sem hæstv. forsrh. hafði að athuga um mína framsöguræðu fyrir þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir.

Hæstv. ráðh. sagði, að það hefði gætt misskilnings hjá mér um athafnir fjárhagsráðs og aðgerðir í þessu máli. Ég verð að segja, að mér virtist af ræðu hæstv. ráðh., að hann hefði ekki til fulls kynnt sér framkomu fjárhagsráðs og athafnir í þessu máli. Hann virtist halda, að það væru aðeins byggingar samkvæmt einni teikningu, sem hér væri deilt um. Þetta er mikill misskilningur og sýnir, að hæstv. ráðh. hefur alls ekki kynnt sér málið. Hér er um öll þau hús að ræða, sem eru 80 m2 að gólffleti, en það er hámark þeirrar hússtærðar, sem fjárhagsráð hefur leyft í þessum flokki bygginga. Hámark rúmmáls þessara húsa var ákveðið með auglýsingu fjárhagsráðs 10. sept. í fyrra 260 m3. Af því leiddi, að rishæð þessara húsa mátti ekki vera nema einn metri. Eftir að fjárhagsráð hafði gefið þessar reglur út, þá uppgötvaði það, að þessi rishæð, einn metri, gaf ekki vatnshalla, og neyddist þess vegna til þess að breyta því með nýrri auglýsingu, þannig að menn gætu þó með sérstakri undanþágu og með því að sækja um sérstaklega fengið að hafa hærra ris á húsi sínu heldur en þennan eina metra, sem er ekki vatnshalli.

Mér hefur verið tjáð, að fjárhagsráð hafi ekki, áður en það gaf út reglur sínar í september í fyrra um stærð og gerð þessara húsa og þær takmarkanir, sem væru á leyfunum, leitað álits neinna sérfróðra manna, enda gæti það varla verið, því að þessar reglur, eins og þær voru gefnar út fyrst og eins og þær hafa verið þar til þeim var breytt nú fyrir skömmu, voru svo fjarstæðukenndar, að það gæti varla komið til mála, að nokkur byggingarfróður maður hefði fjallað þar um. Mönnum er það meira að segja ráðgáta, hvernig stendur á því, að fjárhagsráð hefur getað sett slíkar reglur. Menn vita ekki annað en að það sitji fimm menn í fjárhagsráði, sem allir hafi heilbrigða og fulla skynsemi, en það er ómögulegt að sjá fulla skynsemi í þeirri reglu að leyfa mönnum ekki að hafa einu sinni svo mikið sem vatnshalla á þökum húsa sinna, og þegar það eru um 1.000 hús á ári, sem þannig á að byggja, þá er það alls ekki vansalaust mál, að ríkisvaldið, eða fjárhagsráð í þess umboði, banni mönnum að hafa vatnshalla á húsum sínum. En þetta gerði ráðið með auglýsingu sinni í september í fyrra, og það hafði ekki hvikað frá því; það hafði aðeins veitt undanþágu frá því, ef menn sóttu um það, en reglan var sú þangað til nú, eftir að þessi till. kom fram.

Hæstv. ráðh. taldi, að þetta hefði verið afgert mál, áður en þessi till. kom fram hér á Alþ. Ég get nú sagt honum, að ég leitaði upplýsinga um það, skömmu áður en þing kom saman, hjá fjárhagsráði, hvort fjárhagsráð mundi ætla sér að halda fast við þessa heimskulegu reglu um gerð þessara húsa, sem það hafði haldið fast við allt árið síðan í september í fyrra. Mér var sagt, að það mundi verða, því að ríkisstj. hefði þegar fjallað um það mál. Rétt um sama leyti sendi fjárhagsráð út kærur á fjölda manna til lögreglustjóra víðs vegar um land og krafðist þess, að þeir yrðu teknir fyrir og dæmdir til sekta að viðlögðu fangelsi samkv. fjárhagsráðslögum fyrir að hafa haft þök húsa sinna hærri en ráðinu hafði þóknazt að ákveða. Þetta var gert rétt áður en þing kom saman og var það síðasta, sem ég vissi um aðgerðir fjárhagsráðs í þessu hneykslismáli. En hvernig stóð á því, ef þetta mál hefur verið afgert um það bíl sem þing kom saman, að fjárhagsráð var þá að krefjast sektardóma og fangelsisdóma yfir fjölda manna, sem höfðu neyðzt til þess að víkja frá reglu þess?

Hæstv. ráðh. taldi, að það væri aðeins litið brot þeirra manna, sem hefðu fengið leyfi samkv. þessum reglum fjárhagsráðs, — þeir eru orðnir um 900 á einu ári, — sem hefði lent í deilu við fjárhagsráð um gerð húsanna, og að þetta væri aðeins viðvíkjandi einni teikningu, sem hefði verið verðlaunuð af Reykjavíkurbæ. Þetta er allt mikill misskilningur hjá hæstv. ráðh. (Gripið fram í: Þetta er alveg rétt.) Nei, það er ekki rétt. Það er ekki ein teikning, sem er verðlaunuð af Reykjavíkurbæ, sem hér er um að ræða, að menn hafa byggt eftir og fengið sektir eða ákærur fjárhagsráðs fyrir að byggja eftir. Það var verulegur hluti af þeim 900 mönnum, sem hafa fengið leyfi til þess að byggja þessi hús, sem rak sig á það þegar í byrjun, enda sáu allir menn með heilbrigða skynsemi, sem nokkuð hafa kynnt sér byggingarmál, að það var alls ekkert vit í reglugerð fjárhagsráðs eins og hún var gefin út í september í fyrra. Það sjá allir menn, að ef hús er ekki nema 80 m2 að grunnfleti og má ekki hafa á því hærra ris en einn metra og þarf á þessum 80 m2 grunnfleti að koma fyrir öllu íbúðarhúsnæði og öllu, sem til þess þarf, göngum, hitun, geymslu, þvottahúsi o. s. frv., þá er það mjög takmarkað íbúðarpláss, sem eftir er. Og þessar íbúðir voru einmitt ætlaðar og hlutu að verða ætlaðar einmitt fyrst og fremst barnafjölskyldum, því að það eru þær, sem bíða í mestum vanda eftir því að geta fengið þak yfir höfuðið í þessum bæ og víðar. Ef t. d. sex eða átta manna fjölskylda átti að byggja slíkt hús, þá lá í augum uppi, að það var ekkert vit í því að banna henni að hafa t. d. tveggja eða þriggja metra ris á húsinu, svo að það væri hægt að hafa lítil herbergi fyrir börn í rishæðinni. Þetta lá í augum uppi, hlýtur að liggja í augum uppi fyrir hvern skynsaman mann. En það var ekki um það að ræða, að fjárhagsráð vildi veita — ekki einu sinni í einstökum tilfellum — undanþágu frá þessari einstrengingslegu reglu, sem það hafði sett. Ég leitaði t. d. eftir því fyrir mann, sem á átta börn. Það var ekki um það að ræða, að hann fengi undanþágu þá. Svo segir hæstv. ráðh., að það sé ekki ástæða til að áfellast fjárhagsráð fyrir aðgerðir þess í þessu máli, þó að það sé augljóst, að 900 menn, sem eru að byggja þessar íbúðir fyrir fjölskyldur sínar — barnafjölskyldur hafa að miklum meiri hluta rekið sig á það, að þessar reglur fjárhagsráðs eru þeim til stórbaga og skaða. Og mikill fjöldi þeirra, en ekki lítið brot, eins og hæstv. ráðh. segir, hefur leitað eftir því og sótt um það að fá að hafa rishæðir húsanna hærri, en ekki fengið. Ég get sannað það, að fjárhagsráð hefur í september í haust sagt mönnum alveg afdráttarlaust, að þessar reglur mundu standa og yrði alls ekki vikið frá þeim. En fjöldi manna er svo löghlýðinn í þessu landi, að hann hafði þegar neyðzt til þess að fara eftir þessum reglum fjárhagsráðs og eftir þess upplýsingum um, að það mundi alls ekki verða hvikað frá þessum reglum, og varð að gera rishæðirnar á húsum sínum eftir þessum reglum sér til stórbaga og skaða og þjóðinni til stórskaða, því að þegar fram líða stundir verður þessum rishæðum breytt og risin hækkuð og víkkuð.

Það má vera, og ég tók það fram í minni framsöguræðu, að það sé ekki nema gott eitt um það að segja, að fjárhagsráð hefur loksins neyðzt til þess að slaka á þessum heimskulegu reglum, sem það hefur látið gilda í meira en ár. En það, sem eftir er, er þó a. m. k. sagan um þessi mistök fjárhagsráðs. Ef það er nú rétt að breyta þessum reglum og leyfa nú öllum undantekningarlaust, eins og fjárhagsráð hefur gert nú, að byggja hús, sem eru 340 m3 að stærð, í stað 260 m3 áður, þ. e. a. s. 80 m3 eða þriðjungi stærri, — ef það er rétt, hví var það ekki gert fyrr? Hvers vegna þurfti sjálft fjárhagsráð og hæstv. ríkisstj., sem hafði fylgzt með aðgerðum þess í þessu máli, heilt ár til þess að uppgötva það, að það væri réttara að hafa mörkin þetta miklu hærri? Það þurfti ár til þess að átta sig á því. Það, sem eftir er a. m. k. í þessu máli, er sagan um það, að þessi heimskulegu mistök skuli hafa átt sér stað, skuli hafa getað átt sér stað, að það skuli sitja fimm menn í fjárhagsráði, sem hafa vald til þess að banna mönnum að byggja smáíbúðarhús eftir skynsamlegu viti, og að þessir menn, sem hafa svo mikið vald, skuli ekki hafa svo mikla þekkingu á þeim málum, sem þeir eru að fjalla um, eða a. m. k. hafa vit til þess að kveðja sér til ráðuneytis menn, sem hafa vit á því, — að þeir skuli þurfa heilt ár til þess að uppgötva það, að það sé skynsamlegra að hafa rýmri takmörk í þessu efni, og að það skuli yfirleitt þurfa að taka það til umr. hér á hv. Alþ. að fá slíkum reglum, sem þessi stofnun setur, breytt í skynsamlegra horf. Eftir að 900 menn eru búnir að vinna að því sumarlangt að minnsta kosti, sumir síðan í fyrrahaust, að byggja sér hús yfir höfuðið eftir þessum reglum, sem loksins eftir margra ára baráttu gekk fram að væru settar, þá loksins uppgötvaðist það hjá þessu fjárhagsráði, sem hefur nær óskorað og ótakmarkað vald í byggingarmálum og yfir öllum opinberum framkvæmdum á Íslandi, hvaða stærð þessara húsa sé heppileg. En það var ekki verið að rannsaka það fyrr eða hugsa um það fyrr. Nú hefur það uppgötvazt, og nú segir hæstv. ríkisstj., að það sé rétt, að húsin eigi að vera og þurfi að vera öll 340 m3 mest. Það er nú talið vera rétt. Nú er öllum leyfilegt að byggja þessi hús 340 m3 að stærð, en ekki fram yfir það. Sú hætta getur náttúrlega vofað yfir, að þá geti menn notað rishæðina þannig, að það verði úr því tvær íbúðir, — það er hugsanlegt, — og það var þess vegna, sem fjárhagsráð mun hafa haldið svona fast við þessar reglur. En það hefur nú ekki verið látið ráða úrslitum, þegar til kom. Nei, það, sem er alveg víst í þessu máli, er það, að við höfum yfir okkur fjárhagsráð, sem hefur ekki minnsta vit á því, hvað það er að gera í þessum málum, og hefur ekki einu sinni vit á því að kveðja sér til ráðuneytis sérfróða menn í málum svo þýðingarmiklum eins og þessum, þegar settar eru reglur, sem þúsund manns á hverju ári að minnsta kosti verða neyddir til að fara eftir. Það er það, sem hefur gerzt, og það hefur uppgötvazt loksins núna eftir ár, að þær reglur, sem fjárhagsráð setti í fyrra, voru heimskulegar og ástæðulausar, og nú hefur þeim verið breytt.