04.12.1952
Efri deild: 34. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (3719)

17. mál, þingsköp Alþingis

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil nú mjög taka undir þá ósk, sem kom fram hér frá hæstv. dómsmrh., að þetta mál yrði ekki látið fram ganga hér við þessa umr.

Þegar litið er á frv. til l. um breyt. á l. nr. 115 1936, um þingsköp Alþ., þá er um að ræða staðfestingu á brbl., sem gengið hefur í gegnum þrjár umr. í hv. Nd. og verið samþ. þar óbreytt. Nú er ætlazt til, að gerðar séu hér mjög viðtækar breyt. í fjöldamörgum liðum, eins og sést á þskj. 340, og það er sýnilegt, að ef þær verða samþ. hér, þá fær þetta mál aðeins meðferð í þessari hv. þd., þó þannig, að brtt., ef þær verða samþ., fá ekki nema tvær umr. og síðan aðeins eina umr. í hv. Nd., ef farið er með málið á sama hátt og hæstv. forseti úrskurðaði hér fyrir skömmu um annað mál. Nú eru þingsköp Alþ. ekkert smámál. Ég held því, að það væri mjög æskilegt, ef hv. n., sem hefur lýst því yfir, að hún geri þetta ekki að kappsmáli, vildi taka þessar till. allar aftur að minnsta kosti við þessa umr. og ræða sameiginlega við alla hæstv. forseta þingsins, hvort þeir óski eftir þessu, og þá eins við þann hæstv. ráðh., sem þetta mál heyrir undir, til þess að fá úr því skorið, hvort þeir eru sammála um það, að allar þessar breyt. nái fram að ganga. Ég tel það mjög óeðlilegt, að svo víðtækar breyt. sem hér eru gerðar séu látnar ganga þannig fram sem brtt. við bráðabirgðalög, eins og þau koma frá hv. Nd. Ég mun því ekki treysta mér til þess að greiða atkv. með brtt., en greiði atkv. á móti þeim öllum, ef hv. nefnd sér sér ekki fært að taka till. til baka til frekari athugunar.