05.12.1952
Efri deild: 35. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í C-deild Alþingistíðinda. (3721)

33. mál, áfengislög

Frsm. meiri hl. (Rannveig Þorsteinsdóttir) :

Herra forseti. Ég vil nú segja það um hv. þm. Barð., að hann kom hér nú upp í ræðustólinn svona eins og maður kannast bezt við hann frá þingum á undan. Hann hefur ekki náð sér eiginlega almennilega niðri fyrr, en núna við þetta tæki hér og notaði nú sína þekktu sanngirni og meðferð á sannleikanum, eins og maður veit að honum er svo vel gefið.

Það kann að vera, að hann geti sett mikið út á störf meiri hl. n. og þá sjálfsagt með miklum rétti. Ég skal ekki bera það af okkur. En ég vissi það nú ekki fyrr, að það væri nein algild regla, að það væru yfirleitt birt öll skjöl, sem nefndum berast, eða umsagnir. Ég hefði nú talið, að það væri eiginlega matsatriði hverju sinni og það væri kannske síður, þegar menn eru ekki á sama máli, eins og hér er, sem skjöl væru birt, og af þessum sökum tók meiri hl. n. það ekki upp hjá sér að birta þessar umsagnir. Þessi skjöl eru hverjum manni til sýnis, hvar og hvenær sem er, og það kann vel að vera, að þau verði þá eftir þessa ræðu hv. þm. Barð. hér eftir birt. Ég skal ekki segja um það, en ég frábið mér allar dylgjur um leynd með þessi skjöl. Þau eru öllum til afnota, sem vilja nota þau.

Ég geri nú ráð fyrir því, að ef það, sem hér var sagt áður, kæmi fram í stálþráðinn, þá mundi það koma fram, að það var hæstv. dómsmrh., sem talaði um mig sem fulltrúa kvenna hér á þingi, og ég mun hafa sagt eitthvað í þá átt, að ég bæri það ekki af mér, og ætla ég að standa við það. Svo læt ég útrætt um það að öðru leyti. Hv. þm. Barð. getur skemmt sér við það og notað sína krafta í það að ræða um það, hvers fulltrúi ég sé og hvers ekki. Ég hef aldrei dregið neina dul á það.

Varðandi þetta frv., sem hér liggur fyrir, þá eru aðallega í því fjögur nýmæli frá núgildandi l. Og mig hefði nú langað til að spyrja hv. þm. Barð., vegna þess að hann er svo óspar á hnúturnar til mín og annarra, sem eiga þátt í áliti meiri hlutans, hvort hann hafi nokkurn tíma lesið áfengislöggjöfina sjálfa eins og hún er, því að spurningin er, hvað mundi nú verða eftir af þessu frv. til bóta, þegar búið væri að taka út þau meginatriði, sem eru ný í því umfram það, sem finnst nú í áfengislöggjöfinni. Ég ætla, að það mundi verða lítið. Þessi fjögur atriði er aðallega að finna í 1. gr. frv.. þar sem segir, að tilgangur laga þessara sé að stuðla að hóflegri meðferð áfengis og vinna gegn misnotkun þess. Ég get sagt það fyrir mig, og ég mæli þar áreiðanlega fyrir munn margra, að þessu nýmæli er ég algerlega mótfallin, og flestir þeir, sem ég hef samband og samvinnu við, eru það einnig. Sama er að segja um það nýmæli, sem felst í 7. gr., í fyrsta lagi um þjóðaratkvgr. um bruggun áfengs öls og svo um það, að þá skuli að þeirri þjóðaratkvgr. afstaðinni verða veitt hér áfengt öl í landinu. Sama er að segja um þriðja atriðið, um það að fjölga stöðum, þar sem áfengi skuli vera á boðstólum, eins og ætlazt er til með 12. gr. að sé gert. Þar stangast nokkuð sjónarmiðin um það. Sumir vilja breyta því á einn veg og aðrir á annan. Þetta er líka nýmæli. Svo er nýmælið, sem átti eitthvað að hanka mig á og minn flokk, eða sérstaklega það, að ég hefði farið eftir einhverjum fyrirskipunum, en það er að veita aukið fé til áfengisvarnamála út af fyrir sig. Það er fjórða nýmælið í þessu. Það er sjálfsagt allt gott um það að segja, en þetta er ekki í l. eins og þau eru.

En ég vil nú segja við hv. þm. Barð., að það er nefnilega eitt ástandið í áfengismálunum og hvernig á að laga það og blöð, frv. og brtt. eru þá allt annað, og sannleikurinn er sá, að væri hægt að framkvæma þau áfengisl., sem við nú höfum, væri hægt að framkvæma þau með því fé, sem veitt er til áfengisvarna núna, — það mætti sjálfsagt vera meira, — þá væri áreiðanlega hægt að gera mikið gagn. Og ég sé ekki að orðið geti til nokkurra bóta það frv., sem hér liggur fyrir, þegar búið væri að fella úr því, segjum þau þrjú meginatriði, eða aðallega þau tvö meginatriði, sem það blátt áfram snýst um, það er hægt að segja það (Gripið fram í.), sem eru heimild til bruggunar áfengis og fjölgun útsölustaða. Það er nú mín skoðun, og ég hygg, að hv. þm. Barð. mundi komast að þeirri niðurstöðu líka, ef hann vildi athuga það, að við yrðum ekki að þeim atriðum felldum bættari með þessu nýja frv. — og því síður að þeim samþ. Ég hygg, að hann sé algerlega sammála um það, enda kemur það fram í hans till. (Gripið fram í.)

Það er aðeins varðandi það, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði áðan. Hann var á móti rökstuddu dagskránni út af því, að honum fannst ekki vera sagt satt í henni.

Ég hef nú alltaf skilið það svo, að ef talað væri um fulltrúa einhvers einhvers staðar, þá sé sá fulltrúi tilnefndur af honum sjálfum, en ekki tekinn af einhverjum sem slíkur. Og ég held, að það sé alveg rétt, að sem slíkur fulltrúi hafi herra Brynleifur Tobíasson ekki verið í þessari n., sem vann að áfengislagafrv., þannig að það er ekki um neina rangfærslu að ræða í áliti meiri hlutans.

Svo spyr hv. 1. þm. Eyf., hvers vegna tvær konur eigi að vera í þessari n. Ég álít bara, alveg frómt frá sagt, að það sé alls ekki rétt að ganga fram hjá konum, þegar þessi mál eru til athugunar. Þær hafa alveg sérstakra hagsmuna að gæta vegna heimila sinna, vegna manna sinna og barna í þessu sambandi. Einnig hafa þær sýnt það með störfum sinum í félagsmálum á þessu sviði, að þær hafa mikinn áhuga, og þess vegna hefði þegar í byrjun átt að taka þær með til ráða, og ég álít, að það eigi að gera það í framtíðinni. Við í meiri hl. vildum láta það koma fram í okkar rökstuddu dagskrá.

Það er nú orðinn langur fundartími hjá okkur. Ég hygg, að ég láti þessu lokið. Ég vildi bara segja það, að ég var um það leyti, sem hér voru umr. áðan, að gegna öðrum störfum fyrir hv. allshn., en hef nú fengið orð í eyra fyrir það. Það verður nú svo að vera, en ég ætla ekki hér að fara að deila neitt á aðra flokka fyrir störf þeirra í þessum málum. Ég segi það, sem ég hef sagt áður: Ég trúi því, að allir vilji það bezta í þeim, og þrátt fyrir það, þótt hv. þm. Barð. hafi nú endilega hreint þurft að koma að sinni venjulegu góðgirni í minn garð og í garð míns flokks, þá ætla ég að láta þeim orðum algerlega ósvarað að þessu sinni. Það getur vel verið, að það gefist einhvern tíma tækifæri til þess, — ja, kannske fyrir aðra, sem eru kunnugri málunum en ég, og líka aðra, sem þekkja hans málflutning frá fleiri árum en ég hef gert og geta þá svarað honum í þeim tón, sem vert er. En ég vil ekki taka upp það í þessu máli að fara út í flokkadeilur, þó að honum hafi þótt það hæfa í því máli, sem hann telur svo þýðingarmikið.