21.01.1953
Sameinað þing: 31. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í D-deild Alþingistíðinda. (3723)

200. mál, virkjunarskilyrði á Vestfjörðum

Fyrirspyrjandi (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Það er alkunna, að engin heildarvatnsaflsvirkjun hefur enn þá verið byggð fyrir Vestfirði. Raforkuþörf þessa landshluta hefur til þessa verið leyst með smádieselrafstöðvum. Sú raforka, sem þannig er framleidd, er geysidýr og rekstur mjög óhentugur, og má raunar fullyrða, að hin einstöku byggðarlög fái alls ekki undir honum risið. Ég vil geta þess, að hjá þeirri dieselrafstöðinni, sem dýrast selur rafmagn á Vestfjörðum, er kílówattstundin seld á eina krónu og tæplega átján aura. Rafmagnsverð hér í Reykjavík er hins vegar 42,9 aurar, og meðalverð á raforku frá vatnsaflsstöðvum í landinu yfirleitt er 39,8 — 74,4 aurar á kílówattstund. Það er af þessu auðsætt, hvílík ókjör almenningur býr við á þeim svæðum, sem fá raforku frá þessum litlu dieselrafstöðvum.

Nú er það að vísu svo, að lengur hefur verið talað um heildarvatnsaflsvirkjun fyrir Vestfirði, en flesta aðra landshluta. Það eru margir áratugir síðan fyrst var hafizt handa um athugun möguleika á heildarvirkjun fyrir Vestfirði og þá fyrst og fremst með virkjun Dynjanda. Þrátt fyrir þennan langa undirbúningstíma var ekki á s. l. ári enn komið svo, að unnt væri að segja um það með fullri vissu, hvort tiltækilegt væri að koma upp heildarvirkjun fyrir Vestfirði. Mjög þótti bresta á um upplýsingar og rannsóknir til þess, að hægt væri að slá því föstu, hvort væri hentugra heildarvirkjun eða smávirkjanir, vatnsaflsvirkjanir, fyrir einstaka staði. Því var það, að ég og aðrir þm. Vestfjarða fluttum á síðasta Alþ. þáltill., sem samþykkt var, um rannsókn virkjunarskilyrða í þessum landshluta. Var hún svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fram fara ýtarlega rannsókn á því, hvaða fallvatn eða fallvötn séu vænlegust til raforkuframleiðslu fyrir Vestfirði, þannig að fullnægt geti orðið raforkuþörfum þessa landshluta. Skal leitt í ljós með rannsókninni svo sem auðið er, hvaða möguleikar eru til raforkuframleiðslu á þessu svæði. Rannsókn þessari sé hraðað eftir föngum og að því stefnt, að rökstuddar tillögur og áætlanir um, hvar og hvernig sé haganlegast að virkja, liggi fyrir haustið 1952.“

Í framhaldi af þessari þáltill. höfum við, ég og hv. þm. V-Ísf., leyft okkur að bera fram fyrirspurn til hæstv. raforkumálaráðh. um niðurstöðu rannsóknar á virkjunarskilyrðum á Vestfjörðum samkvæmt þeirri till., sem ég gat hér.

Fyrirspurn okkar er á þá leið, að við spyrjum um, hver orðið hafi niðurstaða rannsóknar þeirrar, sem fyrirskipuð var á síðasta Alþ. að fram skyldi fara, og í öðru lagi, hvaða ráðstafanir hæstv. ríkisstj. hygðist gera til þess að leysa vandræði þessa landshluta í raforkumálum.

Ég vænti, að hæstv. raforkumrh. veiti umbeðnar upplýsingar, og mun að svari hans fengnu ræða þetta mál nokkru frekar.