09.12.1952
Efri deild: 37. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

4. mál, smáíbúðabyggingar

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur athugað þetta frv., sem hér liggur fyrir, og hefur það verið borið fram og flutt inn í þingið af hæstv. ríkisstj., og það er með þeim fyrstu málum, sem í þingið hafa komið. Nd. hefur athugað frv. og hefur samþ. það óbreytt. Við nm. í Ed. sáum ekki ástæðu til þess að bera fram brtt. við frv. Við vitum öll, að það er hin mesta nauðsyn, að fólk og einkum það, sem er minna heimtufrekt um húsnæði, fái tækifæri til að koma upp yfir sig húsum. Og þá eru það smáíbúðirnar, sem eru því nauðsynlegastar. Nú er það þannig, að þó að það fái nokkurt lán út á 1. veðrétt, þá nægir það ekki fullkomlega, heldur er nauðsynlegt, að séð verði fyrir því, að það fái einnig lán út á 2. veðrétt þessara íbúða. Því aðeins er frv. þetta til orðið, að ríkisstj. sé gefin heimild til að útvega lán, að hægt sé aftur að lána það til smáíbúða. Við vitum það, að smáíbúðir hafa margar orðið þannig til, að eigendur sjálfir hafa að meira eða minna leyti unnið að þessu starfi, og hafa þær á þann hátt orðið ódýrari og störf hafa þarna komið fram hjá þeim eigendum hússins, sem annars hefðu ekki komið fram, og að vissu leyti hefur það orðið til þess að auka þjóðareignina, að verk þessara manna, umframvinna þeirra, hefur komizt þarna í arðvæna eign og þjóðarefnin þar með aukizt. Það er engin ástæða til að fjölyrða mikið um þetta frv. Ég býst við, að hv. þdm. séu flestir og sennilega allir á sama máli um það, að rétt sé að veita heimild þessa með lögum, og skal ég því ekki orðlengja frekar þetta mál að sinni.