13.11.1952
Neðri deild: 25. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í B-deild Alþingistíðinda. (400)

17. mál, þingsköp Alþingis

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Þó að hér sé að sjálfsögðu ekki um stórmál að ræða, þessa till. frá hv. þm. A-Húnv., og ekki heldur um flokksmál né það, sem greinir þingið eftir venjulegum linum, þá vildi ég samt, að það kæmi nú fram ein rödd úr þingmannahópi fyrir utan hv. flm. til meðmæla með þessari till., hvernig sem verða úrslít hennar á Alþ. En ég vil alveg taka undir þau rök, sem hv. þm. A-Húnv. flutti hér í ræðu sinni áðan og mér fundust vera skýr og glögg fyrir því, að hér ætti að breyta til. Þau einu rök, sem kynnu að vera færð fram með því að halda við þeim hætti, sem viðgengizt hefur hér af gamalli venju að nokkru leyti og að sumu leyti eftir ákvörðun þingskapa, ætti að vera sú, að það væri ein af þeim erfðavenjum, sem myndazt hefðu um Alþ. Íslendinga og ástæðulaust væri að bregða út af, og það væri gott að halda uppi gömlum og rótgrónum venjum viðkomandi þessari virðulegu stofnun, sem er Alþ. Íslendinga. Sízt vil ég mæla gegn því, en það er alveg auðséð, að frá því að þetta kom fyrst til með ákvæði þingskapa um að kenna þm. við kjördæmi sitt, hefur hér orðið stórbreyting á kjördæmaskipuninni og þeim málum í sambandi við hana, sem gera það nú að verkum, að það er óeðlilegra í alla staði að halda þessari gömlu venju og gömlu reglu, sem myndazt hafði um þetta áður.

Ég vil sízt gera of lítið úr því, sem hv. þm. A-Húnv. sagði, að ég hygg, að það séu fáir menn utan sjálfra forseta þingsins, sem kunna á fingrum sínum, ef svo má segja, röð þeirra 19 þm., sem ýmist eru landsk. eða þm. Reykv., og ég skammast mín ekkert fyrir að segja frá því sjálfur, að það er stundum úr minni mínu liðið, hvaða raðtölu ég hef sem landsk. þm., og þegar hér er t.d. lesið upp í upphafi fundanna, að þessi og þessi þm. Reykv. eða þessi og þessi landsk. þm. hafi fjarvistarleyfi sökum veikinda eða af öðrum ástæðum, þá spyr hver þm. á fætur öðrum: Hver er nú það? Er það þessi, eða er það hinn? - Ég hef orðið var við þetta. Það var t.d. lesið upp í upphafi þessa fundar, að hv. 7. þm. Reykv. hefði fjarvistarleyfi. Ég er ekki alveg viss um það, að meiri hlutinn í þessari hv. d. muni, hver er hv. 7. þm. Reykv. Ég held þess vegna, að allar ástæður hnigi í þá átt, að það sé skýrara, gleggra og eðlilegra að segja frá nöfnum manna, þegar þm. er svarað eða þegar forsetinn tilkynnir um þátttöku þeirra í umr., en hinu vil ég mjög halda við, jafnvel þótt það kunni að vera innihaldslítið form, að hafa titilinn háttvirtur þm. og hæstvirtur ráðh. Það er gömul og góð venja, sem ég álít að sé sjálfsagt að halda við, og þyrfti þar ekkert út af að bregða, þó að samþ. væri till. hv. þm. A-Húnv. Við, sem höfum fyrr eða síðar setið t.d. í bæjarstjórn Reykjavíkur, þar sem eru 15 bæjarfulltrúar, vitum það, að þar ávarpa menn hverjir aðra og segja hv. bæjarfulltrúi þetta eða hitt, ekki í þeirri röð, sem hann er kjörinn eftir hlutfallskosningu til bæjarstjórnarinnar, heldur nefna menn hann með nafni, og það er alltaf bætt við eða var á þeim tíma, þegar ég sat í bæjarstjórn Reykjavíkur, og sagt: Hv. bæjarfulltrúi t.d. Jóhann Hafstein o.s.frv. Það er bætt við nafninu og alltaf bara sagt bæjarfulltrúi, og svo er það líka rétt, sem hv. flm. brtt. gat um, að þar sem ég þekki til á löggjafarþingum, er notað nafn þingmannanna, venjulega með þessum virðulega titli að segja „háttvirtur“ eða orð, sem samsvarar því á íslenzkri tungu. Svo mun vera á þjóðþingum öllum hér á Norðurlöndum og í Bretlandi og að ég hygg víðar. Það er líka, eins og hv. þm. A-Húnv. gat um, enn þá ríkari ástæða til þess að láta koma til greina að víkja hér út frá gömlum reglum, sem miðaðar voru við allt aðra kjördæmaskipun og allt aðra staðhætti, þar sem það gæti vel orðið, að enn þá meiri breyt. yrðu á, sem alveg veltu þessu um hvað snertir þm. og möguleikann á því að kenna þá við sérstök kunn kjördæmi. Ég held þess vegna, að það væri engu fórnað og virðing Alþ. mundi á engan hátt minnka, þó að tekinn væri upp þessi nýrri háttur, en hann yrði til þess eins, að hver einasti þm. vissi, um leið og forseti tilkynnir, hver taki til máls, hver hann væri, og svo þyrftu menn ekki að vera að líta í kringum sig og spyrja sessunaut sinn eða aðra, þegar menn verða að svara tilteknum landsk. þm. eða tilteknum þm. Reykv., og spyrja hann, hver röðin á honum væri, því að það horfum við upp á svo að segja daglega, að þm. lita til sessunauts sins, þegar verið er að svara einhverjum landsk. þm. eða þm. Reykv., og segja: „Í hvaða röð er hann?“ Þá er það kannske einhver minnugur sessunautur, sem gefur upplýsingarnar. Annars mun það vera meginþorri þm., sem flaskar á þessu. Annað tveggja væri að setja þm. í upphafi alla á eins konar námskeið, þar sem forsetar prófuðu þá um það, hvort þeir kynnu alla þessa röð, eða þá að hætta þessum gamla hætti, og ég álít að það gæti vel komið til greina, til þess að þessi háttur yrði ekki að hálfgerðu gríni og gamni, þessi gamli háttur, að forsetar Alþ. létu fara fram með skrifstofustjóranum eins konar námskeið í upphafi hvers þings og þm. mættu ekki setjast á þingbekkina fyrr en þeir væru öruggir í röðinni á þeim 19 þm., sem annaðhvort eru landsk. eða þm. Reykv. En þótt sleppt sé öllu gamni í sambandi við það, þá vildi ég fyrir mitt leyti, þótt hér sé ekki um stórmál að ræða, lýsa minni afstöðu, og ég er eindreginn í því að fylgja brtt. hv. þm. A-Húnv.