04.12.1952
Efri deild: 34. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (411)

17. mál, þingsköp Alþingis

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara langt út í þessar umr., enda þarf þess ekki, því að frsm. n. hefur gert grein fyrir því. En mig hryggir það að heyra dómsmrh. þjóðarinnar óska eftir því að hafa í lögum ákvæði, sem stöðugt eru brotin, óska eftir, að það haldi áfram að vera í lögum til þess að brjóta þau. Mig hryggir það mikið, af því að þó að hér sé að ræða um lög sem eiga að gilda bara fyrir Alþ., þingsköpin, þá getur maður búizt við, að það sé þá minni hugsun á, að önnur l. séu brotin líka, úr því að hann óskar eftir því að hafa áfram í þingsköpunum, að leyfi ráðherra skuli þurfa til að breyta frá þingsköpum, ráðherra, sem venjulega sjást ekki, um það bil sem þarf að biðja um leyfi, og venjulega verður að segja: „Ja, ráðherrar hafa nú ekki neitað því, að það væru veitt afbrigði.“ Venjulegast hefur orðið að taka málin þannig lagað fyrir, og það hryggir mig, að hann óskaði eftir að halda áfram að hafa það í lögum.

En það er eitt atriði hérna, sem ég vil benda á og ég held, þó að ég sé í n., að n. hafi ekki áttað sig almennilega á, og ég vil taka það fram, af því að ég kem til með að greiða atkvæði á móti þeirri grein, ef hún er ekki dregin til baka nú til að byrja með til 3. umr. Það er síðasti liðurinn, f-liðurinn. Það varð algert samkomulag um það í n., að þegar búið væri að flýta afgreiðslu mála með því að færa úr tveim nóttum í eina, sem málin þyrftu að liggja fyrir, án þess að þyrfti að taka þau fyrir með afbrigðum, þá væri ekki ástæða til þess að minnka þann hluta þm., sem gæti neitað um afbrigði. Það gæti alltaf verið minni hluti, sem teldi sig á þeim eina degi, eina sólarhring, sem liði frá því að málinu væri útbýtt í þinginu og þangað til það kæmi til umr., ekki vera búinn að afla sér nægra upplýsinga til að vera tilbúinn til að taka þátt í umr., og þess vegna væri eðlilegt, að hann gæti þá neitað um afbrigði til að vinna sér einn sólarhring í viðbót til þess að undirbúa sig undir málið. Það nákvæmlega sama getur átt við um ráðherra. Það höfum við ekki athugað, og þess vegna höfum við lagt til, að í þessu tilfelli félli burt leyfi ráðherra, en í þessu tilfelli fel ég rétt, að ráðherra fái líka, ef hann er í d., að neita, svo að hann geti líka aflað sér tíma, ef það á að pressa í gegn mál, sem hann vill tala í og hann er ekki undirbúinn að tala um. Það er lagt fram í dag. Það á að ræða það á morgun. Hann er upptekinn af mörgu öðru og getur ekki sett sig inn í málið, vill hins vegar taka þátt í umr. um það, og þá á hann að geta neitað um afbrigði alveg eins og d. getur, ef hún vill kynnast málinu betur, svoleiðis að hún fái einn sólarhring í viðbót til að búa sig undir málið. Ég var ekki búinn að átta mig til fulls á þessu, þegar n. ræddi um þetta, en ég mun greiða atkv. á móti f-liðnum og vildi nú helzt af öllu, að n. tæki hann aftur til 3. umr.