04.12.1952
Efri deild: 34. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í B-deild Alþingistíðinda. (413)

17. mál, þingsköp Alþingis

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég lýsti yfir hryggð minni áðan, — og það var nú ekki annað, sem ég gerði, — og sú hryggð er alveg ákveðin og einlæg. Það er af því, að þegar enginn hæstv. ráðh. er við og það þarf leyfi þeirra til að mál megi taka fyrir með afbrigðum, þá veit hæstv. ráðh., að þetta er alltaf brotið með því að segja,— ja, það var byrjað á að segja hér í d., að ráðh. hefðu veitt leyfin. Þá greip ég einhvern tíma fram í og spurði, hvort stólarnir töluðu. Eftir það var hætt að orða það þannig lagað og sagt: Ja, ráðh. hefur ekki neitað um afbrigði — og þögn væri sama og samþykki. Þess vegna er þetta dauður bókstafur og ekkert vit í að hafa þetta í þingsköpum, eins og málið stendur.

Í öðru lagi vil ég benda á það, að við getum fellt niður ávarp úr þingsköpum, þótt það sé í stjórnarskránni, sem hæstv. dómsmrh. er búinn að vera að endurskoða í nokkuð mörg ár með nokkuð mörgum mönnum, — nokkuð lengi með formanni, sem var dáinn nokkur ár, þegar hann átti að endurskoða það, Sigurði sáluga Eggerz, sem var í einni n., og var ekki kosinn formaður í hans stað lengi eftir lát hans. Það er ekki enn þá búið að koma þessari endurskoðun í verk. Og það er ekkert um það, þó að það sé ákvæði í stjórnarskránni um, að Alþingi megi senda forsetanum ávarp. Hvaða þörf er á því að taka það upp í þingsköp, að það megi senda honum ávarp? Það er ekki bannað, þótt greinin sé lögð niður. Það er í stjórnarskránni, að það megi senda honum ávarp, og þótt ekki standi það í þingsköpunum, þá er það ekki á nokkurn hátt bannað, heldur þvert á móti leyft í stjórnarskránni. Við höfum alveg fullt leyfi til þess að senda ávarp og orða það eins og okkur sýnist, þótt ekkert sé um það í þingsköpunum, og ræða það eins og aðra þáltill., sem fyrir liggur í þingi. Það er þess vegna alger misskilningur, að það megi ekki falla niður úr þingsköpum, þótt það sé í stjórnarskránni. Einmitt af því að það er í stjórnarskránni, þá má það falla niður í þingsköpum, því að það er heimilað í henni að senda ávörp, og við þurfum ekki að hafa neina aðra heimild fyrir því heldur en þá, sem í stjórnarskránni stendur. Þess vegna er það á algerum misskilningi byggt, að það ákvæði megi ekki falla niður úr þingsköpunum, af því að það er í stjórnarskránni, og er ég hissa á hæstv. dómsmrh. að halda slíku fram.